Groddaskapur

AlþingiSkelfilegt er að fylgjast með groddaskapnum sem einkennir málsmeðferð ríkisstjórnarinnar á fjölmiðlalögunum. Málið er allt hið vitlausasta og öfugsnúið því meirihluti þjóðarinnar virðist í grunninn fylgjandi lagasetningu á fjölmiðla.

AlþingiSkelfilegt er að fylgjast með groddaskapnum sem einkennir málsmeðferð ríkisstjórnarinnar á fjölmiðlalögunum. Málið er allt hið vitlausasta og öfugsnúið því meirihluti þjóðarinnar virðist í grunninn fylgjandi lagasetningu á fjölmiðla. Samt sem áður hefur þetta mál hreyft þvílíkum mótbárum að skráð verður í stjórnmálasögu lýðveldisins. Ef málið hefði aðeins fengið hefðbundna meðferð í þinginu með vandaðari málatilbúningi hefði enginn kippt sér upp við það og gal stjórnarandstöðunnar verið hjóm eitt. Það er eins og ríkisstjórninni hafi ekki borist til eyrna að fólk er almennt sammála megininntaki löggjafarinnar en þolir ekki groddaskapinn í kringum lagasetninguna.

Hugsanlegt er að atburðarásin hefði verið með öðrum hætti ef málið snerti ekki fjölmiðla. Málið hefur fengið mikla umfjöllun hjá fjölmiðlum og þótt varla sé hægt að benda á hlutdrægni í fréttaflutningi virðist sem málið sé fjölmiðlafólki töluvert hugleiknara en almenningi í landinu. Ef til vill sannar mál sem þetta að það er ekki hægt að vinna stríð við fjölmiðla, sem aftur sýnir nauðsyn þess að setja sérstök lög um starfsumhverfi þeirra. En allar þessar vangaveltur skipta ekki máli lengur. Málið hefur tekið allt aðra stefnu og verður að afgreiða eftir þeim farvegi sem stjórnarskráin segir til um.

Pistlahöfundur er fylgjandi lagasetningu á fjölmiðla og hefur áður ritað um nauðsyn þess hér á Deiglunni en þessa málsmeðferð er ekki hægt að styðja. Með afturköllun og framsetningu á nýju frumvarpi hefur vitleysan náð áður óþekktum hæðum svo ekki sér fyrir endan á henni. Málið er orðið öllu alvarlegra og snertir grundvallarstjórnskipan í landinu. Það verður ekki lengur sagt að forsetinn setji mál í fullkomna óvissu því óvissan er nú alger. Í stað þess að horfast í augu við einfaldleika málsins hafa menn heldur kosið að vígbúast og berjast nú við sig sjálfa. Það er mikilvægt að vinna en menn verða líka að kunna að tapa, ef hægt er að tala um að tapa í þessu máli.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)