Húrra fyrir auðlinda- og umhverfissköttum

Stór hluti af tekjum margra ríkja koma í gegnum auðlindagjöld/skatta af sameiginlegum náttúruauðlindum. Ísland er líklega það land í heiminum sem býr yfir mestum náttúruauðlindum miðað við höfðatölu. En á Íslandi hafa skattgreiðendur ekki notið góðs af þessum sameiginlegu auðlindum svo neinu nemur. Það er tími til kominn að slíkt breytist.

Eitt stærsta vandamálið sem stjórnvöld standa frammi fyrir næstu misseri og ár er að ná tökum á ríkisfjármálunum. Frumhalli fjárlaga á yfirstandandi ári verður líklega um 127 ma.kr. Það segir sig sjálft að slíkt gengur ekki til lengdar (hvort sem við rekum AGS úr landi eður ei). Það er því mikið fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli stefna að því að taka stórt skref í átt að jafnvægi í ríkisrekstri á næsta ári.

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að frumhalli ríkissjóðs lækki um ríflega 100 ma.kr. Heildarhallinn (þ.e. með vaxtagreiðslum) verður 87 ma.kr. og lækkar úr 174 ma.kr. Það er því enn langt í land. En stórt skref er stigið. Þetta stóra skref ætti að auka mjög trúverðuleika íslenska ríkisins á lánsfjármarkaði og þannig bæta hag skattgreiðenda.

Hundrað milljarða bati á afkomu ríkissjóðs er vitaskuld ekki sársaukalaus. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að 40% af batanum komi til með niðurskurði á ríkisútgjöldum en 60% með aukinni skattheimtu. Sjálfur vonaðist ég eftir heldur meiri niðurskurði og heldur minni skattahækkunum (til dæmis 50-50 í stað 40-60). Það eru klárlega ýmis ríkisútgjöld sem orka mjög tvímælis sérstaklega við þessar aðstæður, s.s. útgjöld til hámenningar, niðurgreiðslur í landbúnaði og umfang utanríkisþjónustunnar. En það verður samt að segjast að fáar ríkisstjórnir hafa skorið jafn mikið niður og þessi stjórn gerir nú.

Enn er ekki ljóst nákvæmlega hvers eðlis þær skattahækkanir verða sem eiga að auka tekjur ríkissjóðs um 60 ma.kr á næsta ári. Það er þó mikið fagnaðarefni að ríkisstjórnin stefnir að því að afla hluta af þessum tekjum með auðlinda- og umhverfissköttum. Þó fyrr hefði verið.

Stór hluti af tekjum margra ríkja koma í gegnum auðlindagjöld/skatta af sameiginlegum náttúruauðlindum (aðallega olíu). Ísland er líklega það land í heiminum sem býr yfir mestum náttúruauðlindum miðað við höfðatölu. En á Íslandi hafa skattgreiðendur ekki notið góðs af þessum sameiginlegu auðlindum svo neinu nemur. Þær hafa þess í stað verið afhentar án endurgjalds (í tilfelli fiskistofnanna) eða seldar með afslætti til erlendra álfyrirtækja (í tilfelli orkunnar). Það er tími til kominn að slíkt breytist.

Auðlindagjöld og umhverfisskattar hafa mikilvæga kosti fram yfir hefðbundna skatta. Hefðbundin skattlagning er vinnuletjandi. Hún dregur því þrótt úr hagkerfinu. Auðlindagjöld ef rétt útfærð eru þess í stað eðlilegt leiguverð fyrir afnot af sameiginlegri auðlind. Rétt eins og ef við Íslendingar ættum sameiginlega gríðarmikið af íbúðum í New York, leigðum þær út og lækkuðum skatta á móti. Umhverfisskattar eru enn betri. Þeir skapa tekjur og draga úr útblæstri sem er hvort tveggja af hinu góða.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.