RJ Reynolds

Í tilefni af nýjum tóbaksvarnarlögum er tilvalið að fjalla eilítið um sögu hins merka tóbaksvöruframleiðanda RJ Reynolds.

Næststærsta tóbaksfyrirtæki Bandaríkjanna heitir RJ Reynolds Tobacco Company og er með höfuðstöðvar í borginni Winston-Salem í Norður Karólínu. Í bókinni Barbarians at the Gate er afskaplega skemmtilegur og fróðlegur kafli um sögu þessa merka fyrirtækis.

R.J. Reynolds, eða Mr. RJ eins og hann er enn kallaður í Winston-Salem, stofnaði fyrirtæki sitt árið 1874 og hófst handa við að framleiða munntóbak. Fyrirtækið óx hratt og var um aldamótin 1900 orðið stærsta tóbaksfyrirtæki héraðsins. Skömmu eftir aldarmótin ákvað Mr. RJ hins vegar að stækka enn við sig með því að markaðssetja píputóbak um öll Bandaríkin undir vörumerkinu Prince Albert. Auglýsingar fyrirtækisins gengu út á það að Prince Albert væri „gleðitóbak“ sem „bítur ekki tunguna“. Prince Albert náði á skömmum tíma gríðarlegum vinsældum og gerði RJ Reynolds að mikilvægasta tóbaksfyrirtæki Bandaríkjanna og Winston-Salem að borg milljónamæringa.

Það var síðan árið 1913 sem Mr. RJ tók áhættusömustu ákvörðun ferls síns. Hann tók að framleiða sígarettur. Á þessum tíma var lítil eftirspurn eftir sígarettum þar sem flestir reykingamenn kusu að vefja þær sjálfir en Mr. RJ taldi að sígaretta sem bragðaðist vel gæti náð vinsældum. Með því að blanda saman tóbaki frá Norður Karólínu, Kentucky og Tyrklandi skapaði hann sígarettu með sérstakt bragð sem hann kallaði Camel. RJ Reynolds markaðssetti Camel sígarettur um öll Bandaríkin samtímis og náðu þær ótrúlegum vinsældum á skömmum tíma. Eftir eins árs framleiðslu seldust 425 milljónir pakka á ári. Fáeinum árum seinna dó hins vegar Mr. RJ 68 ára að aldri.

Á áratugunum eftir dauða Mr. RJ hægðist verulega á vexti fyrirtækisins vegna slakrar stjórnunar þess. Árið 1929 gerðist það síðan að Camel var velt úr sessi sem vinsælustu sígarettutegund Bandaríkjanna af Lucky Strike. Það var ekki fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar sem annað blómaskeið RJ Reynolds hófst undir forystu John Whitaker. Árið 1954 hóf fyrirtækið framleiðslu á Winston sígarettum, sem á skömmum tíma varð fyrsta sígarettutegundin með filter til þess að ná vinsældum um öll Bandaríkin. Skömmu síðar markaðssetti fyrirtækið Salem sígarettur sem urðu á skömmum tíma fyrstu mentol sígaretturnar til þess að ná vinsældum um öll Bandaríkin. Milljarðar sígaretta af báðum þessum tegundum seldust innan fárra ára. RJ Reynolds var aftur orðið stærsta tóbaksfyrirtæki í Bandaríkjunum.

Á þessum árum reyktu Bandaríkjamenn eins og strompar og peningar flæddu til Winston-Salem. Árið 1964 urðu hins vegar kaflaskil hjá RJ Reynolds eins og öðrum tóbaksfyrirtækjum. Sala fyrirtækisins minnkaði verulega eftir að skýrsla landlæknis Bandaríkjanna gaf til kynna að tengsl væru milli reykinga og krabbameins. Þar að auki gerði RJ Reynolds mikil mistök á þessum árum í því að markaðssetja vörur sínar ekki utan Bandaríkjanna á sama hátt og Philip Morris, framleiðandi Marlboro sígaretta, gerði með góðum árangri.

Á áttunda áratugnum var fyrirtækinu illa stjórnað. Verksmiðjur þess dröbbuðust niður og vinsældir Winston, Salem og Camel minnkuðu smám saman. Árið 1976 urðu Marlboro sígarettur söluhæstu sígarettur Bandaríkjanna eftir að Winston sígarettur höfðu verið það í tvo áratugi. Tímabil hægfara samdráttar var gengið í garð þar sem sígarettueftirspurn drógst saman í Bandaríkjunum á hverju ári. Þrátt fyrir það hagnaðist RJ Reynolds um milljarð dollara á ári.

Þessi gríðarlegi hagnaður vakti áhuga utanaðkomandi fjárfesta. Níundi áratugurinn var af þeim sökum mikill umrótartími. Fyrst sameinaðist fyrirtækið Nabisco Brands. Síðan flutti það höfuðstöðvar sínar til Atlanta. Síðan lenti það í stærsta yfirtökubardaga níunda áratugarins (sem er helsta viðfangsefni bókarinnar Barbarians at the Gate). Eftir yfirtökuna var RJ Reynolds og Nabisco skipt upp og í dag er RJ Reynolds aftur komið með höfuðstöðvar í Winston-Salem og einbeitir sér nú að sölu tóbaks (fjórar af tíu vinsælustu sígarettutegundum Bandaríkjanna eru enn framleiddar af fyrirtækinu: Winston, Salem, Camel og Doral) og fjölmörgum málaferlum sem höfðuð hafa verið á hendur fyrirtækinu vegna meints skaða sem vörur þess hafa valdið viðskiptavinum þess.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.