Enn eitt kennaraverkfall

kennaraverkfallNú virðist fátt geta komið í veg fyrir að enn eitt kennaraverkfallið skelli á. Einhvern veginn virðast kennarar alltaf vera annað hvort í verkfalli eða á leiðinni í verkfall. Líklega hefur engin önnur stétt á Íslandi farið jafnoft í verkfall og kennarar – og náð jafnlitlu fram.

kennaraverkfallNú virðist fátt geta komið í veg fyrir að enn eitt kennaraverkfallið skelli á. Einhvern veginn virðast kennarar alltaf vera annað hvort í verkfalli eða á leiðinni í verkfall. Líklega hefur engin önnur stétt á Íslandi farið jafnoft í verkfall og kennarar – og náð jafnlitlu fram. Annað hvort eru baráttuaðferðir þeirra úreltar eða grunnskólakerfið sjálft úrelt.

Nú eru það grunnskólakennarar sem ætla leggja niður vinnu og miðað við launakröfur þeirra er lítið sem kemur í veg fyrir að grunnskólakrakkar verði sendir heim þann 20. september næstkomandi. Forystusveit kennara stærir sig af 900 milljón króna verkfallssjóði og kennarar búast við löngu þrefi enda sumir hverjir byrjaðir að bóka utanlandsferðir. Foreldrar á fimmta tug þúsunda barna verða því að gera einhverjar aðrar ráðstafanir en að senda börnin sín í skólann á næstunni. Hversu lengi verkfallið varir er ekki gott að segja en miðað við fyrri vinnubrögð hjá handónýtri forystusveit kennara gæti það orðið langt en skilar væntanlega litlu sem engu í vasa kennara.

Það er merkilegt að heyra forystusveit kennara tala um að þeir hafi efni á því að fara í langt verkfall því verkfallssjóður sé svo digur. Það er ekki eins og verkfallssjóður sé kominn af himnum ofan heldur eru það kennararnir sjálfir sem borga í hann, allt of háa fjárhæð mánaðarlega. Hins vegar er vonlaust fyrir þá að ná þessum dýrmætu krónum til baka nema með því að fara í verkfall. Þetta er í meira lagi undarlegur hvati, og raunar ætti samninganefnd sveitarfélaganna að gera það að skilyrði fyrir samningum að hætt verði að fita þennan sjóð. Í verkfalli greiðir verkfallssjóður hverjum kennara í fullu starfi 3000 kr. hvern verkfallsdag eða um 90.000 kr á mánuði. Launahækkunin þarf því að vera umtalsverð einungis til þess að vinna upp launatapið í verkfallinu.

En vissulega er fullt af metnaðarfullum grunnskólakennurum sem eiga skilið að fá hærri laun. Nútímaþjóðfélag þar sem báðir foreldarar eru útivinnandi gerir auknar kröfur á menntakerfið og mikilvægur hluti af uppeldisstarfi barna fer fram í grunnskólum landsins. Við verðum því að skapa aðstæður þannið að besta fólkið veljist í stöður grunnskólakennara og hagfræðingar geta án efa reiknað út að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að borga kennurum góð laun.

En það er líka fullt af vonlausum kennurum sem eiga ekkert skilið að fá hærri laun og það er mergur málsins. Það verður að mismuna kennurum eftir hæfni og frammistöðu. Kommúnískar hugsjónir forystusveitar kennara eru úreltar og metnaðarfullir kennarar eiga að sjá hag sinn í því að stokka upp menntakerfið. Skólastjórar verða að hafa tól og tæki til þess að geta verðlaunað góða kennara og einfaldlega rekið lélega kennara. Kommúnískur jöfnuður góðra og lélegra kennara drepur allan nauðsynlega hvata til þess að skara fram úr og slíkt kerfi verður aldrei nógu gott. Það verður að verðlauna góða kennara sem ná árangri með hærri launum.

Forystusveit kennara vill ekki heyra á það minnst að mismuna kennurum og telur slíkt ógerlegt í framkvæmd. Sú fullyrðing er annað hvort áfellisdómur yfir skólastjórum þessa lands eða atvinnulífinu í heild sinni. Það er ekki eins og það sé óyfirstíganlegt verkefni að útbúa einhvers konar starfsmatskerfi eða fela skólastjórum að mæla árangur kennara. Atvinnulífið er daglega að dæma störf launþega og umbuna þeim samkvæmt því. Það hlýtur að vera hægt að færa kennara inn í 21. öldina eins og aðrar stéttir.

Auk þess þarf að skapa samkeppni á milli grunnskóla svo samkeppni skapist um góða kennara. Úthluta þarf fjármagni til grunnskóla samkvæmt reikniformúlu um fjölda nemenda og leyfa foreldrum að ákveða hvar þeir mennta börnin sín. Þá myndast samkeppni á milli skólanna sem er nauðsynlegur hvati til þess að bæta menntakerfi landsins. Bent hefur verið á að slík samkeppni sé illframkvæmanleg á landsbyggðinni þar sem valmöguleikar eru ekki fyrir hendi. En það má ekki líta fram hjá því að yfirstjórn grunnskólanna er nú á herðum sveitarfélaganna sem bera ábyrgð á því að skila góðu skólastarfi. Sveitarfélögin verða að hafa launalegt svigrúm til þess að laða að öfluga skólastjóra og hæfa kennara sem skila árangri. Árangur skólanna er borinn saman við árangur nágrannasveitarfélaga og samkeppnin leiðir af sér árangur.

Launagreiðandi kennara, við skattborgararnir, eigum heimtingu á því að fá betri árangur fyrir betri laun. Íslenskir grunnskólakrakkar koma ekki nógu vel undirbúin í framhaldsskóla og getu þeirra í stærðfræði er verulega ábótavant. Skilaboð til samninganefndar sveitarfélaga og kennara eru einföld:

Góð laun fyrir góða kennara. Góð laun fyrir árangur.

Léleg laun fyrir lélega kennara. Léleg laun fyrir slakan árangur.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)