Ísraelar byrgja brunninn

Ísraelski herinn og ísraelska leyniþjónustan Mossad hafa undanfarna mánuði dundað sér við það að leita uppi og myrða Palestínuaraba sem þykja líklegir til þess að ógna öryggi Ísraels – því betra er að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann.

Ísraelski herinn og ísraelska leyniþjónustan Mossad hafa undanfarna mánuði dundað sér við það að leita uppi og myrða Palestínuaraba sem þykja líklegir til þess að ógna öryggi Ísraels – því betra er að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann. Þetta er ekki í fyrsta skipti í mannkynssögunni sem valdhöfum dettur það „snjallræði” í hug að myrða fólk án dóms og laga áður en það verður að glæpamönnum og „þjóna” þannig öryggishagsmunum viðkomandi lands. Slíkar aðferðir hafa víða verið notaðar í gegnum aldirnar í andlýðræðislegum ríkjum þar sem mannréttindi eru fótum troðin.

Ísraelar reyna að verja þessar aðgerðir sínar með því að benda á að inn á milli barna og óbreyttra borgara sem þvælast fyrir kúlunum séu annað hvort hættulegir hryðjuverkamenn eða verðandi hættulegir hryðjuverkamenn. Þeir saklausu borgarar sem þarna eru drepnir með köldu blóði þykja því eðlilegur fórnarkostnaður í viðleitni ísraela til að vernda eigin kynþátt og endurheimta fyrirheitna landið, nokkuð sem nefnist einu nafni síonismi.

Palestínumenn hafa svarað þessum árásum ísraela á sinn gamalkunna hátt með sjálfsmorðsárásum á saklausa borgara. Þannig reyna þeir að þreyta ísraelskan almenning á landvinningum Ísraels og reka þá í burtu frá Palestínu. Ísraelskur almenningur virðist hins vegar vera langt frá því að þreytast á búsetunni og krefst harðari og harðari aðgerða með hverri sprengingunni.

Vesturlönd sem hingað til hafa lítið gert annað en að fordæma ódæðisverk þessarra ófriðsælu nágranna í Mið-Austurlöndum reyna nú að slá á puttana á Ísraelsmönnum og segja þá ganga of langt í baráttu sinni fyrir „friði”. Bandaríkjamenn, sem halda verndarskildi yfir Ísrael, hafa fordæmt aðgerðirnar og þar með gefið til kynna að Ísraelsmenn komist ekki upp með hvað sem er. Forsætisráðherra Ísrael, Ariel Sharon, er líklegur til að taka gagnrýni Bandaríkjamanna alvarlega því Bandaríkjamenn veita Ísraelsríki árlega þrjúhundruð milljarða króna í þróunaraðstoð. Fjárhagsaðstoðin slagar hátt í þróunaraðstoð allra Afríkuríkja til samans sem hlýtur að teljast svolítið sérkennilegt í ljósi þess að Ísrael er langt frá því að vera vanþróað ríki.

Yasser Arafat, leiðtogi PLO, birtist okkur í vestrænum fjölmiðlum sem friðarsinni sem biður þjóð sinni vægðar. Sú mynd er líklegast nokkuð einfölduð því Arafat er ekki kjörinn forseti neins ríkis og hefur þar með ekki óskorðað vald til samninga. Þó að Arafat vilji skrifa upp á einhvern friðarsamning þá er ekki víst að þjóð hans sé honum samþykk. Staðreyndin er sú að Arafat fer fyrir samtökum ólíkra hagsmuna sem er misherskáir. Það má heldur ekki gleyma því að þessi friðarverðlaunahafi Nóbels á vafasaman bakgrunn. Með þögn sinni hefur Arafat lagt blessun sína yfir mörg hryðjuverk palestínuaraba og flokkur hans Fatah hefur staðið fyrir ógeðfelldum skæruhernaði í gegnum árin. Það má samt telja Arafat til tekna að hann hefur hefur margbeðið um að alþjóðlegt gæslulið verði sent til á svæðið og að aðgerðir Ísraela verði rannsakaðar af alþjóðlegum dómstólum. Bandaríkjamenn hafa hins vegar í gegnum Sameinuðu þjóðirnar ítrekað komið bæði í veg fyrir að aðgerðir Ísraela séu rannsakaðar og að alþjóðlegt gæslulið verði sent á staðinn.

Afstaða Bandaríkjamanna í málefnum Ísraels má skýra með tvennum hætti. Annars vegar eru efnahagsleg og pólitísk ítök gyðinga í Bandaríkjunum það mikil að Bandarísk stjórnvöld voga sér ekki annað en að framfylgja síonisma í stefnu sinni. Langflestir gyðingar sem flúðu helförina fóru til Bandaríkjanna og þar hafa síðan margir komist til mikilla efna og pólitískra áhrifa. Sá Bandaríkjaforseti sem vogar sér að víkja eitthvað út frá síonisma getur því ekki átt von á endurkjöri. Hins vegar er mikilvægt fyrir Bandaríkin að viðhalda ákveðinni upplausn í Mið-Austurlöndum. Á svæðinu er megnið af auðvinnanlegri olíu heimsins og Bandaríkjamenn eru mesta olíuinnflutningsríkií heiminum. Það þjónar því hagsmunum þeirra að eiga bandamann á svæðinu sem er vel vopnum búinn ef eitthvað fer úrskeiðis.

Leiðtogar Evrópu hafa verið furðu hófsamir í fordæmingu sinni á baráttuaðferðum stríðandi fylkinga í gegnum tíðina ef hagsmunir þeirra eru hafðir í huga. Titringur fyrir botni miðjarðarhfs getur nefnilega hæglega haft áfhrif á olíuverð sem er ráðandi þáttur í efnahagsástandi á Vesturlöndum. Evrópubúar nota nefnilega ekki einungis olíu til að knýja bifreiðar sínar eins og við Íslendingar heldur einnig til þess að kynda húsin sín og framleiða rafmagn. Smávægilegar hækkanir á olíuverði geta því hæglega skipt sköpum í efnahagsástandi Evrópu og framkallað kreppu eins og sannaðist í olíukreppunni árið 1973.

Það lítur ekki út fyrir að Sharon og Arafat séu að fara að kyssast í bráð og hugsanlega mun blóð renna í Mið-Austurlöndum næstu áratugina eins og það hefur alltaf gert. Við skulum samt vona að innan fárra ára geti þessar þjóðir litið til baka og hrist hausinn yfir heiftinni og vitleysunni sem þarna viðgengst.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)