Enn um voodoo hagfræði SUS

Síðastliðinn þriðjudag hélt ég því fram að tillögur SUS um afnám tekjuskatta gerðu ráð fyrir 32 ma.kr. voodoo áhrifum. Það er að SUS héldi því fram að voodoohagfræðileg aukning þjóðarframleiðslu myndi leiða til þess að tekjur ríkisins ykust um 32 ma.kr. ef tekjuskattar væru afnumdir. Þessu hafa SUS-arar réttilega mótmælt meðal annars á strik.is.

Síðastliðinn þriðjudag hélt ég því fram að tillögur SUS um afnám tekjuskatta gerðu ráð fyrir 32 ma.kr. voodoo áhrifum. Það er að SUS héldi því fram að voodoohagfræðileg aukning þjóðarframleiðslu myndi leiða til þess að tekjur ríkisins ykust um 32 ma.kr. ef tekjuskattar væru afnumdir. Þessu hafa SUS-arar réttilega mótmælt meðal annars á strik.is.

Í rauninni gera tillögur SUS aðeins ráð fyrir 12 ma.kr. voodoo áhrifum (sem er fáránlegt út af fyrir sig) en það er einungis vegna þess að tillögurnar gera ráð fyrir verulegum niðurskurði á velferðarkerfinu, 10% skattahækkun á lágtekjufólk og verulegt ofmat á kerfislægum fjárlagaafgangi.

Skoðum tillögur SUS aðeins nánar. Fyrst gera þær ráð fyrir að tekjuskattur á lögaðila verði afnuminn og (að því er ég best fæ séð) á voodoo-hagfræðilegur flutningur fyrirtækja og fjármagns til Íslands að bæta ríkinu upp þær tekjur (12 ma.kr.). Þess má geta að ekki er tekið á því hverjir eigi að vinna í þessum nýju fyrirtækjum sem flytja til landsins. Kannski er hugmyndin að það flytjist til landsins fullt af atvinnulausu fólki líka. Hver veit?

Þá er gert ráð fyrir að allir tekjurskattar einstaklinga verði afnumdir. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2001 verða tekjur af slíkum sköttum 50 ma.kr. Raunar gera tillögur SUS ekki ráð fyrir að þetta afnám tekjuskatts geti átt sér stað fyrr en u.þ.b. 2003 þegar búið er að greiða niður allar skuldir ríkisins. Þannig lækka SUS-arar gjöld ríkisins um 13 ma.kr. Síðan gerir SUS ráð fyrir því að kerfislægur afgangur af ríkissjóði sé 15 ma.kr. Þar eru komnir 28 ma.kr. Enn vantar 22 ma.kr. SUS gerir ráð fyrir að 2 ma.kr. sparist árlega í skattkerfinu við þessar breytingar. Enn vantar 20 ma.kr. Þá gera tillögur SUS ráð fyrir því að „skattafrádráttur vegna barna og húsnæðis” falli niður enda eru slíkar bætur að mati SUS óþarfar og ósanngjarnar þegar búið er að fella niður tekjuskatta. Með þessu móti sparast 10 ma.kr. Enn vantar 10 ma.kr. Þær eiga hins vegar að koma í formi aukinna tekna af neyslusköttum þegar tekjuskattar eru afnumdir.

Svo að í rauninni eru voodoo áhrifin aðeins 12 ma.kr. samkvæmt tillögum SUS en það er vegna þess að barnabætur, vaxtabætur, húsaleigubætur og persónuafsláttur er afnuminn. Þess vegna er ein afleiðing tillagna SUS að allir greiði um 10% skatt í útsvar til sveitarfélaga. Í þessu felst veruleg skattahækkun fyrir margt lágtekjufólk sem þar að auki verður af barnabótum, vaxtabótum og húsaleigubótum.

En þessi niðurstaða er vitaskuld einnig háð því að maður trúi forsendum SUS um að hægt sé að spara 2 ma.kr. í skattkerfinu með því að leggja niður tekjuskatta og því að kerfislægur afgangur af fjárlögum sé 15 ma.kr. Báðar þessar tölur eru hins vegar verulegt ofmat. Kerfislægur fjárlagaafgangur upp á 15 ma.kr. kemur út úr reikniaðferðum sem taka ekki með í reikningin að Ísland er lítið opið hagkerfi með 8% viðskiptahalla. Nær lægi væri að segja að kerfislægur fjárlagaafgangur væri 5 ma.kr. Ef það er gert eru voodoo-áhrif SUS komin í 22 ma.kr. Svo fyrri grein mín var kannski ekki svo fjærri lægi eftir allt saman.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.