Íslendingar verða að læra að spara

Fyrirheit sáttmálans saman með atvinnuátaki fyrrverandi ríkisstjórnar, Kárahnjúkavirkjun og álveri í Reyðarfirði gætu reynst okkur of stór biti að kyngja í einu. Það verður að spara sem lengi á að vara og ríkisstjórnin verður að hafa dug og þor til þess að halda vaxtastiginu í landinu niðri, þó það kosti óþægilegar aðgerðir í ríkisrekstri.

Stjórnarsamstarf Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er í höfn og er það vel að mati pistlahöfundar. Landsmenn geta þá áfram krafið sína umboðsmenn um áframhaldandi stöðugleika, hallalaus fjárlög, áframhaldandi skattalækkanir og skynsamlega nýtingu á peningum skattborgaranna (ríkissjóði).

En það verður ekki þrautalaust hjá komandi ríkiststjórn að takast á við væntanlegt þensluskeið ef marka má það litla sem gefið hefur verið út um stjórnarsáttmálann. Framsókn hefur gefið eftir í skattamálum í skiptum fyrir aukningu húsnæðislána og ólíklegt er að velferðarkerfið verði skorið niður á kjörtímabilinu. Málin eru góð en best er til hófs að búa. Fyrirheit sáttmálans saman með atvinnuátaki fyrrverandi ríkisstjórnar, Kárahnjúkavirkjun og álveri í Reyðarfirði gætu reynst okkur of stór biti að kyngja í einu. Það verður að spara sem lengi á að vara og ríkisstjórnin verður að hafa dug og þor til þess að halda vaxtastiginu í landinu niðri, þó það kosti óþægilegar aðgerðir í ríkisrekstri.

En það er ekki bara ríkisstjórnin sem þarf að takast á við pengingainnspýtingu skattalækkanna og stórframkvæmda heldur einnig fólkið í landinu. Ef það á að takast að halda vaxtastiginu niðri þurfa Íslendingar sennilega aftur að læra að spara, nokkuð sem við gleymdum á níunda áratugnum. Í stað þess að rjúka nú til við sætan ábataþefinn og endurnýja jeppann og glitnislánið er kominn tími til þess að greiða fyrir gamlar syndir. Skuldir heimilanna hafa keyrt fram úr öllu hófi á síðustu árum og varsjóðir víðast óþungir til að mæta skakkaföllum. Það er erfitt að útskýra eyðsluáráttu landans en í dag virðist pistlahöfundi af einhverjum ástæðum flestir Íslendingar undir fimmtugu, hann þ.m.t., keppast við að umbuna sér með umframefnum.

Í þessum efnum gætum við lært margt af eldra fólki sem og löndunum í kringum okkur. Eldra fólk man tímana tvenna, Danir eiga allir sína varasjóði og Norðmenn eru sífellt að undirbúa sig undir heimskreppu. Umskiptin á ráðahag heimilanna frá níunda áratugnum eru að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni en öfgarnar þarf að sníða af svo jafnvægi náist. Hversu margir lesendur henda t.d. matvælum daglega úr kæliskápum sínum, nokkuð sem eldra fólki finnst jaðra við glæp? Það er ekki stór synd að henda matvælum í allsnægtarþjóðfélagi en á meðan að flest heimili tala um fasteignir og fararskjóta sína “samvinnuverkefni við bankastofnun” er það synd. Við Íslendingar þurfum nú að tileinka okkur vandaðri fjármálasiði viljum við halda langvarandi stöðugleika og velmegun. Gleymum ekki að framkvæmdir fyrir austan vara ekki að eilífu og margt gengur verr en varir.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)