Þú ert með litla rödd og ljóta!

Helgarnestið að þessu sinni helgað hámenningu, en ekki IDOL stjörnuleit hreyfimyndum og annarri lágmenningu. Enda kominn tími til fyrir löngu að gefa hámenningu gaum og

uppfræða þá sem að telja að gyðja sönglistarinnar sé með lögheimili í Smáralind og að lærisneiðar hennar séu þeir sem hljóta náð fyrir panel af poppurum.

,,Pistlahöfundi skolaði á bekki Íslensku Óperunnar fyrir stuttu; nánar tiltekið á óperuna Toscu eftir Puccini. Þrátt fyrir að vera boðinn miði á hinn alheimsþekkta

skemmtikraft Eddie Izzard grínara sama kvöld og Tosca var sýnd vildi greinarhöfundur frekar sitja og vera hámenningarlegur í sínu besta pússi og stúdera heim óperunnar, í stað þess að sitja órakaður í bol og frekar subbulegur að hlýða á uppistand. Menn njóta nefnilega ekki hámenningar nema í glæsilegum, en jafnframt óþægilegum fötum. Og menn komast heldur ekki langt á stolnum hesti!

Til glöggvunar þeim sem þekkja ekki hinn stórkostlega heim óperunnar þá eru óperur svipaðir og söngleikir a la Grease, nema að ekkert er um mónólóga og annað mælt mál, heldur er söguþræðinum komið á framfæri með leik og söng og jafnvel dansi.

Oft á tíðum eru litríkir karakterar notaðir til þess að lífga upp á söguþráð eins og smaladrengir, hirðfífl, fuglafangarar, næturdrottningar, illmenni og önnur eins

viðrini.

Á sýningunni sjálfri var höfundi skemmt, þar sem mikið gerviblóð var notað til þess að sýna holsár söngvarana, gler datt í gólfið og splundraðist svo að sviðsmenn í

gallabuxum með headsett urðu partur af karakterum í stykki sem á að gerast rétt eftir aldamótin 1800.

Galli var og mínus að varðmenn í sýningunni voru með sólgleraugu og svartklæddir svipað og sást í kvikmyndinni The Matrix um árið. Ekki var greinarhöfundi ljóst hvað

slíkt átti að fyrirstilla. Þetta var ekki töff, heldur meira svona ömurlegt!“

Grein þessi er sú fyrsta í flokki 25 greina um unaðsheim óperunnar. Er þessi grein prologus að flokknum og er rituð af Agi Snæ Aglasyni 12 ára vírtúós í fiðluleik.

Um heim óperunnar verður frekar fjallað um næst í pistli sem ber nafnið: ,,Taktu köldu lúkuna þína af rauðu brjóstunum á mér“ og er hann helgaður stormasömu sambandi

tenóra og sóprana.

En nóg um það. Jamm.

Það er aftur farið að kólna svo skemmtanasjúkir helgaralkar og önnur blekbörn ættu að gæta þess vandlega að klæða sig eftir veðri og láta sól á glugga ekki blekkja sig en sveipa sig brekánum og öðrum hlýjum fatnaði til þess að verða ekki úti á biðröðum við Rex og Kaffibarinn.

Sjálfur á greinarhöfundur miða á IDOLIÐ í Smáralind í kvöld og verður þar að

sjálfsögðu.

Góða helgi!

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.