Hugmyndir um þjóðarsjóð eru gallaðar

Eitt af þeim atriðum sem auðlindanefnd gerir að tillögu sinni er stofnun þjóðarsjóðs. Þessi tillaga er gölluð. Mun nærtækara væri að verja öllum tekjum af úthlutun takmarkaðra auðlinda til lækkunar á sköttum.

Eitt af þeim atriðum sem auðlindanefnd gerir að tillögu sinni er stofnun þjóðarsjóðs. Þessi tillaga er gölluð. Mun nærtækara væri að verja öllum tekjum af úthlutun takmarkaðra auðlinda til lækkunar á sköttum.

Fyrirmynd slíks sjóðs er væntanlega olíusjóður Noregs. En það er mikilvægur eðlismunur á tekjum norska ríkisins af olíuvinnslu og væntanlegum tekjum íslenska ríkisins af úthlutun takmarkaðra auðlinda. Munurinn er sá að olíugróði Noregs er tímabundinn. Það er, það kemur sá tími að Normenn verða búnir að selja alla þá olíu sem vinnanleg er á- norska landgrunninum. Þegar það gerist mun olíugróðinn stöðvast. Tilgangur olíusjóðsins er að gera norsku þjóðinni kleift að njóta gróðans um alla framtíð í stað þess að lifa hátt í nokkra áratugi á meðan olían flæðir upp úr landgrunninum og þurfa síðan að draga þjóðarútgjöld verulega saman þegar hún klárast.

Ólíkt þessu þá er arðurinn af nýtingu fiskistofnanna við Ísland og flestra annarra takmarkaðra auðlinda, svo sem fjarskiptarása og virkanaleyfa, ekki tímabundinn heldur varanlegur. Það er, þessar auðlindir munu skila arði til þjóðarinnar um alla framtíð. Þess vegna er engin þörf fyrir sjóð sem safnar arðinum upp svo við getum notið hans um alla framtíð.

Eins og Frelsarinn bendi réttilega á síðastliðinn laugardag eru útfærslur hugmynda auðlindanefndar um þjóðarsjóð óljósar. Til dæmis er mjög óljóst hvað það þýðir að almenningur geti haft aðgang að þessum sjóði. Þar að auki er líklegt að sjóðurinn verði notaður til þess að fjármagna alls kyns gæluverkefni stjórnmálamanna sem annað hvort snúa að háværum sérhagsmunahópum eða kjósendum sem hafa óeðlilega mikið vægi þegar talið er upp úr kjörkössunum.

Úthlutun takmarkaðra auðlinda getur verið mjög hagkvæm tekjuöflunarleið fyrir ríkið þar sem slík úthlutun hefur ekki áhrif á hvatir fólks og fyrirtækja á sama hátt og tekjuskattar og virðisaukaskattur. Þetta er hins vegar háð því skilyrði að þessar auknu tekjur geri það ekki að verkum að stjórnmálamenn fari að eyða fé í gæluverkefni sem annars hefðu ekki verið uppi á borðinu. Þetta er best tryggt með því að verja öllum tekjum af auðlindagjöldum í lækkun skatta.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.