Hátíð frelsis og mannvirðingar

Ég tók þátt í hátíðahöldum samkynhneigðra líkt og áttatíu þúsund aðrir íslendingar um helgina. Það er kannski ekki ýkja margt sem við Íslendingar getum verið stolt af þessa dagana, en Gay Pride hátíðin okkar er svo sannarlega þar á meðal.

Ég tók þátt í hátíðahöldum samkynhneigðra líkt og áttatíu þúsund aðrir íslendingar um helgina. Það er kannski ekki ýkja margt sem við Íslendingar getum verið stolt af þessa dagana, en Gay Pride hátíðin okkar er svo sannarlega þar á meðal.

Hún er til vitnisburðar um það samfélag sem hefur byggst upp hér á landi þar sem fordómum er varpað fyrir róða og einstaklingurinn er metinn að verðleikum. Slíkt samfélag mannvirðingar er nokkuð sem við getum öll verið stolt af – hvort sem við erum gay eða ekki.

Í göngu sem Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor stóð fyrir í aðdraganda hátíðarinnar um söguslóðir samkynhneigðar í Reykjavík sagði hann að líklegast væri einsdæmi í heiminum að fleiri gagnkynhneigðir fögnuðu Gay Pride en samkynhneigðir líkt og raunin er hér á landi.

Það sannaðist svo þegar fjölmiðlar tóku erlenda gesti hátíðarinnar tali, sem flestir voru forviða yfir þátttöku almennings í hátíðahöldunum – slíku áttu þeir ekki að venjast heima fyrir.

En þó hátíðin sé í sjálfu sér hin besta skemmtun fyrir alla, þá á þessi mikli stuðningur almennings við málstað minnihlutahópa hér á landi, sem sést svo glögglega á Gay Pride, líklegast dýpri rætur en í fyrstu mætti ætla.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, orðaði það ágætlega í hýru hátíðarávarpi sínu þegar hún sagði hátíðina táknræna fyrir landið sem við vildum byggja, þar sem fólk býr við frelsi og hefur val um eigið líf og hamingju.

Slíkt frelsi og val er öllum jafnkært, hverrar kynhneigðar svo sem þeir eru. Og þó réttindabarátta samkynhneigðra sé í brennidepli á Gay Pride, þá er það slíkt frelsi og val öllum til handa sem er undirtónn hátíðahaldanna og hin raunverulega ástæða til að gleðjast.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)