Ósmekkleg og óvísindaleg umræða um geðlyfjanotkun

Á undanförnum vikum hefur spunnist þó nokkur umræða um aukna notkun Íslendinga á geðlyfjum. Því miður hefur þessi umræða einkennst meira af fordómum en vísindum.

Síðastliðinn mánudag birtist á vef Ungra vinstri-grænna einstaklega ósmekklegur og hreint út sagt ömurlegur pistill sem bar yfirskriftina „Kjósum hamingju landsmanna í stað geðlyfja”. Þar er „stórt spurningamerki” sett við „að 10-20% þjóðarinnar þurfi að dæla í sig lyfjum til þess eins að komast í gegnum daginn”. Því haldið fram að „vandamálið” sé samfélagslegs eðlis. Í því sambandi segir höfundur:

Það ætti því ekki að vera mikið mál að minnka lyfjanotkun ef við lifðum í samfélagi sem tæki þessi mál föstum tökum og upprætti meinið. En til að svo geti farið verða Íslendingar að átta sig á því að það verður ekki möguleiki á því að vinna á þessu málum ef ríkjandi stjórn situr áfram. … Sameinumst því í baráttunni gegn því óréttlæti sem núverandi stjórn hefur komið á svo unnt verði að bjarga geðheilsu landsmanna áður en verr fer. Kjósum hamingjusamt og gott líf í stað þess að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Pistill UVG kemur í kjölfar opnuviðtals við Jóhann Á Sigurðsson í DV þar sem hann setur fram svipaðar skoðanir. Nú má ef til vill afsaka umfjöllun UVG sem barnalegt upphlaup en það sama gildir ekki um ummæli Jóhanns. Jóhann er prófessor í heimilislækningum við Háskóla Íslands og á að vita betur en að úttala sig á algerlega óvísindalegan hátt um jafn mikilvægt og viðkvæmt mál.

Það er vissulega staðreynd að geðlyfjanotkun hefur aukist hratt á Íslandi á undanförnum árum. Jóhann vitnar í nýlega rannsókn þess efnis í Læknablaðinu. Það er hins vegar ekkert í þeirri rannsókn sem sýnir að þessi aukning stafi af breytingum á íslensku samfélagi. Það er klisja að halda því fram að aukið þunglyndi stafi af „auknum hraða og samkeppni í atvinnulífinu” eins og Jóhann gerir í ritstjórnargrein Læknablaðsins. Raunar er ekkert í rannsókninni sem sýnir að þunglyndi hafi aukist. Aðrar skýringar geta verið á því að notkun geðlyfja eykst.

Á undanförnum árum hafa orðið miklar framfarir á sviði geðlækninga. Komið hafa fram lyf sem lækna og/eða halda niðri einkennum margra geðsjúkdóma sem í fyrri tíð eyðilögðu líf manna. Geðlæknar hafa einnig í auknum mæli áttað sig á því að þessi nýju lyf lækna einnig alls kyns kvíðasjúkdóma sem hrjá mjög marga, s.s. fyrirtíðarspennu. Fyrir nokkrum áratugum voru menn bara feimnir, skrítnir og/eða skapstórir og það var ekkert sem hægt var að gera í því. Í dag er vitað að alls kyns óvenjuleg félagsleg hegðun stafar af kvíðasjúkdómum sem hægt er að meðhöndla með lyfjum. Slík lyfjagjöf getur gjörbreytt lífi fólks sem á við þessi vandamál að stríða.

Önnur hugsanleg skýring þess að notkun geðlyfja hefur aukist er að fordómar gegn geðsjúkdómum hafa farið minnkandi í samfélaginu á undanförnum árum. Þetta gerir það að verkum að fleiri sem þjást af þunglyndi og annars konar andlegri vanlíðan leita sér hjálpar en áður. Slíkt getur ekki talist slæmt.

Umfjöllun þeirra Jóhanns og UVG sem stimplar aukna notkun geðlyfja sem vandamál án þess að færa fyrir því vísindaleg rök er einungis til þess fallin að ýta undir fordóma gegn notkun slíkra lyfja og einnig gegn því að fólk sem líður illa leiti sér hjálpar.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.