Við hvað eiga eldri bændur þá að vinna?

Aukið viðskiptafrelsi og afnám ríkisstyrkja kemur ekki öllum að góðu. Slík stefna er því tvíræð frá siðferðilegu sjónarmiði.

Í síðasta pistli mínum hér á Deiglunni fjallaði ég um þá sem óttast frjáls viðskipti og afnám styrkja í landbúnaði vegna þess að þeir telja að slík stefna muni leiða til aukins atvinnuleysis til langframa þar sem störf tapast þegar bændur leggja upp laupana. En sumir sem spyrja: Við hvað eiga bændur þá að vinna?, eru alls ekki haldnir þeirri villutrú að atvinna sé takmörkuð auðlind. Þvert á móti hafa þeir góðan skilning á afleiðingum aukins viðskiptafrelsis og afnámi styrkja og átta sig þess vegna á því að ekki allir hagnast af slíkum aðgerðurm.

Þótt langflestir hafi hag af viðskiptafrelsi og afnámi landbúnaðarstyrkja, sérstaklega til langframa, þá er ljóst að hagur sumra þeirra sem nú stunda landbúnað myndi versna. Afnám styrkja í landbúnaði myndi leiða til samdráttar í íslenskum landbúnaði og í þjónustu við landbúnaðinn. Þeir sem missa störfin við þennan samdrátt og eru ekki vel í stakk búnir til þess að skipta um starfsvettvang, s.s. vegna aldurs eða einhæfrar þekkingar, munu eiga erfitt með að finna ný störf með svipuð launum.

Þessi staðreynd gerir það að verkum að aukið viðskiptafrelsi og afnám styrkja er tvíræð stefna frá siðferðilegu sjónarmiði. Sumir hagnast en aðrir tapa. Það er því álitamál hvort slík stefna sé siðferðilega réttlætanleg.

Það sama gildir hins vegar um margt fleira. Til dæmis, þegar fyrirtæki verða gjaldþrota leiðir það oft á tíðum til þess að fólk missir vinnuna. Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur og/eða búa yfir þekkingu sem gagnast eingöngu innan þess fyrirtækis sem þeir vinna eiga erfitt með að finna sambærileg störf annars staðar. Á ríkið að grípa inn í og koma í veg fyrir að fyrirtækið verði gjaldþrota?

Þeir sem aðhyllast viðskiptafrelsi og eru á móti ríkisstyrkjum meta það svo að betra sé að þeim sem illa gengur sé leyft að fara á hausinn. Fyrirtæki og atvinnugreinar sem eiga í erfiðleikum eru ekki nægilega hagkvæm til þess að geta borgað jafn há laun og önnur fyrirtæki í landinu. Ef lífinu er haldið í slíkum fyrirtækjum er í raun verið að binda fjármagn og vinnuafl í óhagkvæmum einingum og þannig halda aftur af vexti hagkerfisins. Slík stefna myndi til lengdar leiða til þess að allir hefðu það miklu verra en ella.

Þeir sem aðhyllast viðskiptafrelsi og eru á móti ríkisstyrkum telja að tímabundinn skaði þeirra sem missa störf sín þegar slík fyrirtæki verða gjaldþrota vegi ekki jafn þungt og sú aukna hagsæld allra komandi kynslóða sem fylgir hagstjórnarkerfi sem byggir á arðsemisaga.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.