Áfengi í matvöruverslanir: 6 góðar ástæður

Í þessum pistli mun ég stikla á stóru og telja upp nokkrar helstu, og jafnframt einföldustu, ástæður þess að sala á áfengi, og þá helst léttvíni og bjór, skuli fært úr höndum ríkisins og í matvöruverslanir.

Þann 3. ágúst sl. skrifaði Stefanía Sigurðardóttir pistil hér á Deigluna undir nafninu „Drífum okkur: Ríkið er að loka“. Þar bar hún saman áfengismenningu Breta og Íslendinga, með áherslu á það hugarfar sem þjóðirnar hafa þegar áfengi er keypt. Ég hvet ykkur eindregið til þess að lesa pistilinn hennar áður en þið lesið meira.

Já, sú áfengisstefna sem að við eigum að venjast hér á landi er mjög frábrugðin því sem að þekkist erlendis og held ég að vegna mikilla afskipta ríkisins hafi hugsun okkar til áfengis, og sérstaklega áfengiskaupa, mikið brenglast. Í þessum pistli mun ég stikla á stóru og telja upp nokkrar helstu, og jafnframt einföldustu, ástæður þess að sala á áfengi, og þá helst léttvíni og bjór, skuli fært úr höndum ríkisins og í matvöruverslanir.

1. Aukið hagræði í vörudreifingu. Til eru í dag matvöruverslanir sem gætu svarað þessari eftirspurn án mikils tilkostnaðar. Þá yrðu færri vöruhús og færri útsölustaðir og þ.a.l. eru yrðu ekki heilar verslanir sem sjá eingöngu um einn vöruflokk. Matvöruverslanir hafa þegar vörumóttökur og vörulagera til staðar og því ætti viðbótarkostnaður við einn vöruflokk ekki að vera mikill.

2. Minni umsvif hins opinbera. Ríkissjóður getur fengið allar sínar tekjur án kostnaðar – í rauninni væri það sama fyrirkomulag og í tóbaksölu. Þar sjá verslanir um sölu, á meðan að ÁTVR innheimtir alla skatta og gjöld án þess að reka verslanir.

3. Aukið hagræði fyrir viðskiptavini. Hugsanlega augljósasti punkturinn í þessum pistli mínum. Minni tími fer í verslun þar sem að ekki þarf að fara á marga staði – segir sig sjálft. En jafnvel þó að þetta fyrirkomulag væri til staðar gæti öll umgjörð og eftirlit verið strangt. Það væri t.d. að salan væri einungis leyfð á vissum tímum, að áfengið væri á sérstöku svæði inni í versluninni, starfsmenn þyrftu að hafa náð ákveðnum aldri, o.s.frv.

4. Fjölbreytni. Slíkt fyrirkomulag byði upp á mun meiri fjölbreytni þar sem að vöruval yrði ekki ákveðið af einu fyrirtæki, eins og staðan er í dag.

5. Tækifæri fyrir sérverslanir með ákveðnar áherslur. Áhugafólk um t.d. viský gæti opnað sérverslun, eða sérverslun með ítölsk vín.

6. Möguleikar til reksturs matvöruverslana á landsbyggðinni aukast. Þar sem ekki er hægt að reka verslun í dag verður víða rekstrargrundvöllur fyrir þjónustuverslanir með matvöru og vín.

Í þessum sex punktum hef ég stiklað á stóru og eingöngu talað um þá hagkvæmu kosti sem að slíkt fyrirkomulag hefði í för með sér, fyrir rekstur og almenning í landinu. Ég hef ekki borið okkur saman við nágrannaríki okkar heldur einungis nefnt atriði sem að henta hér á landi, þó að þetta fyrirkomulag þekkist auðvitað allstaðar í kring um okkur.

Þessar röksemdir eru einungis dropi í þann ólgusjó af ástæðum þess að áfengissala ætti að vera færð úr höndum ríkisins hér á landi.

Því miður sé ég ekki fram á að það gerist á næstunni. Þangað til verð ég bara að fara út í búð og kaupa mér léttöl, það verður að nægja í bili.

Latest posts by Árni Grétar Finnsson (see all)

Árni Grétar Finnsson skrifar

Árni Grétar hóf að skrifa á Deigluna í apríl 2011.