Landsfundur í aðdraganda kosninga

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram nú um helgina og hefst hann seinnipartinn í dag með setningarræðu Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Mikilvæg vinna liggur fyrir landsfundinum sem haldinn er í aðdraganda Alþingiskosninganna í vor og mun fundurinn leggja grunninn að stefnuskrá flokksins í komandi kosningum.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram nú um helgina og hefst hann seinnipartinn í dag með setningarræðu Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Mikilvæg vinna liggur fyrir landsfundinum sem haldinn er í aðdraganda Alþingiskosninganna í vor og mun fundurinn leggja grunninn að stefnuskrá flokksins í komandi kosningum.

Landsfundir Sjálfstæðisflokksins, sem eru að jafnaði haldnir annað hvert ár, hafa löngum verið með stærstu stjórnmálasamkomum hér á landi og engin breyting á því nú. Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum flokksins og hátt í 1200 fulltrúar alls staðar af að landinu munu um helgina vinna að mótun heildarstefnu flokksins fyrir Alþingiskosningarnar í maí, og þeirri stefnu sem flokkurinn mun vinna að í ríkisstjórn fái hann umboð frá kjósendum til þess.

Stjórnmálastarfið innan Sjálfstæðisflokksins er mjög öflugt og hefur undirbúningur landsfundar staðið yfir í allan vetur. Alls hafa 25 málefnanefndir starfað með flokksmönnum vítt og breytt um landið og fyrir fundinum liggja drög að ályktunum nefndanna í öllum mikilvægustu málaflokkum.

Sjálfstæðismenn eru vel stemmdir fyrir þennan landsfund enda styttist óðum í kosningar. Andrúmsloftið á vígvelli stjórnmálanna hefur verið nokkuð rafmagnað að undanförnu og hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið að fá misjafna útkomu í skoðanakönnunum undanfarið. Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa verið afar farsælar og staðið fyrir miklum og jákvæðum breytingum á íslensku samfélagi.

Gríðarlega breið samstaða er meðal sjálfstæðismanna og mikill hugur er í fólki að tryggja flokknum stuðning til áframhaldandi veru í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðustu 12 árum margsannað að honum er treystandi til að hrinda góðum málum í framkvæmd. Drög að ályktunum landsfundar sýna að flokkurinn vill halda áfram og gera betur. Lækkun skatta og afnám erfða- og eignaskatts eru á meðal þeirra stefnumála sem skapa hér aðstæður svo hægt verði að stuðla að áframhaldandi framförum á öllum sviðum samfélagins. Það er tími til að halda áfram að vinna vel fyrir Ísland. Það getur Sjálfstæðisflokkurinn. Áfram Ísland.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.