OECD vill drepa húsbréfakerfið

Tillögur OECD um að ríkið dragi verulega úr stuðningi við húsnæðiskaup eru vanhugsaðar. Stuðningur við húsnæðiskaup er skynsöm leið til þess að ýta undir sparnað og eingamyndun lág- og millitekjufólks í samfélaginu með það að markmiði að draga úr fátækt.

Í gær birti OECD skýrslu um íslenska hagkerfið. Skýrslan er um margt ágætis lesning. Hún er mjög fræðandi og flest það sem sérfræðingar OECD leggja til er skynsamlegt. Þeir leggja til dæmis til að Landssíminn verði einkavæddur sem fyrst, að markaðsvæðingu raforkugeirans verði hraðað, að háskólanemar taki aukinn þátt í að greiða fyrir nám sitt, og að stuðningur við landbúnað verði skorinn niður.

Það er hins vegar ekki allt jafn skynsamlegt sem sérfræðingar OECD leggja til. Eitt af því sem orkar tvímælis í tillögum þeirra er að þeir leggja til að ríkið dragi verulega úr stuðningi við húsnæðiskaup. Þeir setja fram nokkur rök til stuðnings þessu. Í fyrsta lagi telja þeir að stuðningur ríkisins við húsnæðiskaup sé dýr og leiði því til þess að skattar séu hærri en þeir þurfa að vera. Í öðru lagi telja þeir að hann skekki fjárfestingarákvarðanir, þ.e. leiði til offjárfestingar í húsnæði og dragi úr annarri fjárfestingu. Í þriðja lagi telja þeir mögulegt að hann stuðli að aukinni erlendri skuldasöfnun.

Þessi rök verða að teljast heldur ósannfærandi. Sérfræðingum OECD reiknast til að kostnaður ríkisins af stuðningi við húsnæðiskaup sé 1.75% af VLF. Þriðjungur þess er hins vegar ekki beinn kostnaður heldur einungis markaðsvirði ríkisábyrgðar á húsbréfum. Ég á erfitt með að sjá að kostnaður ríkisins af þessari ríkisábyrð sé neitt í líkingu við markaðsvirði hennar. Húsnæðiskerfið felur nefnilega í sér gríðarlega áhættudreifingu sem felur í sér hreinan ábata.

Fyrir flest fólk er fasteignin sem það kaupir lang stærsti hluti þess sparnaðar sem það tekst á hendur á lífsleiðinni, ef undan er skilinn lögbundinn lífeyrissparnaður. Stuðningur ríkisins við húsnæðiskaup ýtir undir þennan sparnað. Það má því vel vera að stuðningur ríkisins við húsnæðiskaup leiði til „offjárfestingar” í húsnæði. En hann leiðir einnig til aukins sparnaðar. Það er því alls ekki ljóst að hann dragi úr annarri fjárfestingu og stuðli að aukinni erlendri skuldasöfnun.

Þar að auki gefa sérfræðingar OECD öðrum ábata sem hlýst af almennri húsnæðiseign ekki mikinn gaum. Fólk sem ekki kaupir húsnæði safnar alla jafna mun minni eignum en fólk sem kaupir sér húsnæði. Slíkt fólk er því mun verr sett þegar áföll koma upp. Þetta leiðir aftur til þess að það er líklegra til þess að lenda í fjárhagsstöðu sem það ræður ekki við. Almenn húsnæðiseign dregur því úr alls kyns fátæktarvandamálum sem annars myndu hafa í för með sér fjárhagslegan kostnað fyrir ríkið og almennan kostnað fyrir samfélagið.

Stuðningur við húsnæðiskaup er skynsöm leið til þess að ýta undir sparnað og eignamyndun lág- og millitekjufólks í samfélaginu með það að markmiði að draga úr fátækt og þeim félagslegu vandamálum sem fátækt hefur í för með sér.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.