Hátt gengi krónunnar

Margir furða sig á mikilli hækkun á gengi krónunnar að undanförnu. Og æ fleiri eru farnir að kvarta undan of háu gengi. Af hverju er gengið svona hátt? Og er eitthvað hægt að gera til þess að lækka það?

Gengi krónunnar hefur hækkað ört síðustu mánuði. Bandaríkjadalur kostar til dæmis ekki nema 72 kr. í dag en kostaði 82 kr. um síðustu áramót og 110 kr. þegar hann var dýrastur árið 2001. Gengi krónunnar gagnvart öðrum galdmiðlum hefur ekki hækkað jafn mikið, en hefur þó hækkað talsvert. Þannig hefur gengi krónunnar gagnvart viðskiptaveginni körfu af öðrum galdmiðlum hækkað úr tæplega 150 haustið 2001 í tæplega 120 í dag.

Þessi gríðarlega hækkun á gengi krónunnar kemur sér illa fyrir fyrirtæki sem stunda útflutning. Slík fyrirtæki þurfa að velja á milli þess að hækka verðið á vörum sínum erlendis ellegar fá færri krónur fyrir það sem þau selja. Gengishækkun krónunnar kemur sér einnig illa fyrir fyrirtæki á innanlandsmarkaði sem keppa við erlendar vörur þar sem innkaupsverð á erlendu vörunum lækkar.

Á síðustu vikum hefur í auknum mæli verið talað um að hátt gengi krónunnar sé farið að leiða til þess að fyrirtæki í sjávarútvegi hugleiði uppsagnir og samdrátt. Þess vegna er eðlilegt að spyrja af hverju gengi krónunnar sé svona hátt og hvort ekki sé unnt að gera eitthvað til þess að lækka það.

Helsta ástæða þess að gengi krónunnar hefur verið að hækka á síðustu mánuðum eru áform um byggingu álvers og virkjana á Austurlandi. Vaxtargeta hagkerfisins takmarkast af því vinnuafli sem þjóðin býr yfir. Þessar risavöxnu famkvæmdir munu því gera það að verkum að aðrir hlutar hagkerfisins þurfa að vaxa hægar á meðan eða jafnvel dragast saman. Arnór Sighvatsson deildarstjóri í Seðlabankanum komst vel að orði þegar hann sagði: „Einhverju verður að ryðja í burtu til að koma fyrir þessum stóru framkvæmdum í þjóðarbúinu.” Háir vextir, sem aftur leiða til hás gengis, eru það tæki sem Seðlabankinn notar til þess að hægja á vexti annars staðar í hagkerfinu á meðan á álvers- og virkjanaframkvæmdunum stendur.

Áform ríkisstjórnarinnar um stórfeldar skattalækkanir og massífar hækkanir á lánum Íbúðalánasjóðs eru einungis til þess að bæta gráu ofaná svart. Þær ýta undir aukinn hagvöxt og gera það því að verkum að Seðlabankinn þarf að stíga enn harðar á bremsuna en ella. (Reyndar virðist stór hluti stattalækkananna eiga að renna til stóreignafólks og hátekjufólks sem er ef til vill ekki eins líklegt til þess að eyða þeim.)

Það er því óumflýjanlegt að gengi krónunnar verði hátt á næstu árum. Raunar er líklegt að það hækki enn frekar. Það eina sem komið getur í veg fyrir hátt gengi krónunnar er verulegt aðhald í ríkisfjármálum eða að hætt verði við framkvæmdirnar fyrir austan. Það voru kannski ekki allir sem gerðu sér grein fyrir því þegar þessar framkvæmdir voru til umræðu að þær myndu hafa neikvæð áhrif á aðra geira þjóðabúsins. Sú er nú samt raunin.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.