Draumur um góðverk… annarra

Það getur verið auðvelt að fara fram á að aðrir en maður sjálfur færi heilmiklar fórnir í þágu einhvers málstaðar sem manni þykir verðugur. Verra er ef menn þurfa sjálfir að færa þær.

Það getur verið auðvelt að fara fram á að aðrir en maður sjálfur færi heilmiklar fórnir í þágu einhvers málstaðar sem manni þykir verðugur. Verra er ef menn þurfa sjálfir að færa þær.

Í kjölfar frétta (sjá: http://www.bbc.co.uk/news/world-europe-16223311) af meintum mannréttindabrotum aserska stjórnvalda tengdum undirbúningi Eurovision-keppninnar hafa sumir lagt til að íslenska sjónvarpið drægi sig úr keppninni eða að sá íslenski listamaður sem sigraði heima hætti við þátttöku af eigin frumkvæði.

Öllum er frjálst að mynda sér skoðun á mannréttindaafrekum stjórnvalda í Bakú. Það er ákveðinn fylgifiskur þátttöku í svona keppnum að það kann að koma fyrir að þær eru haldnar á stöðum með vont stjórnarfar. Í ljósi þess að stjórnvöld reyna stundum að nota stóra alþjóðlega viðburði í áróðurstilgangi geta sniðgöngur hvers konar verið réttlætanlegar og sent skilaboð. Ég, ásamt öðrum, lagði til að íslenskir ráðamenn létu sig vanta á Ólympíuleikunum í Beijing. En eitt er að biðja Ólaf Ragnar að horfa á opnunarhátíðina í sjónvarpinu, annað hefði verið að biðja íþróttamennina um sams konar fórn.

Ég er ekki að segja að ég myndi ekki bera virðingu fyrir þeim listamanni (eða íþróttamanni) sem sæti heima til að mótmæla mannréttindabrotum. En eitt er að virða Björku Guðmundsdóttur fyrir að hafa storkað kínverskum stjórnvöldum og allt annað að krefjast þess að allir listamenn sem stígi fæti í Miðríkið geri slíkt hið sama.

Þeir sem krefjast þess að listamenn sniðgangi Eurovision krefjast þess að einhver fórni mörgum mánuðum vinnu sinnar og tækifæri sem gefst ekki oft á hverri mannsævi. Ef við krefjumst þess þá skulum við í það minnsta gera okkur grein fyrir því að við biðjum ekki um lítið. Eiginlega hlýtur sá sem krefst þess að önnur manneskja færi slíka fórn sjálfur styrkja samtök á borð við Amnesty International um tugi þúsunda í hverjum mánuði.

Ef við höfum áhyggjur af stöðu mála í Bakú ættum við að bögga stjórnmálamennina okkar til að setja sig inn í málið, og beita þrýstingi á þarlend stjórnvöld. Ef það þrýtur mætti jafnvel “lýsa þungum áhyggjum” eða hvernig sem það er orðað þegar eitt ríki segir öðru að fokka sér á diplomatamáli. Það er sjálfsagt að pólitíkusarnir okkar þurfi að standa í veseni í þágu mannréttinda úti í heimi. Til þess eru þeir kosnir, ólíkt sigurvegurum söngkeppna.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.