Áhrifamesta fyrirtæki heims?

BláskjárVöxtur Microsoft samsteypunnar hefur verið ótrúlegur frá stofnun fyrirtækisins árið 1975. Nú er svo komið að langflestir tölvunotendur nota kerfi frá MS og ítök þeirra á tölvumarkaðnum eru gríðarleg. Ekkert virðist geta haggað stöðu þeirra.

BláskjárVarla hafa farið fram hjá neinum þær miklu breytingar sem hafa orðið á þjóðfélaginu á undanförnum árum með tilkomu tölvutækninnar og ekki síst heimilistölvunnar. Kannanir sýna að meirihluti Íslendinga hefur aðgang að internetinu og tölvum sem skjóta ofurtölvum síðustu áratuga ref fyrir rass. Áhrif tölvutækninnar á okkar daglega líf hafa verið mikil og nú er svo komið að tölvur koma með einum eða öðrum hætti nálægt flestum þáttum þjóðfélagsins.

Langflestar þeirra keyra á Windows stýrikerfinu, sem er framleitt af fyrirtækinu Microsoft. Segja má að stýrikerfið sé sýn okkar á tölvutæknina og tölvukunnátta fólks ræðst almennt af því hvort að það hafi þekkingu á Windows-kerfinu. Þó eru margir, sérstaklega tæknimenntað fólk eða áhugafólk um tölvutækni, sem nota önnur stýrikerfi þ.á m. Linux sem stuttlega var fjallað um í pistli hér á Deiglunni í gær.

Ótrúleg saga

Saga Microsoft fyrirtækisins, framleiðanda Windows, er ótrúleg og á sér enga hliðstæðu. Stærð fyrirtækisins hefur margfaldast á aðeins nokkrum árum og nú er svo komið að það skipar sér í sæti með stærstu fyrirtækjum heims.

Sagan byrjaði á því að Bill Gates og Paul Allen stofnuðu lítið fyrirtæki árið 1975 sem tók að sér að skrifa stýrikerfi, sem kallað var DOS, fyrir IBM (International Business Machines) sem undirbjó framleiðslu á sinni fyrstu heimilistölvu. IBM náði fljótlega fótfestu á markaðnum sem framleiðandi heimilistölva og með hverri seldri IBM-vél fékk Microsoft hlutdeild í hagnaði. En þeir græddu meira á samstarfinu. Aðrir hugbúnaðarframleiðendur skrifuðu sinn hugbúnað fyrir MS-DOS og fljótlega urðu IBM og aðrir framleiðendur PC-tölva algjörlega háðir Microsoft hvað varðar hugbúnað. Þorri tölvunotenda var þá búinn að kaupa stýrikerfi af Microsoft og erfitt, ef ekki ómögulegt, var að fá notendur til að skipta yfir í önnur kerfi.

Eftir það hefur Microsoft stækkað með veldisvexti og nú er svo komið að hugbúnaður fyrirtækisins er á langflestum tölvum í heiminum. Fyrirtækið, sem metið er á um 282 milljarða bandaríkjadali, hefur því töluverð áhrif enda treystir stór hluti tölvunotenda og fyrirtækja Microsoft fyrir notkun sinni á tölvutækninni.

Mjólkurkýr Microsoft

Hagnaður Microsoft kemur að miklu leyti frá tveimur afurðum. Annars vegar stýrikerfinu Windows, sem náði miklum vinsældum árið 1996, og hins vegar Office-pakkanum, sem inniheldur vel þekkt forrit eins og Word, Excel og PowerPoint. Af hvorri þessara afurða græðir MS um 10 milljarða bandaríkjadali á ári. Undanfarin ár hefur fyrirtækið leitað hófanna víðar, enda ekki vandræðalaust að finna fjárfestingakosti fyrir slíkar upphæðir og hafa þeir m.a. tekið þátt í samkeppni í framleiðslu leikjatölva með góðum árangri.

