Einmenningskjördæmi: Draumur allra nema Framsóknar

Einmenningskjördæmi myndu verða til þess að á Íslandi yðri til tveggjaflokkakerfi. Það hefur þann mikilvæga kost að smáflokkar eru ekki eilíflega í oddaaðstöðu. Slík kjördæmaskipan myndi líklega einnig draga úr þeim yfirþyrmandi flokksaga sem ríkir á Alþingi.

Á undanförnum árum hefur umræðan um að gera landið að einu kjördæmi orðið æ háværari. Þeir sem berjast fyrir þessu máli gera það oftast nær vegna þess að þeir telja þetta vera einu leiðina til þess að tryggja jafnt atkvæðavægi til langframa. Og það er vissulega rétt að engar aðrar breytingar á kjördæmaskipan myndu tryggja það markmið betur. En kjördæmaskipanin hefur fleiri mikilvægar afleiðingar en einungis hlutfallslegt atkvæðavægi.

Hinar öfgarnar hvað varðar kjördæmaskipan er að landinu verði skipt upp í einmenningskjördæmi. Því miður hefur lítið borið á umræðu um þessa leið á Íslandi á undanförnum árum. Einmenningskjördæmi hafa nefnilega nokkra mikilvæga kosti.

Stærsti kosturinn við einmenningskjördæmi er að slík kjördæmaskipan myndi líklegast leiða til þess að á Íslandi myndi verða til tveggjaflokkakerfi. Þetta hefur þann mikilvæga kost að koma í veg fyrir að smáflokkar á borð við Framsóknarflokkinn séu eilíflega í oddaaðstöðu og þar af leiðandi margfallt valdameiri en stuðningur þeirra á meðal kjósenda gefur tilefni til þess að þeir séu.

Eða lítum á þetta atriði frá ögn öðru sjónarmiði. Draumur vinnstrimanna hefur alla tíð verið sameining vinstriflokkanna. Einmenningskjördæmi myndu neyða vinstriflokkana til þess að sameinast. Einmenningskjördæmi ættu því að vera draumur vinstrimanna. Draumur Sjálfstæðismanna hefur alla tíð verið að hafa hreinan meirihluta. Tveggjaflokkakerfi myndi gera það að verkum að sá draumur gæti ræst. Einmenningskjördæmi ættu því að vera draumur Sjálfstæðismanna. Einmenningskjördæmi eru því draumur allra nema Framsóknarmanna.

Annar mikilvægur kostur einmenningskjördæma er að slík kjördæmaskipan myndi að öllum líkindum minnka þann gríðarlega flokksaga sem ríkir á Alþingi. Flokkarnir hefðu minni tök á því að halda mönnum inn á ákveðinni línu þar sem hver og einn þingmaður myndi sækja umboð sitt beint til sinna eigin kjósenda í sínu kjördæmi í stað þess að þurfa að eiga það á hættu að fá ekki gott sæti á lista flokksins.

Það hefur verið ömurlegt að horfa upp á það hvernig þingmenn hafa verið beigðir inn á flokkslínuna gegn sannfæringu sinni trekk í trekk á undanförnum árum. Það er líka sorglegt hversu fáir þingmenn hafa eitthvað markvert og frumlegt fram að færa. Og hversu fáir berjast með óheftum hætti fyrir málefnum sem þeim finnst sérstaklega mikilvæg. Í staðinn virðist Alþingi fyllast af sviplausum jámönnum.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.