Í kjólinn fyrir jólin

kjolinn.jpgÓhætt er að segja að mikið sé rætt um heilsu og vellíðan víðast hvar í þjóðfélaginu. Merki þess að offita sé að verða sífellt stærra vandamál eru á hverju strái. Sykursýki meðal barna, sem hingað til hefur verið frekar lítil á Íslandi miðað við aðrar vestrænar þjóðir, er að sækja í sig veðrið en margir rekja það til minni hreyfingar og verra mataræðis.

kjolinn.jpgÓhætt er að segja að mikið sé rætt um heilsu og vellíðan víðast hvar í þjóðfélaginu. Merki þess að offita sé að verða sífellt stærra vandamál eru á hverju strái. Sykursýki meðal barna, sem hingað til hefur verið frekar lítil á Íslandi miðað við aðrar vestrænar þjóðir, er að sækja í sig veðrið en margir rekja það til minni hreyfingar og verra mataræðis.

Þó að offita sé töluvert vandamál á Íslandi er þjóðin sem betur fer ekki eins langt leidd og sú bandaríska. Þar í landi er talið að allt að þriðjungur þjóðarinnar eigi við offituvandamál að stríða og milljónir manna séu of þungar en ná ekki því vafasama marki að þjást af offitu.

Eins og með flest annað hefur þessi staðreynd áhrif á viðskiptalífið þar vestra og sjá margir arðvænleg tækifæri. Til mikils er að vinna enda talið að um 40 milljarðar bandaríkjadala séu í “grenningarbransansanum”. Lyfjafyrirtæki leita logandi ljósi að lyfjum við offitu, matvörukeðjur reyna að auglýsa fituminni vörur og m.a. er fyrirtækið McDonalds farið að skipta frönskunum út fyrir salat til að auka sölu.

Ósýnileg hönd markaðarins hefur ekki farið varhluta af megrunarbransanum. Svo virðist sem fataframleiðendur séu farnir að gera ráð fyrir þægindastuðli í kvenfatnaði og talið er líklegra að kona kaupi ákveðinn fatnað ef henni líður vel með stærðina. Þetta hefur gert það að verkum að stærri föt bera nú minni númer en fyrir nokkrum árum. Þau augljósu þægindi sem fylgja því að fatanúmer séu eftir fyrirfram ákveðnum staðli, svo sem hagkvæmni og tímasparnaður, mega sín lítils þegar gildi þess að geta keypt litla stærð í fatnaði er tekin með í reikninginn. Áður fyrr skipti ekki máli hvort notaðar voru breskar stærðir eða þýskar. Einfaldur umreikningur nægði til að þekkja sína stærð. Sú tíð er liðin. Konur hafa, samkvæmt því sem áður hefur verið sagt í þessum pistli, stækkað en eru greinilega tregar að kaupa fatnað í stærri númerum. Allir vilja jú komast í kjólinn fyrir jólin – í það minnsta í kjól í ásættanlegri stærð.

Þessi þróun hefur m.a. gert það að verkum að nú er farið að framleiða föt í stærðinni núll og varla er þess langt að bíða að við sjáum neikvæðar fatastærðir. Auk þess flækir þetta mjög fatainnkaup og gera má ráð fyrir því að fólk eyði meiri tíma í slíka iðju. Fyrir a.m.k. helming mannkyns eru það kannski bara fínar fréttir….

Varla einskorðast þessi hegómlega kauphegðun við kvenmenn og megum við fast eins búast við svipaðri þróun í fatnaði okkar karlmanna. Kannski einskorðast þessi hégómi ekki einungis við föt hjá okkur. Fræg saga af Winston Churchill segir að hann hafi fyrirskipað að allir smokkar sem sendir voru með varningi til Evrópu eftir seinni heimstyrjöldina hafi verið “large” en merktir sem “small”. Einnig virðast smokkar sem framleiddir hafa verið eftir Evrópustaðli vera 20% of stórir fyrir Þjóðverja þó varla séu þeir öðruvísi af Guði gerðir en aðrir Evrópubúar. Reyndar hefur lítið heyrst frá öðrum þjóðum en líklegt er að stoltið hafi þar eitthvað að segja.

En aftur að offituvandanum. Fyrirtæki og einstaklingar sem bjóða upp á skjóta lausn á slíkum vandamálum virðast vera á hverju strái enda greinilega margir sem vilja hagnast á offitu. Undraverðum árangri er lofað á mettíma með lágmarksfyrirhöfn. Reyndar hafa menn einnig fundið leið til að hagnast á þeim sem vilja hagnast á megrunarvörum en það er einmitt kjarni hugmyndarinnar um sölupýramída Herba Life. Sá megrunarkúr sem hefur verið einna mest í umræðunni upp á síðkastið er án efa Atkins-kúrinn sem gengur í meginatriðum út á að hætta borða mat sem inniheldur kolvetni. Hefur kúrinn náð það miklum vinsældum að t.d. enskir bakarar, kartöflubændur og pastaframleiðendur eru farnir að kvarta sáran. Kúrinn er víst einnig ástæða þess að neysla þorsks hefur aukist í Bandaríkjunum sem reyndar eru ágætis fréttir fyrir íslenska útgerð.

Þrátt fyrir ýmsar tilraunir til að finna skyndilausnir á einu brýnasta heilbrigðisvandamáli hins vestræna heims eru flestir sammála um að besta leiðin til að komast í kjólinn fyrir jólin sé, ótrúlegt en satt, gamla tuggan um reglulega hreyfingu og fjölbreytt mataræði.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.