Afnám sjómannaafsláttarins

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á skattakerfinu er að finna umdeilt ákvæði um niðurfellingu sjómannaafsláttarins. Löngu var orðið tímabært að afnema afsláttinn og þó að ýmislegt megi gagnrýna í skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er þessi breyting af hinu góða.

Sjómenn vinna mikilvægt starf. Starf þeirra er allt í senn erfitt, krefjandi og oft á tíðum hættulegt. Því er eðlilegt að þeir fái vænan hluta þeirra verðmæta sem þeir skapa og að laun þeirra geti orðið há ef vel gengur. Hins vegar er óeðlilegt að þeir njóti sérkjara þegar kemur að sköttum og löngu orðið tímabært að afnema sjómannaafsláttin. Því á ríkisstjórnin hrós skilið fyrir að taka slaginn við áhrifamikla hópa sjó- og útgerðarmanna sem nú þegar hafa boðað til aðgerða til að hindra framgang frumvarpsins.

Sjómannaafslátturinn var fyrst innleiddur árið 1954 m.a. til þess að auðvelda mönnun fiskiskipaflotans en hefur tekið nokkrum breytingum síðan þá. Eins og stendur er sjómannaafslátturinn tæpar þúsund krónur á sólarhring og bætist ofaná persónuafslátt sjómanna. Önnur rök fyrir sjómannaafslættinum á sínum tíma voru meðal annars ; langar fjarvistir að heiman, slæmar vinnuaðstæður og þörf á sérstökum vinnufatnaði. Fyrri ríkistjórnir hafa reynt árangurlaust að slétta þessa hrukku á skattakerfinu og alltaf mætt mikilli andstöðu sjómanna og hótunum um verkfall enda hafa sjómenn litið á afsláttinn sem hluta af sínum kjörum.

Nú þegar stoppa verður í næstum óviðráðanlegt gat í fjárlögum ríkisins er eðlilegt að stjórnmálamenn leiti allra leiða til að minnka útgjöld og styrkja tekjustofna ríkisins. Hjá því verður ekki komist. Því liggur beint við að afnema fríðindi sem ein stétt hefur umfram aðrar þar sem slík skattabreyting væri á margan hátt sanngjarnari en flestar þær tillögur sem nú liggja fyrir.

Sjómenn hafa bent á að afslátturinn komi á móti því að þeir eru stóran hluta ársins á sjó og nýti ekki samfélagsþjónustuna til jafns við aðra. Því sé eðlilegt að þeir njóti sérstakra skattakjara. Þessi rök hljóta þó að teljast hæpin enda eru skattar notaðir að drjúgum hluta í samtryggingu sem er í eðli sínu skipt ójafnt á milli skattgreiðenda. Hjálpin er til staðar fyrir þá sem þurfa hana og ef allt gengur að óskum er líklegt að við borgum meira til ríkisins en við þiggjum. Um þetta ríkir sátt og væri óeðlilegt ef hægt væri að gera mismunandi kröfur um skattgreiðslur út frá huglægum mælingum á því hversu mikið er notað af samneyslunni.

Jafnframt er auðvelt að manna fiskiskipaflotann nú um stundir þar sem atvinnuleysi er mikið og hátt afurðaverð gerir það að verkum að mikil eftirspurn er eftir störfum á sjó. Því er augljóst að engin ástæða er til að hafa sérstaka hvata frá ríkinu til að fá fólk á sjó.

Mótmæli samtaka sjó- og útgerðarmanna voru viðbúin þar sem um beina kjaraskerðingu er um að ræða fyrir sjómenn sem útgerðarmenn verða að koma til móts við. En þessir aðilar eru þó fullfærir um að semja um kaup og kjör sín á milli sem taka mið af áhættunni sem sjómennsku fylgir, dögum að heiman og öðrum kostnaði tengdum störfum á sjó án sérstakrar aðstoðar frá okkur hinum.

Í gagnrýni forsvarsmanna útgerðarinnar á breytingarnar hefur m.a. nefnt að sjómannaafslátturinn sé lægri en afslátturinn sem er veittur af sköttum vegna dagpeninga. Sjálfsagt er að endurskoða skattlagningu á dagpeninga með tilliti til þessa sjónarmiðs en hjá því verður þó ekki litið að þeir eru hugsaðir til greiðslu á fæði og gistingu og því kannski ekki sambærilegir. Jafnframt verða það að teljast veigalítil rök að réttlæta sjómannaafsláttinn með því að benda á annað meint misræmi í skattalöggjöfinni.

Það hlýtur að teljast skynsamlegt fyrir ríkisstjórnina að taka þennan slag í núverandi árferði. Sjómenn verða að horfast í augu við að afslátturinn er ekki sanngjarn gagnvart öðrum launþegum. Afnám hans er hins vegar réttlát leið til að auka tekjur ríkisins og leiðréttir þá tímaskekkju að sjávarútvegur sé niðurgreidd atvinnugrein.

Sjómönnum er fullvel treystandi til að semja um markaðslaun sem miðast við framlag þeirra og aðstæður og útgerðarmenn nógu metnaðarfullir til að reka sín fyrirtæki án sérstakrar fyrirgreiðslu frá ríkinu.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.