Loksins, loksins, sjálfstæði Seðlabanka Íslands

Gærdagurinn, 27. mars 2001, var merkisdagur í efnahagssögu þjóðarinnar. Seðlabanka Íslands var veitt sjálfstæði, gengi krónunnar var látið fljóta og tekið var upp verðbólgumarkmið.

Gærdagurinn, 27. mars 2001, var merkisdagur í efnahagssögu þjóðarinnar. Seðlabanka Íslands var veitt sjálfstæði, gengi krónunnar var látið fljóta og tekið var upp verðbólgumarkmið.

Það var augljóst á fréttaflutningi í gær og í morgun að flestir fjölmiðlar áttuðu sig alls ekki á því hversu mikilvægt mál hér er á ferðinni. Sjálfstæði Seðlabanka Íslands var fyrsta frétt á hvorugri sjónvarpsstöðinni í gær og Morgunblaðið taldi vaxtalækkunina sem fylgdi með í kaupbæti meira eftirtektarefni en sjálfstæðið ef marka má fyrirsögn blaðsins á baksíðu. En hvað sem skilningi fjölmiðla líður er hér um að ræða eitt allra stærsta framfaraskref í efnahagssögu þjóðarinnar. Í Bandaríkjunum er talað um legacy forseta. Með þessum breytingum hefur Davíð Oddsson gulltryggt sitt legacy í efnahagsmálum. Sjálfstæði Seðlabanka Íslands og sala ríkisbankanna sem ráðgert er að klára fyrir lok þessa kjörtímabils munu standa upp úr í þeim efnum ásamt auðvitað stöðuleikanum og þeim mikla árangri sem náðst hefur í ríkisfjármálum.

Af hverju er þetta svona mikilvægt?, kunna einhverjir að spyrja. Það er vegna þess að með sjálfstæði Seðlabankans er eitthvert öflugasta tæki stjórnmálamanna til þess að láta skammtímahagsmuni sína vinna gegn langstímahagsmunum þjóðarinnar tekið af þeim. Með sjálfstæðinu er stefna síðustu 10 ára um stöðuleika í efnahagsmálum endanlega fest í sessi og tryggt að ekki verður hvikað frá henni þegar það kann að hennta veikburða stjórnmálamanni fyrir erfiðar kosningar. Framvegis verður tryggt að ákvarðanir Seðlabankans verða byggðar á efnahagslegum forsendum. Hingað til hafa markaðsaðilar fyrst þurft að átta sig á því hvað efnahagslegar forsendur benda til þess að Seðlabankinn geri og síðan hafa þeir þurft að velkjast í vafa um það hvort sú ákvörðun sé pólitískt möguleg. Að lokum er mikilvægt að þessi breyting eigi sér stað einmitt nú, þar sem fastgengisstefna Seðlabankans (hvíli hún í friði) var farin að koma í veg fyrir að Seðlabankinn gæti gripið til viðeigandi aðgerða (þ.e. til þeirrar vaxtalækkunar sem bankinn tilkynnti í gær).

Þessi pistill hefur verið hátíðlegri en lesendur Deiglunnar eiga að venjast. Ég vona að lesendur fyrirgefi það. Sjálfstæði Seðlabanka Íslands hefur lengi verið efst á óskalista mínum um breytingar á löggjöf landsins.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.