Fyrningarleiðin er eini grundvöllur sáttar

Mikilvægasti munurinn á fyrningarleiðinni og veiðigjaldsleiðinni er að fyrningarleiðin er markaðslausn sem leiðir til þess að útgerðin greiðir sitt eigið mat á verðmæti aflaheimildanna í auðlindagjald. Þannig kemur fyrningarleiðin í veg fyrir að gjaldið verði hærra en það sem útgerðin ræður við (því varla fer útgerðin að bjóða meira en hún ræður við) og hún kemur einnig í veg fyrir að stjórnmálamenn ákvarði gjald sem er langt undir raunverulegu verðmæti aflaheimildanna eftir að hafa kiknað undan pólitískum þrýstingi.

Mikilvægasti munurinn á fyrningarleiðinni og veiðigjaldsleiðinni er að fyrningarleiðin er markaðslausn sem leiðir til þess að útgerðin greiðir sitt eigið mat á verðmæti aflaheimildanna í auðlindagjald. Þannig kemur fyrningarleiðin í veg fyrir að gjaldið verði hærra en það sem útgerðin ræður við (því varla fer útgerðin að bjóða meira en hún ræður við) og hún kemur einnig í veg fyrir að stjórnmálamenn ákvarði gjald sem er langt undir raunverulegu verðmæti aflaheimildanna eftir að hafa kiknað undan pólitískum þrýstingi.

Af fyrstu viðbrögum stjórnarþingmanna virðist hins vegar líklegast að það verði ekki fyrningarleiðin heldur veiðigjaldsleiðin sem verði fyrir valinu. Það virðist einnig vera ljóst að ástæða þess að veiðigjaldsleiðin virðist álitlegri kostur í augum þessara stjórnarþingmanna (og LÍÚ) er að með henni er hægt að einskorða auðlindagjaldið í sjávarútvegi við þann kostnað sem á ríkið fellur vegna núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Það er hins vegar rangt af þessum þingmönnum að halda að slíkt geti verið grundvöllur að sátt um þetta mál. Svo er ekki. Málið snýst um arð af þjóðareign. Og á meðan þjóðin fær þennan arð ekki greiddan mun ekki ríkja sátt um þetta mál.

Aflaheimildir eru einn af megin framleiðsluþáttunum í sjávarútvegi. Aflaheimildirnar eru eign íslensku þjóðarinnar. Arður af aflaheimildunum á því að renna til þjóðarinnar alveg eins og arður af vinnuafli rennur til eigenda vinnuafls og arður af fjármagni rennur til fjármagnseigenda. Um þetta snýst málið en ekki greiðslu fyrir einhverja þjónustu sem ríkið veitir útgerðinni.

Og ef það er rétt að stjórnarþingmenn telja að þeir geti sloppið byrlega frá þessu máli með því að taka upp kostnaðargreiðslur þá finnst mér það vera hlutverk stjórnarandstöðunnar að lýsa því yfir á afdráttarlausan hátt að málinu muni ekki ljúka með upptöku slíkra greiðslna.

Öfgahægrimenn og hagsmunagæslumenn útgerðarinnar hafa vitaskuld tekið höndum saman í hræðsluáróðri um að í tillögum auðlindanefndar felist þjóðnýting, sósialismi og áætlunarbúskapur. Slíkur áróður segir einna mest um þá einföldu heimsmynd sem þetta fólk trúir á þar sem aðeins er til svart eða hvítt, og þeir hlutir sem víkja frá laissez faire eru einfaldlega sósíalismi. Það er sorglegt að slíkar skoðanir skuli enn vaða uppi.

Þegar skýrsla auðlindanefndar er skoður er ein spurning sem æpir á mann: Af hverju mælir nefndin með uppboði á öllum öðrum auðlindum en ekki á veiðiheimildum? Hvað er svona sérstakt við veiðiheimildir? Jú, þeim hefur til skamms tíma verið úthlutað og því verður að taka tillit til áunnina atvinnuréttinda þeirra sem útgerð hafa stundað. En það réttlætir einungis að útgerðinni sé gefinn góður aðlögunartími, sem er vitaskuld sjálfsagt mál. Grundvallarrökin sem liggja að baki niðurstöðu nefndarinnar um að úthluta eigi öðru takmörkuðum auðlindum, svo sem fjarskiptarásum og virkjunarleyfum, með uppboði á jafn vel við um veiðiheimildir og aðrar takmarkaðar auðlindir. Eina skýringin sem maður getur komið upp með fyrir því að veiðigjaldsleiðin hafi fengið að fljóta með í skýrslunni eru ótæpileg ítök LÍÚ á meðal nefndarmanna. Það er hálf svekkjandi að auðlindanefnd hafi komist svona ískyggilega nálægt því að skila afbragðs tillögum án þess að það hafi á endanum tekist.

En þó svo að sjávarútvegsmálin vegi þyngst í umræðunni í dag þá eru niðurstöður auðlindanefndar með tilliti til sjávarútvegsins alls ekki mikilvægustu niðurstöður nefndarinnar þegar til lengri tíma er litið. Þegar til lengri tíma er litið eru mikilvægustu niðurstöður nefndarinnar þær að uppboð eða annars konar markaðslausnir eigi að vera sú megin aðferð sem verður notuð við úthlutun takmarkaðra auðlinda í þjóðareign. Með þessari skýrslu hefur það mikilvæga skref verið stigið að umræða um úthlutun takmarkaðra auðlinda mun upp frá þessu hefjast á allt öðrum nótum en umræðan um úthlutun aflaheimilda hefur verið á undanförnum árum. Vonandi verður það til þess að mistök eins og þau sem gerð voru við úthlutun aflaheimilda árið 1984 eigi sér ekki stað aftur.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.