Ólík vandamál ólíkra heima

4,15 eða 4,2% vaxtakjör, 80% eða 100% lánshlutfall, Sundabraut eða mislæg gatnamót, flugvöllinn burt eða ekki. Það er erfitt að vera Íslendingur í dag.

Fátækt4,15 eða 4,2% vaxtakjör, 80% eða 100% lánshlutfall, Sundabraut eða mislæg gatnamót, flugvöllur í Reykjavík eða ekki. Það er erfitt að vera Íslendingur í dag.

Það rann upp fyrir mér ljós í fyrrakvöld þegar ég horfði á bandaríska sjónvarspþáttinn Bráðavaktina. Þátturinn hefur fært sjónarsvið sitt að hluta út til þriðja heimsins þar sem áhorfendur fá að fylgjast með á áhrifaríkan hátt hvernig læknar reyna að gera líf fátækra, hungraðra og veikra bærilegra. Þátturinn sagði frá fimm manna fjölskyldu sem öll var smituð af eyðni. Konan missti manninn sinn og ungan son og bjó sig undir að kveðja eftirlifandi börn sín. Læknar unnu við ömurleg skilyrði þar sem lyf voru af skornum skammti og valið stóð á milli þess að bjarga einu barni frekar eða öðru. Það var ekki hægt að bjarga báðum, hvað þá öllum. Allar aðstæður fólks á svæðinu voru hörmulegar, hungrað fólk, eyðnismitaðar fjölskyldur, dáin börn, eymd, vonleysi, barátta, sorg, reiði, vonbrigði, vanmáttur. Allar þessar tilfinningar náði þátturinn að fanga í mér. Þrátt fyrir að að einungis hafi verið um sjónvarpsþátt að ræða þá endurspeglar hann því miður blákaldan raunveruleika fjölda fólks. Ekki fyrir utan gluggann hjá mér heldur handan við hafið og löndin, þar sem við sjáum ekki til – og það sem við sjáum ekki, virðist ekki skipta okkur miklu máli.

Skömmu síðar gekk ég inn til sonar míns þar sem hann lá sofandi. Áhyggjulaus, saddur, hreinn og heilbrigður. Framundan bíða hans tækifæri, val og frelsi til að lifa góðu lífi. Sem foreldri hef ég flest tækifæri til þess að geta veitt honum gott líf. Það kostar mig bara skipulag, vinnu og örlitla þrautseigju. Menntun, lyf, heilsugæsla, fjölskylda, vinir, fæða, klæði, heimili, öryggi, hlýja og gleði standa honum til boða. Það eru forréttindi að geta veitt börnum sínum slík lífsskilyrði.

Okkur er hollt annað kastið að staldra við og velta því fyrir okkur hvort „vandamálin“ sem við stöndum frammi fyrir séu jafnalvarleg og við viljum oft vera láta. Við ættum að minnsta kosti að þakka fyrir það sem við höfum og leggja okkar af mörkum til þess aðrir fái notið þess sama.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)