Minnismerki um borgaralegt ofbeldi

Einhverjum kann að finnast það við hæfi að reisa skúlptur hjá Alþingi þar sem þingmenn eru minntir á að þeir verða lamdir ef þeir standa sig ekki í vinnunni. Mér finnst það ekki. Hvað gerum við þá?

Einhverjum kann að finnast það við hæfi að reisa skúlptur hjá Alþingi þar sem þingmenn eru minntir á að þeir verða lamdir ef þeir standa sig ekki í vinnunni. Mér finnst það ekki. Hvað gerum við þá?

***

Eitt sinn, þegar ég var ungur og heimskur, gaf ég út blað sem hét Bláa tegrið – blað stærðfræðinema með hægriskoðanir. Það var sóðalegt slúðurhægrisorprit. Dag einn hélt ég uppskeruhátíð fyrir þetta blað og fyllti aðstöðu stærðfræðinema með myndum af Davíð Oddssyni og tilvitnunum í Bush og Thatcher. Mörgum fannst þetta illa fyndið en einhverjum fannst það ekkert fyndið. Ég var fúll yfir því að öllum hafi ekki þótt þetta fyndið. Hvernig vogaði einhver að sér að eyðileggja fyrir mér daginn og finnast ég ekki sniðugur?

***

Því miður, ég deili einfaldlega ekki skoðunum þeirra sem telja að það þegar múgur manna braut rúður í Alþingishúsinu, braust inn á þingpalla, áreitti þingmenn á leið til vinnu og fyrir utan heimili þeirra hafi verið fínasta stund í sögu íslenska lýðveldisins. Og mér finnst ekki sniðugt að þessum atburðum sé öllum hampað sérstaklega. Menn geta verið ósammála mér. En það getur enginn þvingað mig til að láta mér finnast það hamp sniðugt.

***

Hverjar eru táknmyndir listaverksins Svörtu keilunnar? Við erum með svartan lit, uppáhaldslit anarkista. Við erum með tilvitnun í frönsku byltinguna. Dagsetning uppsetningar verksins var valin til að minna á búsáhaldarbyltinguna. Allt þetta sendir skilaboð. Þau skilaboð eru: „Kæru þingmenn, þið sitjið hér bara eins lengi og við, múgurinn, kærum okkur um.“

Auðvitað er ég sammála því að þingmenn sitja bara jafnlengi á þingi og þeir hafa umboð kjósenda til. En þingmönnum á að skipta út með því að henda seðli í kassa, en ekki með því að henda steinum í rúður.

***

Ég hef að undanförnu verið að glugga í skrif hins nýlega látna fyrrum forseta Tékklands og Tékkóslóvakíu, Vaclávs Havels. Í ritgerð sinni „Um vald hinna valdalausu“ sem skrifuð er árið 1978 lýsir Havel þeirri skoðun sinni að notkun ofbeldis sé einungis réttlætanleg í algerum jaðartilfellum, til dæmis sem svar við grófu ofbeldi valdhafa og ef valdbeiting getur stöðvað það ofbeldi. Sem dæmi tekur hann hið stríð bandamanna á hendur öxulveldunum í heimsstyrjöldinni síðari. Vacláv Havel leggst hins vegar gegn valdbeitingu gagnvart kommúnískum alræðisstjórnvöldum Mið- og Austur-Evrópu. Þær hvorki verðskulduðu slíkt, að hans mati, né heldur myndi slík vopnuð barátt skila miklu.

Ég á erfitt með annað en að taka undir með Havel. Kannski gæti það, gæti það mögulega gerst að einhvern tímann að myndum við á Íslandi búa við svo ógeðfelld stjórnvöld að ofbeldi væri réttlætanlegt til að koma þeim frá. En svo langt erum við, og höfum alla tíð verið, frá þeim stað að það að minna á þann möguleika til valdaskipta er eins og að hóta barni sem hellir niður mjólk dauðadómi.

Sú áminning, að ofbeldi og uppþot séu réttlætanleg sem aðferðir við að ná völdum, eru mun líklegri til að koma á fasisma, heldur en að hindra hann.

***

Ég fíla þetta listaverk engan veginn. Það segist upphefja óhlýðni, en upphefur í raun hugmynd um ofbeldi gegn fólki sem við sjálf höfum valið til að gera þjóðfélag okkar ögn betra. Ég vil ekki sjá þann boðskap í opinberu rými, hvað þá að sá kreppti hnefi standi steinsnar frá Alþingishúsinu. Ef einhver er ósammála mér þá getur hann boðið einkalóð sína til að hýsa þetta listaverk og opnað inn á hana svo aðrir sem honum eru sama sinnis gætu dást að því. En á Austurvelli ekkert slíkt heima.

***

Ég áttaði mig sem betur fljótt á því að þótt ég fremdi listrænan gjörning eins og þann að líma tilvitnanir í Thatcher um alla veggi í félagsaðstöðu gæti ég ekki gert kröfu um að allir myndu hafa fyrir því húmor. Það er sjálfsagt að menn hafi sínar skoðanir, jafnvel skoðanir eins og þær að ofbeldi gegn kjörnum fulltrúum geti verið réttlætanlegt, en menn geta ekki gert kröfu á að opinbert rými verði varanlega tekið undir þann boðskap og að þeir sem geti ekki fallist á hann kyngi því bara eins og ekkert sé.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.