Mrs Ashcroft

Dómsmálaráðherra fer mikinn þessa dagana í vali sínu á því hverjir eru velkomnir til landsins og hverjir eru útskúfaðir. Það er ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón, heiðingjar eða andlega þenkjandi, hvítir eða gulir sem fá hér inngöngu.

Dómsmálaráðherra fer mikinn þessa dagana í vali sínu á því hverjir eru velkomnir til landsins og hverjir eru útskúfaðir. Það er ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón, heiðingjar eða andlega þenkjandi, hvítir eða gulir sem fá hér inngöngu. Ráðherra ætlar aldeilis ekki að láta einhverja lífsspekúlanta rauða heimsins vaða hér yfir varnarlausa íslenska lögreglumenn. Nei, hvernig á íslenska lögreglan eiginlega að verjast skelfilegum hugleiðsluárásum Falun Gong – þó svo að hún hafi fyrir skömmu ekki verið í neinum vandræðum með að vernda alla ráðherra Atlantshafsbandalagsins?

Það verður auðvitað að sýna manngæskunni frá Kína hæfilega virðingu með því að loka landamærunum. Þetta segja þeir okkur þarna í lýðræðisríkinu suðurfrá og þeir hafa vit á svona hlutum, eftir að hafa farið í gegnum menningarbyltinguna og fleira. Það er hins vegar spurning hvort að hæstvirtur ráðherra gangi ekki of skammt í aðgerðum sínum. Þessir jógatrúðar gætu auðvitað sent netpóst hingað til lands eða hringt í einhverja og skipulagt mótmæli. Nær hefði verið að loka Cantat strengnum og stöðva póstflutninga til landsins. “Trusting is good, but controlling is better,” var eitt sinn sagt.

Pistlahöfundur ætlar að mótmæla um helgina. En hann ætlar ekki einungis að mótmæla mannréttindabrotum í Kína heldur þarf hann líka að mótmæla vitleysunni sem er í gangi, brandaranum sem er ekki einu sinni fyndinn. Þetta er aðstaða sem pistlahöfundur hélt að hann ætti seint eftir að lenda í, að taka þátt í mótmælum gegn ráðherra eigin flokks. Svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)