Matarskattur og ofát Íslendinga

Er lækkun matarskatts skynsamleg þegar velmegun hefur aukist svo að hlutur matar í útgjöldum heimilanna hefur minnkað úr 50% í 15% og stór hluti þjóðarinnar á við offituvanda að stríða? Þurfum við ekki að endurhugsa rökin með og á móti lækkun matarskatts?

Á undanförnum misserum hefur talsvert borið á umræðu um lækkun matarskatts. Það var til dæmis stefnumál bæði Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar að lækka virðisaukaskatt á mat úr 14% í 7%. Lækkun matarskatts virðist vera nokkuð vinsælt á meðal kjósenda og því er ekki ólíklegt að slíkri lækkun verði að veruleika einhvern tíma á næstu árum.

Er lækkun matarskatts skynsamleg?

Aðal rökin fyrir lækkun matarskatts eru þau að slíkur skattur komi illa niður á þeim sem standa verst fjárhagslega þar sem þeir verja stærri hluta tekna sinna í mat en þeir sem hafa meira fé milli handanna. Lækkun matarskatts eykur því tekjutilfærsluáhrif skattkerfisins og kemur þeim sem verst standa til góða.

Fyrir 50 til 75 árum var þessi röksemdafærsla mjög mikilvæg. Á þeim tíma vörðu þeir sem verst stóðu fjárhagslega bróðurparti tekna sinna í mat. Mikilvægi þessarar röksemdafærslu hefur hins vegar minnkað verulega á síðustu 50 árum þar sem velmegun hefur aukist gríðarlega. Á þessum tíma hefur hlutur matar í útgjöldum íslenskra fjölskyldna minnkað verulega. Í dag er matur ekki lengur stærsti útgjaldaliðurinn á flestum heimilum. Flestir eyða meiru í samgöngur og húsnæði en þeir eyða í mat. Hlutur matar í útgjöldum vísitölufjölskyldunnar hefur minnað úr því að vera stærri en 50% í það að vera um 15%.

Í dag ættu því aðrir þættir að vega þyngra í umræðu um hækkun eða lækkun matarskatts en þeir hafa í gegnum tíðina. Ein rök gegn lækkun matarskatts er að slík skattlagning er hagkvæm þar sem hún veldur minni röskun á neysluvenjum fólks en flestir aðrir skattar. Þetta er vegna þess að eftirspurnarteigni matar er lægri en eftirspurnarteigni flestra annarra vara. Háir skattar á raftæki leiða til þess að fólk dregur verulega úr kaupum sínum á raftækjum. Þetta gerist mun síður þegar matur á í hlut. Það er því erfiðara að afla þeirra tekna sem ríkið þarf gegnum skatta á raftæki en skatta á mat.

Annar þáttur sem skiptir auknu máli í þessu sambandi er hin mikla aukning sem orðið hefur á offitu á Íslandi á síðustu árum. Eins og ég fjallaði um hér á Deiglunni fyrir nokkrum vikum erum við Íslendingar meðal feitustu þjóða heims. Offita er að verða eitt stærsta lýðheilsuvandamál sem íslenska þjóðin á við að etja.

Það sem meira er, erlendar rannsóknir benda til þess að offita sé hlutfallslega algengust á meðal þeirra sem hafa lægstar tekjur. Það segir sig sjálft að lækkun matarskatts ýtir undir aukna neyslu á mat. Við núverandi aðstæður, þegar ofát er orðið verulegt vandamál, er því lækkun matarskatts tvíbennd.

Það er reynar ekki augljóst að lækkun matarskatts leiði til aukinnar offitu. Hollur matur er oft á tíðum dýrari en óhollur matur. Það getur því verið að lækkun matarskatts leiði til þess að fólk borði hollari mat þar sem það hefur þá betur efni á honum. Rök sem þessi benda til þess að það sé ef til vill skynsamlegt að lækka skatta á hollum mat (t.d. grænmeti og ávöxtum), en ekki mat almennt.

Margir sem þjást af offitu segjast óska þess að þeir ætu minna en að þeim reynist erfitt að hafa nægilega stjórn á matarræði sínu til þess að grennast. Offita er því að hluta til komin vegna þess að fólk skortir sjálfstjórn. (Vitaskuld er gríðarlegur líffræðilegur munum á fólki sem gerir það að verkum að sumir þurfa að passa mataræðið mun betur en aðrir til þess að þyngjast ekki um of. Ég er því ekki að segja að feit fólk hafi minni sjálfstjórn en aðrir.) Hækkun matarskatts hjálpar fólki sem á í vandræðum með að hemja át sitt með því að gera það kostnaðarsamara fyrir það að borða of mikið. Það má því færa rök fyrir því að hækkun matarskatts bæti hag þeirra sem borða of mikið. Hækkun matarskatts bætir síðan hag hinna þar sem þeir njóta skattteknanna sem aflast jafnt en greiða hlutafallslega minna af skattinum. Það má því færa rök fyrir því að hækkun matarskatts bæti hag allra að því gefnu að aðrir skattar séu lækkaðir á móti.

Að mínu mati vega röksemdirnar gegn lækkun matarskatts þyngra en gamla röksemdin fyrir slíkum skattalækunum. Í raun væri skynsamlegast að hækka virðisaukaskatt á mat upp í sama hlutfall og á öðrum vörum og nota tekjurnar sem fást með því til þess að lækka virðisaukaskattshlutfallið á allar vörur. Þó er líklega skynsamlegt að virðisaukaskattur á grænmeti og ávexti verði felldur niður til þess að ýta undir neyslu á hollum mat.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.