Ófagrar hliðar Ungfrú heims

Aldrei hefur fallið jafn svartur blettur á keppnina Ungfrú heim og í síðasta mánuði þegar yfir 200 manns létu lífið í blóðugum óeirðum sem blossuðu upp í Nígeríu í tengslum við keppnina. Aðstandendur keppninnar hika þó hvergi og hafa fært keppnina til Lundúna þar sem hún mun fara fram í 51. sinn næstkomandi laugardag. En á hvern skrifast reikningurinn fyrir dauðsföllum þeirra einstaklinga sem létu lífið vegna fegurðarinnar?

Fegurðarsamkeppnir hafa oft verið bitbein pólitískrar umræðu enda vakið sterk viðbrögð ýmissa hópa allt frá því að keppninni um Ungfrú heim var komið á fót árið 1951. Það er óhætt að segja að saga Ungfrú heims endurspegli samfélagslegar breytingar í heiminum síðustu fimmtíu ára. Keppnin hefur verið umdeild allt frá upphafi en mótmælin voru í fyrstu fremur væg.

Eftir fyrstu keppnina hótuðu kaþólsk lönd á borð við Spán og Írland að hætta þátttöku ef stúlkurnar klæddust bikiníum. Á sjöunda áratugnum mótmæltu feministar kröftuglega með hveitibombum og fúkyrðum án þess þó að þeim fylgdi mjög gróft ofbeldi. Einstakir keppendur hafa einnig lent i hringiðu pólitískra ágreiningsmála, t.a.m. var ungfrú Líbanon 1994 yfirheyrð í marga klukkutíma af líbanska hernum eftir að mynd birtist af henni skælbrosandi við hlið ungfrú Ísrael.

Nú á dögum taka flestir fegurðarsamkeppnir ekki mjög alvarlega (að Inverjum kannski undanskildum) og hinn vestræni heimur hefur ekki séð ástæðu til að viðhafa hávær mótmæli í lengri tíma. Fáir áttu því von á hryllingnum sem dundi yfir á dögunum í tengslum við keppnina sem fara átti fram í Nígeríu.

Töluvert uppnám skapaðist fyrst í haust þegar keppendur tóku að afboða þátttöku í mótmælaskyni vegna dauðadóms íslamsks dómstóls í Nígeríu yfir konu sem átti barn utan hjónabands.

Kveikjan að óeirðunum varð síðan ein setning í blaðagrein sem skrifuð var af blaðakonunni Isioma Daniel. Þar velti hún því fyrir sér hvað Múhammeð spámanni hefði þótt um keppnina og sagði eitthvað á þá leið að hann hefði að öllum líkindum tekið sér eina af stúlkunum fyrir eiginkonu. Flestir vilja kenna óábyrgri blaðamennsku um hvernig fór en var þessi klausa virkilega eina kveikjan að óeirðunum?

Bera aðstandendur keppninnar ekki ábyrgð að hluta með því að halda keppnina þar sem trúardeilur og stjórnmálaleg spenna hafa kraumað undir niðri svo árum skiptir? Eða getum við alfarið kennt um þröngsýni og yfirgangi strangtrúaðra múslima og menningarárekstrum við kristið fólk?

Síðustu ár hefur verið tilhneiging til að halda fegurðarsamkeppnir í þriðja heims löndum Afríku og í Asíu. Meira að segja keppnin Ungfrú Evrópa verður haldin í Beirút á næstunni. Sumir tala jafnvel um að búið sé að bola keppninni frá Evrópu þar sem vinsældir hennar hafa farið dvínandi á vesturlöndum en áhuginn hafur vaxið jafnt og þétt í fátækari löndum heimsins. Keppnirnar hafa veitt ungum stúlkum í þessum löndum tækifæri sem eingöngu prinsessur gátu áður látið sig dreyma um og löndin eru þakklát fyrir alla jákvæða umfjöllun sem þau geta fengið, enda sjaldan góðar fréttar sagðir frá þessum heimshornum.

Tilraun keppnishaldaranna til að skapa jákvæða fjölmiðlaumfjöllun um Nígeríu misheppnaðist gjörsamlega og tæplega bera saklausar fegurðardrottningar ábyrgð á morðunum og ofbeldinu.

Kannski hefði mátt komast hjá óeirðunum ef þessi blessaða setning hefði ekki birst á prenti. Setningin sem slík hefði samt ekki átt að fara stórkostlega fyrir brjóstið á múslimum þar sem Kóraninn heimiliar fjölkvæni. Múhammeð átti sjálfur fleiri en eina eiginkonu og var annálaður fyrir hversu vel hann kunni að meta fegurð kvenna. Í kjölfar greinarinnar birti hið tiltekna dagblað afsökunarbeiðni, m.a. á forsíðu blaðsins, fjóra daga í röð en það dugði engan veginn til að afstýra óeirðunum.

Frá upphafi var ljóst að strangtrúaðir múslimar á svæðinu væru mótfallnir keppninni og í virðingarskyni var henni frestað fram yfir Ramadan, helgimánuð múslima. En menn settu helgihaldið greinilega ekki fyrir sig þegar þeir tóku að beita ofbeldi og drepa saklaust fólk.

Ofstæki strangtrúaðra múslima hefur verið undir smásjánni síðan 11. september 2001 og auðvitað er ekki hægt að skella skuldinni á múslima almennt vegna slæmrar hegðun lítils minnihluta þeirra. En á meðan hinir öfgafullu iðkendur íslamtrúar fá útrás fyrir reiði sína með því að ganga um brennandi byggingar og drepandi fólk veltir maður því óneitanlega fyrir sér afhverju friðsöm trúarsystkini þeirra eru svo undarlega þögul þegar kemur að því að taka á vandamálum og ræða mannréttindamál í íslömskum ríkjum. Það er ljóst að ef þetta ástand á einhvern endi að taka þá þarf breytingin að koma innan frá.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.