Voodoo-hagfræði SUS

Á nýafstöðnu málefnaþingi SUS voru samþykktar tillögur um að afnema eigi fjármagnstekjuskatt og allan tekjuskatt á einstaklinga og fyrirtæki. SUS-ara halda því fram í stjórnmálaályktun þingsins að „Íslendingar gætu haft af [þessu] ótrúlegan hag”. Á öðrum stað segja þeir að ekki verði annað séð en að þetta sé hægt án þess að framkalla fjárlagahalla. Þar með hefur ein mesta óheillakráka bandarískra stjórnmála, þ.e. voodoohagfræði, haldið innreið sína í stjórnmál hér á Íslandi.

Á nýafstöðnu málefnaþingi SUS voru samþykktar tillögur um að afnema eigi fjármagnstekjuskatt og allan tekjuskatt á einstaklinga og fyrirtæki. SUS-ara halda því fram í stjórnmálaályktun þingsins að „Íslendingar gætu haft af [þessu] ótrúlegan hag”. Á öðrum stað segja þeir að ekki verði annað séð en að þetta sé hægt án þess að framkalla fjárlagahalla. Þar með hefur ein mesta óheillakráka bandarískra stjórnmála, þ.e. voodoohagfræði, haldið innreið sína í stjórnmál hér á Íslandi.

Voodoo-hagfræði gengur út á það að skattar valdi gríðarlegri óhagkvæmni og að lækkun þeirra sé svo mikil vítamín-sprauta fyrir hagkerfið að skattalækun valdi ekki lækkun á tekjum ríkisins, a.m.k. ekki verulegri lækkun. Voodoo-hagfræði er auðvitað algerlega ónýt hagfræðikenning og hefur raunar aldrei átt sér neina stuðningsmenn á meðal alvöru hagfræðinga, a.m.k. í þeirri mynd sem SUS-arar predika hana.

En reynum sem snöggvast að glöggva okkur á stærð voodoo áhrifanna sem SUS-arar trúa að munu koma í veg fyrir fjárlagahalla verði tekjuskattur afnuminn. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2001 er ráðgert að skattar á tekjur einstaklinga og fyrirtækja skili 62 ma.kr. en að afgangur af fjárlögum verði 30 ma.kr. Voodoohagfræðileg aukning þjóðarframleiðslu á sem sagt að auka þjóðarframleiðslu það mikið að aðrar skatttekjur ríkisins aukist um heila 32 ma.kr. Megnið af þessu myndi þurfa að koma í formi virðisaukaskatts. Samkvæmt sama fjárlagafrumvarpi skilar virðisaukaskatturinn um 80 ma.kr. í ríkissjóð árið 2001. Til þess að afnám tekjuskatta leiddi ekki til fjárlagahalla þá þyrfti virðisaukaskatturinn að skila a.m.k. ríflega 100 ma.kr. eða 25% meiru en ráðgert er. Ég er hræddur um að meira að segja hörðustu voodoo-istar í Bandaríkjunum yrðu stoltir af þeirri gríðarlegri trú sem SUS-arar virðast hafa á áhrifamátt voodoo-áhrifanna.

Og þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Ef ég vildi gera þennan pistil óþolandi langan þá myndi ég tala um það hvernig voodoo-hagfræði Reagans leiddi til gríðarlegs fjárlagahalla í Bandaríkjunum þannig að bandaríska þjóðin fór á einum áratug úr því að vera stærsti lánadrottinn heims í það að vera stærsti skuldari heims; og hvernig stór hluti núverandi afgangs af fjárlögum hér á Íslandi er ekki varanlegur heldur til kominn vegna þenslu (þótt kerfislægur fjárlagaafgangur hafi einnig verið að aukast); og hvernig góð hagfræði segir að hagkvæmast sé að dreifa skattlagningu á sem flesta hluti svo ekki þurfi að skattleggja hverja og eina vöru eins mikið og ella. Ég held hins vegar að ég láti hér við sitja.

Ég vona bara svo sannarlega að hugmyndir SUS-ara nái ekki eyrum eldri manna innan Sjálfstæðisflokksins. Guð hjálpi Sjálfstæðisflokkinum frá því að þurfa í framtíðinni að burðast með veruleikafirrtar og óvinsælar hugmyndir um stórfeldar skattalækkanir, byggðar á algerlega ónýtri hagfræði, kosningar eftir kosningar eins og gerst hefur með Rebublikanaflokkinn í Bandaríkjunum.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.