Líða enga samkeppni

Á síðari árum hefur Microsoft verið gagnrýnt fyrir að beita bolabrögðum gegn keppinautum sínum og hafa mál fyrirtækisins oft lent á borði bandarískra dómstóla. Frægasta dæmið um slíkt mál er án efa málshöfðun Netscape á hendur Microsoft fyrir að gera netvafrann Internet Explorer samofinn stýrikerfinu Windows og útilokað þannig samkeppni. Úrskurðað var að fyrirtækið hefði notað markaðsráðandi stöðu sína óeðlilega og stjórnendum gert að skipta því upp og greiða háar fjársektir. Reyndar var þeim úrskurði áfrýjað, hann mildaður og er því fyrirtækið álíka stórt og áður, ef ekki stærra, en var þó gert að greiða fjársektirnar. Þess má geta að nýverið hætti Netscape starfsemi þar sem AOL-Time Warner eigandi fyrirtækisins gerði víðtækan samning við Microsoft um notkun og dreifingu á iExplorer sem aðalvafra fyrir notendur netþjónustu AOL, sem flestir hafa hingað til notað Netscape.

Hreðjatak á tölvuþróun

moore lögmáliðMargir halda því fram að Microsoft haldi tölvutækninni í spennitreyju með tækni sinni og geri ekki öðrum kleift að koma inn á markaðinn. Á markaðnum sé því ekki sú samkeppni sem er nauðsynleg framþróun tölvutækninnar. Aðrir halda því fram að það sé einmitt Microsoft að þakka að heimilistölvurnar séu orðnar eins öflugar og raun ber vitni. Samstarf Intel, sem er stærsti framleiðandi örgjörva í heiminum, og Microsoft hefur hraðað þróun tölvutækninnar. Stefnumörkun Microsoft um að hvert heimili í Bandaríkjunum eignist heimilistölvu hefur leitt til þess að þær eru nú orðnar sjálfsögð heimilistæki á Vesturlöndum og hafa þar af leiðandi lækkað töluvert í verði. Samstarfið gengur að miklu leyti út á að Microsoft framleiðir hugbúnað sem krefst mikils af þeim tölvubúnaði sem hann keyrir á, ekki síst örgjörvunum sem Intel framleiðir og hvetur (neyðir?) þannig notendur til að uppfæra búnað sinn. Intel má hafa sig allan við til þess að halda í við óðum stækkandi hugbúnaðarpakka frá Microsoft og hefur því tækni þeirra þróast hratt. Hraði örgjörva Intel hefur fylgt lögmáli Moore’s, sem segir að rásaþéttleiki á örgjörvum tvöfaldist á 18 mánaða fresti, og segja sérfræðingar, þ.á m. Gordon Moore sem lögmálið er nefnt eftir, að sú þróun eigi eftir að halda áfram í a.m.k. tvo áratugi í viðbót og hraði örgjörvanna, sem er aðalreikniverk tölva, eigi eftir að margfaldast.

Raunhæfan valkost vantar

Saga Microsoft er ótrúleg, ekki síst fyrir þær sakir hversu stuttan tíma það hefur tekið fyrir einn aðaleiganda fyrirtækisins Bill Gates, sem á nú um 11% í Microsoft, að byggja upp svo stórt fyrirtæki. Flestum er þó ljóst að fyrirtækið hefur óteljandi tækifæri til að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Jafnframt hefur verið bent á að hættulegt geti reynst að tölvukerfi heimsins treysti alfarið á einn hugbúnaðarpakka frá fyrirtæki í þessari stöðu. Margir tölvusérfræðingar hafa áttað sig á þessari staðreynd og leita því logandi ljósi að stýrikerfi sem getur veitt Windows nægjanlega samkeppni og orðið raunhæfur möguleiki fyrir almenna notendur. Því miður virðist það ekki vera í sjónmáli. En hey, Office2003 er á leiðinni!

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.