Skatturinn sem Bush hætti við að afnema

Ríkisstjórn Bush hætti við að afnema skatta á arðgreiðslur milli fyrirtækja þegar henni var bent á mikilvægi þeirra í því að koma í veg fyrir hringamyndun. Bush lækkaði þess í stað eingöngu skatta á arðgreiðslur til einstaklinga.

Fyrr á þessu ári skrifaði ég grein í Morgunblaðið þar sem ég benti á að skattlagning arðgreiðslna milli fyrirtækja væri einföld og hagkvæm leið til þess að draga úr hringamyndun í hagkerfinu. Hringamyndun á sér stað þar sem hún gerir stórum hluthöfum kleift að níðast á smærri hluthöfum. Skattur á arðgreiðslur milli fyrirtækja dregur úr hringamyndun þar sem hann gerir það kostnaðarsamt fyrir stóra hluthafa að láta arðgreiðslur sínar lykkjast um flókið net eignarhaldsfélaga.

Mikilvægur kostur slíks skatts umfram aðrar leiðir til þess að draga úr hringamyndun er að hann íþyngir á engan hátt fyrirtækjum sem einungis stunda rekstur í því augnamiði að hámarka hagnað sinn. Hann íþyngir eingöngu fyrirtækjum sem til hliðar við sinn eiginlega rekstur stunda flókna fjármálaleikfimi með arðgreiðslur sínar. Hann hefur einnig þann kost að hið flókna net eignatengsla leysist upp af sjálfu sér í stað þess að Samkeppnisstofun og lögreglan þurfi að standa í stöðugum rannsóknum og málaferlum til þess að leysa það upp með valdi.

Þetta skyldi Franklin D. Roosevelt þegar hann innleiddi slíkan skatt í Bandaríkjunum (eins og lesa má hér). Bandaríkin eru eina landið í heiminum með slíkan skatt og jafnframt eina landið í heiminum þar sem stórar fyrirtækjasamsteypur ráða ekki lögum og lofum í efnahagslífinu.

En litlu mátti muna að þessi sérstaða Bandaríkjanna hyrfi á síðasta ári þegar Bush Bandaríkjaforseti boðaði afnám skattlagningar á arðgreiðslur. Upphaflegar tillögur Bush stjórnarinnar gerðu ráð fyrir að allir skattar á arðgreiðslur yrðu afnumdir. Enginn greinarmunur var gerður á arðgreiðslum milli fyrirtækja og arðgreiðslum til einstaklinga.

Þeir sem skyldu mikilvægi skatta á arðgreiðslur milli fyrirtækja fyrir fyrirtækjaflóruna í Bandaríkjunum, s.s. Randall Morck (U. Alberta), áttuðu sig á því að þessi breyting myndi leiða til þess að upp risu stórar fyrirtækjasamsteypur í Bandaríkjunum. Þeir vissu að það myndi draga úr samkeppni í mörgum geirum bandaríska hagkerfisins, hafa neikvæð áhrif á seljanleika bandarískra hlutabréfa, draga úr áhuga smærri hluthafa á því að eiga hlutabréf og þannig hækka fjármögnunarkostnað nýrra fyrirtækja í Bandaríkjunum.

Þessum rökum var komið á framfæri við Glenn Hubbard, þáverandi formann efnahagsráðgjafanefndar Bush, og aðra hátt setta efnahagsráðgjafa stjórnarinnar. Sem betur fer áttuðu þeir sig fljótt á því að þarna hafði þeim yfirsést mikilvægt atriði. Tillögum Bush stjórnarinnar var breytt þannig að einungis var lagt til að arðgreiðslur til einstaklinga yrðu felldar niður. Þrýstingur frá þinginu gerði það síðan að verkum að arðgreiðslur til einstaklinga voru einungis lækkaðar um helming en ekki felldar alveg niður.

Mikilvægi skatta á arðgreiðslur milli fyrirtækja fyrir öfluga samkeppni og virka fjármálamarkaði var hins vegar svo mikið og augljóst að meira að segja ríkisstjórn Bush, sem ekki er þekkt fyrir að vera feimin við að lækka skatta, ákvað að hrófla ekki við þeim.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.