Kappræður og kosningar

Þriðju og síðustu kappræður forsetaframbjóðendanna John Kerry og George W. Bush fóru fram í nótt. Staðsetning þeirra í þetta skiptið var táknræn. Þær voru haldnar í þriðja stærsta háskóla Bandaríkjanna, Arizona State, í byggingu sem upphaflega var hönnuð sem tónleikahús og átti að rísa í Bagdad, höfuðborg Íraks.

Þriðju og síðustu kappræður forsetaframbjóðendanna John Kerry og George W. Bush fóru fram í nótt. Staðsetning þeirra í þetta skiptið var táknræn. Þær voru haldnar í þriðja stærsta háskóla Bandaríkjanna, Arizona State, í byggingu sem upphaflega var hönnuð sem tónleikahús og átti að rísa í Bagdad, höfuðborg Íraks.

Kappræður forsetaefnanna hafa farið fram með lítið breyttu sniði frá árinu 1960 þegar Nixon og Kennedy tókust á. Þó að almennt hafi þróunin verið í þá átt að færri fylgjast með kappræðunum virðist áhuginn eitthvað að vera taka við sér í kringum þessar kosningar en talið er að um 62 milljónir Bandaríkjamanna hafi fylgst með síðustu kappræðum sem er um 35% aukning frá kosningunum 2000. Mjög skiptar skoðanir eru um vægi þessara kappræðna og sumir vilja meina að þær skipti litlu máli því langflestir hafi þegar gert upp hug sinn áður en að þeim kemur. Aðrir benda á að þetta sé besta tækifæri kjósenda til að leggja mat á frambjóðendur og þá persónu sem þeir hafa fram að færa.

Hvort sem vægi þeirra er mikið eða lítið er ljóst að báðir flokkar leggja töluvert á sig til að „sigra“ kappræðurnar ef ekki til annars en að bæta starfsandann í kosningabaráttunni.

Í kappræðum sem þessum er mikilvægt að menn hafi staðreyndir á hreinu. Það hefur sýnt sig að þegar frambjóðendur tala um tölulegar staðreyndir eru þeir metnir sem sannfærandi og gáfaðir. Góð áhrif nákvæmra staðreynda geta snúist upp í andhverfu sína ef frambjóðandi fellur í gryfju mistaka, rangtúlkana eða ónákvæmni. Þetta fékk Gerald Ford að reyna í rökræðunum árið 1967 þegar hann fullyrti að Pólland væri laust undan áhrifum Sovétríkjanna og uppskar litlar þakkir, og varla atkvæði, frá pólskum innflytjendum í Bandaríkjunum.

John Kerry virðist leggja mikla áherslu á þetta atriði og kemur áralöng reynsla hans sem öldungardeildarþingmaður og saksóknari honum að góðum notum.

Þó að afstaða til fóstureyðinga, skatta, stríðsins í Írak og ástands hagkerfisins sé mikilvæg í sjónvarpskappræðunum er ýmislegt ekki eins augljóst sem getur haft áhrif á úrslit þeirra. Góð málefnastaða hefur lítil áhrif ef hún er ekki studd af sterkum leiðtoga sem hvort í senn er ákveðinn, samúðarfullur og mannlegur. Lítill brandari getur snúið tapi í sigur. Ronald Reagan heitinn var sérstaklega hæfileikaríkur þegar kom að þessum hluta kosningabaráttunnar. Sagt var að hann geislaði af mannlegri hlýju og hæfileika til að svara fyrir erfið málefni með einföldum frösum eða bröndurum. Sjálfur sagði hann um slíka tækni:,, They say the world has become too complex for simple answers. They are wrong.“

Segja má að þetta sé einmitt kjarni þeirrar tækni sem George W. Bush nýtir sér og meira liggi að baki en einfeldni. Meirihluti Bandaríkjamanna er ekki stjórnmálafræðingar og vill hraðsoðna matreiðslu á því sem er að gerast. Í þeim anda mætti kannski komast svo að orði að svo lengi sem stefnan er rétt skiptir ekki máli hvaða leið er farin.

Framkoma og útlit virðast einnig vera í jöfnunni fyrir árangri í kappræðum. Talað er um að blá eða svört jakkaföt (e.,,Power suit“) virki best og að rautt bindi beri vott um ákveðni og kjark. Báðir frambjóðendur virtust fylgja þeirri reglu í nótt. Eins virtist Bush hafa komist í bók kosningastjóra Framsóknarflokksins því oft á tíðum minnti vandræðalegt bros á Halldór Ásgrímsson á auglýsingaskilti við Kringlumýrarbrautina fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Síðustu skoðanakannanir benda til þess að mjótt sé á mununum á milli frambjóðendanna og ljóst að töluvert veltur á óákveðnum atkvæðum. Margir segja kappræðurnar geti haft úrslitaáhrif og nefna því til stuðnings að fylgi demókrata virtist aukast eftir fyrri tvær sem ætti að skýrast af því að John Kerry hafi staðið sig betur. Aðrir hafa nefnt að baráttan snúist að miklu leyti um ástand hagkerfisins og fátt annað. Könnun Washington Post, sem birt var 6. október síðastliðinn, virðist styðja þá fullyrðingu en samkvæmt henni telja flestir Bandaríkjamenn lítið hafa áunnist í efnahagsmálum síðan Bush tók við. Atvinnuleysi hefur ekki minnkað sem skildi og fjárlagahallinn aukist. Hvort þeir treysti Kerry betur er svo annað mál.

Atburðirnir 11. september 2001 eru Bandaríkjamönnum enn í fersku minni og er líklegt að þeir eigi eftir að hafa áhrif á úrslit kosninganna. Tilraunir til að auka öryggi heima fyrir og útlagður kostnaður vegna allskyns hernaðarbrölts til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig hafa sett mark sitt á forsetatíð Bush. Stuðningsmenn forsetans benda á að ástand hagkerfisins megi að stórum hluta skýra af mjög sérstökum aðstæðum eftir 11. september og að sterk bein og skýr markmið hafi þurft til að taka á þeim. Jafnframt benda þeir á að Kerry sé ekki treystandi til að stýra landinu í stríði og á tímum sem þarfnist skýrrar stefnumörkunar og ákveðni. Nefna þeir máli sínu til stuðnings að Kerry hafi kosið á móti stríðinu í Írak en sé fylgjandi því núna. Slík óákveðni gangi ekki í hlutverki forseta Bandaríkjanna.

Í kappræðunum síðastliðna nótt var nokkuð ljóst að báðir frambjóðendurnir höfðu unnið heimavinnuna sína. Þó virtist Kerry standa sig nokkuð betur eins og í fyrri kappræðum og var ákveðnari og skýrari í svörum sínum.

Hvort að það dugi til að vinna hug og hjörtu meirihluta kjósenda fáum við að vita 2. nóvember.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.