Stóri bróðir er nær en þig grunar

Miðað við þróun undanfarinna ára þá er ekki laust við að maður hafi áhyggjur af því að í framtíðinni muni vestræn ríki og Kínverjar mætist á miðri leið í því hvað telst eðlilegt eftirlit stóra bróðurs með hegðun og (ó)hlýðni borgaranna. Bretland hefur nú náð þeim áfanga að vera mest vaktaða þjóð í heimi og slær nú meira að segja út Kína í fjölda eftirlitsmyndavéla.

Maður þarf ekki að staldra lengi við í Lundúnum eða öðrum stórborgum Bretlands til að verða fljótt var við þann gríðarlega fjölda eftirlitsmyndavéla sem komið hefur verið fyrir á hverju einasta götuhorni. Bretland hefur nú náð þeim áfanga að vera mest vaktaða þjóð í heimi og slær nú meira að segja út Kína í fjölda eftirlitsmyndavéla.

Alls eru um 4.2 milljónir eftirlitsmyndavéla á Bretlandi, eða ein myndavél á hverja 14 íbúa – en í kommúnistaríkinu Kína eru „aðeins“ 2.75 milljónir eftirlitsmyndavéla eða 1 á hverja 472 þúsund íbúa. Þannig eru Bretar nú orðnir fyrirmyndarríki á þessu sviði að mati kínverskra yfirvalda. Kínverjar hafa ítrekað fyriráætlanir sínar um að fjölga myndavélum enn frekar en þeir hafa þótt ganga mjög langt í að beita eftirlitskerfum við að vakta hvers kyns óásættanlega hegðun kínverskra borgara.

Fjölgun eftirlitsmyndavéla er reyndar bara einn liður í ótrúlegri aðför breska ríkisins að borgaralegum réttindum þar í landi. Dæmi um þann átroðning sem nú þykir eðlilegur eru bílnúmeramyndavélar út um allt, leit á fólki án tilefnis, hleranir án heimildar, yfirheyrslur án staðfests gruns um ólöglegt athæfi, öll sms og símtöl geymd í samskiptagrunni í lágmark 12 mánuði og svo mætti lengi telja. Í skjóli hættunnar á hryðjuverkum hefur aragrúa borgaralegra réttinda verið afnumin og ýmis lög sett á í þeim tilgangi að berjast gegn hættu sem starfar af hryðjuverkamönnum. Það hefur samt fáum dulist að hinar hertu reglur eru óhikað notaðar í þeim tilgangi sem hentar hverju sinni eins og Íslendingar allir – heil þjó – hafa fengið að finna á eigin skinni.

Það er mat sérfræðinga að Bretar eigi um 20% af eftirlitsmyndavélum á jörðinni og að hver manneskja í Bretlandi sé mynduð af u.þ.b. 300 myndavélum á degi hverjum. Það sem er hins vegar enn áhugaverðar er að samkvæmt nýlegri úttekt á árangri eftirlitskerfinsins þá hefur komið í ljós að aðeins einn glæpur er upplýstur fyrir hverjar eitt þúsund myndavélar. Og að á einum mánuði áttu eftilitsmyndavélar þátt í að finna 8 af 269 grunuðum þjófum. Það var nú allur árangurinn.

Þessi hlutföll eru mikil vonbrigði fyrir bresk yfirvöld sem hafa fjárfest yfir 500 milljónir punda í eftirlitsmyndavélum. Þessi úttekt hefur reyndar haft þau áhrif að yfirvöld telja sig þurfa að eyða enn þá meiri fjármunum í að fullkomna kerfið og bæta ferlana við nýtingu þeirra upplýsinga sem eftirlitsmyndavélar geta veitt – eitthvað sem þeir gætu hugsanlega lært betur af Kínverjum. Talsmaður innanríkisráðuneytisins sagði jafnframt mikilvægt að eftirlitsmyndavélar veiti fólki öryggistilfinningu. Það virðist því vera að fyrrum vestrænt lýðræðisríki stefni nú hraðbyri að því markmiði sem Kínverjar hafa löngum haft.

Miðað við þróun undanfarinna ára þá er ekki laust við að maður hafi áhyggjur af því að í framtíðinni muni vestræn ríki og Kínverjar mætist á miðri leið í því hvað telst eðlilegt eftirlit stóra bróðurs með hegðun og (ó)hlýðni borgaranna. Kínverjar hafa örlítið slakað á sinni stefnu en vestræn ríki þ.m.t. Bretland og Bandaríkin hafa gengið ótrúlega langt í að afnema borgaraleg réttindi með ólýðræðislegum aðgerðum í skjóli baráttu gegn hryðjuverkum.

Það er því mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að við stöndum vörð um réttindi einstaklinga gegn stóra bróður og óeðlilegum afskiptum ríkisvalds af okkar daglega lífi.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.