Pattstaða í Írak

Hermenn í ÍrakMörgum var brugðið þegar fregnir bárust af því að höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna höfðu verið sprengdar í loft upp í Bagdad síðasta þriðjudag. Um hundrað manns særðust og talið er að 23 manns hafi látist, þar á meðal Brasilíumaðurinn Sergio Vieira de Mello, aðalfulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Írak.

Hermenn í ÍrakMörgum var brugðið þegar fregnir bárust af því að höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna hefðu verið sprengdar í loft upp í Bagdad síðasta þriðjudag. Um hundrað manns særðust og talið er að 23 manns hafi látist, þar á meðal Brasilíumaðurinn Sergio Vieira de Mello, aðalfulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Írak. Þó að fréttir af hryðjuverkum í Írak megi nánast kalla daglegt brauð áttu fæstir von á því að árásirnar beindust að Sameinuðu þjóðunum sem hafa hingað til hafa nánast eingöngu einbeitt sér að hjálpar- , mannúðar- og uppbyggingarstarfi. Skýringin virðist þó vera sú að hryðjuverkamenn líti á Sameinuðu þjóðirnar sem hluta af innrásarliðinu. Ef það er tilfellið getur talist eðlilegt að þeir ráðist á veikustu hlekki þess hverju sinni.

Stríð gegn hryðjuverkum

Bandaríkjamenn fóru út í stríðið við Írak undir þeim formerkjum að nauðsynlegt væri að uppræta helstu óvini landsins til að koma í veg fyrir hryðjuverk. Sýnt þótti að Saddam Hussein væri með efstu mönnum á þeim lista. Stjórn Íraks hafði neitað að vinna með vopnaleitarmönnum Sameinuðu þjóðanna um árabil og stjórn landsins virtist fjármagna hryðjuverkastarfsemi um allan heim t.a.m. í Palestínu þar sem Saddam borgaði fjölskyldum „mannlegra sprengja“ væna summu ef fjölskyldumeðlimur sprengdi sjálfan sig í loft upp í Ísrael. Jafnframt var talið að Saddam Hussein hafi haft gjöreyðingarvopn undir höndum þó að fáar haldbærara staðreyndir virðist styðja þann grun. Því var höfuðáhersla sett á að koma Saddam Hussein frá og eina leiðin til þess var að ráðast inn í Írak.

Eins og búast mátti við tók ekki langan tíma fyrir sameinað herlið nokkurra vestrænna ríkja undir forystu Bandaríkjamanna og Breta að sigra stjórn Saddams Husseins. Hernaðarlegir yfirburðir voru algjörir og herliðið mætti lítilli mótspyrnu.

Vilja komast heim

Í byrjun maí lýsti George Bush, forseti Bandaríkjanna yfir að stríðinu við Írak væri lokið en eins og hefur komið á daginn var það ekki allskostar rétt. Síðan þá hafa fleiri en 60 hermenn fallið úr sveitum bandamanna og ráðist er á lið þeirra nánast daglega. Þess má geta að í stríðinu í Írak og Afganistan féllu alls um 150 úr þeirra röðum. Bandarískir hermenn eru orðnir langeygir eftir því að komast heim enda hefur dvöl þeirra í Írak orðið lengri en þeim var talið í trú um í fyrstu og stöðugar árasir hryðjuverkamanna taka sinn toll. Kostnaðurinn við að halda herliðinu í landinu er farinn að valda stjórn George Bush verulegum vandræðum. Stríðsreksturinn hefur kostað bandaríska skattgreiðendur um 65 milljarða dollara og uppbygging sem á eftir kemur er talin kosta sexhundruð milljarða dollara (sem eru um tvöhundruðföld fjárlög Íslands). Sá kostnaður á án efa eftir að vera ofarlega á baugi í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum.

Stríð gegn hryðjuverkum?

Efast má um að innrásin hafi þó skilað árangri ef tilgangurinn hefur verið að koma í veg fyrir hryðjuverk í framtíðinni. Innrásin hefur á hinn bóginn leyst upp skipulagðan her Saddams en í stað hans berjast hlutar hans, hver í sínu horni, gegn innrásarliðinu en nú sem hryðjuverkamenn. Jafnframt hefur innrásin kynt enn frekar undir hatri á svæðinu gagnvart Bandaríkjamönnum, sem var töluvert fyrir eftir áralangt viðskiptabann sem Írakar kenna þeim um. Því má leiða líkur að því að innrásin hafi haft þveröfug áhrif á ástandið í heiminum þ.e. að hætta á hvers kyns hryðjuverkum sé meiri en nokkru sinni fyrr.

Innrásarliðið er í sjálfheldu

Ljóst má þykja að Írösku þjóðinni hafi verið greiði gerður með því að koma harðstjóranum Saddam Hussein frá. En með innrás inn í Írak hafa Bandaríkjamenn og Bretar komið sér í erfiða stöðu. Nánast ómögulegt virðist vera að koma á friði í landinu og varla er að draga herliðið til baka. Því ef sú leið er farin yrði landið skilið eftir í verra ástandi og varnarlaust fyrir yfirtöku hryðjuverkamanna – og enn meiri ógn en áður. Eins má vera ljóst að mjög erfitt er að byggja upp landið, með tilheyrandi kostnaði, koma á friði og réttsýnu lýðræðisþjóðfélagi. Hingað til hafa margir þó haldið í þá von að Sameinuðu þjóðunum myndi ganga betur með að koma stöðugleika á í landinu m.a. vegna árangurs á Balkanskaganum en sprengingin hjá höfuðstöðvum SÞ í Bagdad gerir því miður lítið úr þeim væntingum.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.