Frjáls viðskipti og umhyggja fyrir fátækum

scavenger.jpgÞeir sem telja sig bera hag fólks í fátækum löndum fyrir brjósti en eru á móti frjálsri verslun (eða fylgjandi því að settar verði alþjóðlegar reglur um réttindi launafólks) ættu að ferðast til þróunarlanda og ræða þessi mál við innfædda.

scavenger.jpgUpp á síðkastið hefur það komist í tísku hjá þeim sem telja sig bera hag fátæks fólks í þriðja heiminum fyrir brjósti að krefjast þess að alþjóðasamningar um frjálsa verslun innihaldi alls kyns ákvæði sem venda rétt launafólks í þriðja heiminum. Umræða á þessum nótum hefur til dæmis verið áberandi í forkosningum Demókrataflokksins í Bandaríkjunum síðustu vikur og mánuði.

Nicholas Kristof, pistlahöfundur á New York Times, skrifaði nýlega pistil um þetta mál. Í pistlinum bauð hann forsetaframbjóðendum Demókrata að koma til Kambódíu, þar sem hann var þá staddur, og ræða frjálsa verslun við innfædda.

Hann sagði frá sautján ára stúlku sem hann hafði rætt við. Hún vann allan daginn alla daga vikunnar við að týna rusl á ruslahaugunum fyrir utan Phnom Penh. Upp úr krafsinu hafði hún að meðaltali 50 kr. á dag. Fyrir henni var tilhugsunin um vinnu í fataverksmiðju í eigu vestræns stórfyrirtækis — þar sem hún fengi 150 kr. á dag í kaup, þyrfti aðeins að vinna 6 daga vikunnar og fengi að vera innandyra í stað þess að vera undir brennheitri sólinni allan liðlangan daginn — draumi líkast.

Í Kambódíu er eftirspurn eftir verksmiðjustörfum mun meiri en framboð. Eftirspurnin er raunar svo mikil að það er ekki óalgengt að umsækjendur þurfi að múta yfirmanni í verksmiðjunni til þess að þeir fái vinnu. Kristof segir frá því að byggingaverkamenn í Kambódíu hafi sagt honum að þeir vildu miklu frekar vinna í verksmiðju vegna þess að slík vinna er ekki nærri því jafn hættuleg og einnig vegna þess að þá myndu þeir ekki svitna jafn mikið. Það er ákveðin kaldhæðni í því að Bandaríkjamenn skuli kalla slíkar verksmiðjur „sweatshops”.

Alþjóðasamningar sem innihalda ákvæði um aukinn rétt launafólks og skyldur atvinnurekenda leggja stein í götu fyrirtækja sem hafa áhuga á því að byggja verksmiðjur í fátækum löndum og munu leiða til þess að færri slíkar verksmiðjur verða reistar.

Eftir að hafa rætt málin við innfædda kemst Kristof að þeirri niðurstöðu að vandamálið í Afríku og Asíu sé ekki að of margir innfæddir séu misnotaðir af vestrænum stórfyrirtækjum í gróðaskyni. Þvert á móti eru allt of fáar „svitasjoppur” í þriðja heiminum. Þeim mun fleiri verksmiðjur þeim mun betra. Því önnur úrræði þessa fólks eru enn verri.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.