Lýðræði í Írak

Nú þegar farið er að síga á seinni hluta stríðsins í Írak hefur athygli fréttaskýrenda beinst í ríkara mæli að framtíðarstjórn landsins – hverjir taki við og hvaða stjórnskipulag henti best. Fall stjórnar Saddams Husseins er einungis hluti af áætlunum Bandaríkjamanna og með sigrinum fylgir sú skylda að sjá til þess að uppbygging stjórnkerfis landsins gangi hratt og örugglega fyrir sig.

Many forms of Government have been tried, and will be tried in this world of sin and woe. No one pretends that democracy is perfect or all-wise. Indeed, it has been said that democracy is the worst form of Government except all those others that have been

Winston Churchill

Nú þegar farið er að síga á seinni hluta stríðsins í Írak hefur athygli fréttaskýrenda beinst í ríkara mæli að framtíðarstjórn landsins – hverjir taki við og hvaða stjórnskipulag henti best. Fall stjórnar Saddams Husseins er einungis hluti af áætlunum Bandaríkjamanna og með sigrinum fylgir sú skylda að sjá til þess að uppbygging stjórnkerfis landsins gangi hratt og örugglega fyrir sig.

Öllum ætti að vera ljóst að árasir bandamanna, þ.e. Bandaríkjamanna, Breta og nokkurra annarra þjóða, var þaulskipulögð. Þó að hernaðurinn hafi skotgengið og sigrar bandamanna hafi verið nokkuð auðveldir kom mörgum á óvart hvernig íraska þjóðin brást við falli ríkistjórnar Saddams Husseins. Í stað þess að fagna frelsuninni geisaði algjör ringulreið. Um leið og stíf stjórn Saddams var ekki lengur við líði sáu íbúar landsins um að gjöreyðileggja allt sem var eftir stjórnkerfi landsins með gripdeildum og eyðileggingu opinberra bygginga sem fyrir voru í mjög slæmu ástandi eftir stanslausar sprengjuárásir undangenginna vikna.

Nú standa vestrænu innrásarþjóðirnar frammi fyrir því erfiða verkefni að koma stjórn landsins viðunandi horf og koma á lýðræði og vestrænu frelsi sem Bandaríkjamenn segjast leggja svo mikla áherslu á.

En hvað er átt við því að koma á lýðræði í Írak? Í sinni einföldustu mynd þýddi það að þjóðin gengi að kjörborði og veldi sér leiðtoga eða stjórnarmynstur. Slíkt fyrirkomulag á sér þó ekki glæsilega sögu í þessum heimshluta því að slíkar kosningar eiga það til að snúast um heitustu málefni viðkomandi þjóðar. Í tilfelli Íraka eru það án efa trúarmál og ef tekist væri á um þau á vettvangi stjórnmálanna fylgdi því líklega miklar og blóðugar deilur þar sem þjóðin samanstendur af mörgum þjóðarbrotum og hópum sem tilheyra mismunandi öngum íslamstrúar. Þess má geta að í Afríku, þar sem 42 af 48 löndum heimsálfunnar hafa haldið lýðræðislegar kosningar, er ekki til dæmi um eðlilegt lýðræði.

Án efa eiga þeir eftir að nýta olíuauðæfi landsins til að byggja upp stjórnkerfi landsins en Írak býr yfir einum stærstu olíulindum veraldar. Því fylgja þó vandræði því að reynslan sýnir að í þeim ríkjum sem búa yfir slíkum auðæfum hefur lýðræðisþróun gengið mjög hægt eða alls ekki. Stjórnvöld eru ekki háð skatttekjum þegnanna og nauðsynlegt aðhald því minna, þar sem hvatar fólks til að fylgjast með útgjöldum ríkisins eru takmarkaðir. Því skapast meira svigrúm fyrir stjórnvöld til að styrkja leyniþjónustu og her sem ráðamenn nýta til að auka völd sín. Því má leiða rök að því að fjármagn úr olíuiðnaði Íraka sem stýrt er af stjórnvöldum landsins hafi þveröfug áhrif á lýðræðisþróun.

Þó verður ekki hjá því komist að nýta olíuna til að byggja upp gjörónýta innviði Íraks og því ekki valkostur að loka fyrir olíulindirnar til að tryggja lýðræði. Skoða mætti einkavæðingu olíuiðnaðarins til þess að fyrirtækin sjái fyrir hagkvæmni í rekstri og takmörkuðum áhrifum embættis- og stjórnmálamanna. Þó væri viss hætta á að arður olíuiðnaðarins færi ekki eins hratt í uppbyggingu landsins og nauðsynlegt er auk þess sem stórfyrirtæki gætu orðið of áhrifamikil með tilheyrandi markaðsbrestum.

Annar möguleiki væri að stofna sjóði um arð olíunnar sem fylgdu alþjóðlegum stöðlum um eftirlit og reikniskil þannig að uppgjör þeirra væri opinbert. Þessir sjóðir væru t.d. tileinkaðir uppbyggingu og viðhaldi heilbrigðiskerfis og menntakerfis Íraks og gætu þannig virkað sem stoð stjórnkerfis landsins í framtíðinni.

Þó að lýðræðið hafi ekki reynst happadrjúgt í þessum heimshluta verður varla hjá því komist að stefna að slíku stjórnarmynstri í Írak. Þó er nauðsynlegt að byggja það á traustum grunni laga og frelsis. Ekki er nóg að sjá til þess Írakar velji sér stjórnarmynstur í frjálsum kosningum því að þeim þarf einnig að fylgja skýr lagarammi með tilheyrandi aðgreiningu valds og tryggðum grundvallarmannréttindum s.s. málfrelsi, trúfrelsi og eignarétti.

Ábyrgð alþjóðasamfélagsins er mikil og ljóst að ef vestrænum þjóðum tekst ekki að koma á friði í Írak er hætta á að stríðið eigi eftir að draga dilk á eftir sér. Hvernig sem stjórnkerfi landsins verður háttað er líklegt að uppbygging Íraks mistakist ef lög, regla og frelsi verða ekki tryggð áður en reynt verður að koma á lýðræði.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.