Misskilningurinn um Laffer

Eða: Af hverju við hægrimenn ættum að hætta að tala um Laffer kúrvuna og byrja að tala um hugsjónir okkar.

Eða: Af hverju við hægrimenn ættum að hætta að tala um Laffer kúrvuna og byrja að tala um hugsjónir okkar.

Árið 1974 barst okkur hægrimönnum óvæntur liðsauki í baráttunni við háa skatta. Þá kynnti hagfræðingur að nafni Arthur Laffer fyrirbæri sem síðan hefur verið nefnt eftir honum, Laffer kúrvuna. Samkvæmt Laffer kúrvunni er mögulegt að háir skattar hafi svo vinnuletjandi áhrif að hægt sé að auka skatttekjur ríkja með því að lækka skatta; aukinn vilji fólks til að vinna og skapa verðmæti vinni upp tap ríkisins af skattalækkuninni og rúmlega það.

Þessu höfum við síðan beitt óspart fyrir okkur þegar við tölum fyrir lægri sköttum – oft þegar við á, en jafnvel oftar á æði mistækan hátt. Íslenskur fræðimaður af hægri vængnum ætlar meira að segja að skreyta kápu væntanlegrar bókar sinnar um skattamál á Íslandi með Laffer kúrvunni. Hún er nefnilega nánast orðin sjálfvirkur hluti af orðræðunni í skattamálum, og það er alveg sama hvað skattar eru háir eða lágir, alltaf virðast einhverjir halda að þjóðfélagið sé á niðurhallandi hluta kúrvunnar og hægt sé að auka skatttekjurnar með skattalækkun.

Þótt sú fullyrðing geti reynst öflugt vopn í rökræðum, þá stenst hún auðvitað ekki. Fyrirbærið er raunar þokkalega vel rannsakað og fræðimenn virðast vera á einu máli um að sú jaðarskattprósenta sem tryggir hæstu mögulegu skatttekjur (e. optimal tax rate) sé mjög há í flestum ríkjum heims, og yfirleitt hærri en lögbundnir skattar. Í Bandaríkjunum er talið að hún liggi einhverstaðar á bilinu 79%-85%†, en hún sé um 60% í mörgum Evrópuríkjum††.

Þannig hafa skattalækkanir Johns F. Kennedy úr um 91% jaðarskatti á hæstu tekjur niður í 70% líklegast aukið skatttekjur með aukinni verðmætasköpun hátekjufólks í Bandaríkjunum, en skattalækkanir Ronalds Reagans úr 70% niður í 28% hins vegar dregið úr þeim. Þetta sést svo þegar tölurnar eru rannsakaðar, því jafnvel þótt skatttekjur Bandaríkjanna hafi aukist að nafnvirði á fyrra kjörtímabili Reagans, þá er hægt að rekja alla aukninguna til verðbólgu og fólksfjölgunar. Skatttekjur á mann á raunvirði drógust hins vegar saman um ca. 9% þrátt fyrir að laun hafi hækkað um 4% á tímabilinu. Skattalækkanir í flestum Evrópuríkjum myndu líklegast hafa svipuð áhrif nú.

Stóri feill okkar hægrimanna felst hins vegar ekki í því að tala fyrir kenningu sem gengur misvel upp, heldur í því að halda að hún skipti einhverju höfuðmáli. Í hugum flestra hægrimanna er það réttlætismál að einstaklingur sem vinnur sér inn verðmæti fái að njóta þeirra á þann hátt sem hann kýs sjálfur. Því sé eðlilegast að hann fái að halda sem stærstum hluta þeirra eftir, og greiði sem minnst til ríkisins. Þannig tryggjum við líka að auðlindir samfélagsins séu nýttar á sem hagkvæmastan hátt.

Af hverju skyldi það þá skipta nokkru einasta máli hvort tekjur ríkisins aukist eða dragist saman þegar skattar eru lækkaðir? Í huga hvers konar hægrimanns er það orðið lykilatriði að hámarka tekjur hins opinbera? Okkur hægrimönnum væri nær að tala fyrir þeim gildum sem raunverulega skipta okkur máli og hætta að reyna að fullnægja sjónarmiðum sem eru ekki okkar eigin. Það eru nefnilega þúsund góðar ástæður fyrir því að halda sköttum lægri en þeir eru í dag og Laffer kúrvan er hvorki ein þeirra, né ætti að vera það.

†Don Fullerton, „On the Possibility of an Inverse Relationship Between Tax Rates and Government Revenues.“, 1982 og Charles Stuart, „Welfare Costs per Dollar of Additional Tax Revenue in the United States“, 1984.
††Heijman og van Ophem, „Willingness to Pay Tax: The Laffer Curve Revisited for 12 OECD Countries“, 1984.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)