Gleymd’ekki þínum græna bróður

Gleðileg tímamót urðu í júní í sögu Grænlands þegar Grænlendingar fengu aukna sjálfstjórn í ríkjasambandinu við Danmörku. En nú hafa daprar fréttir frá Grænlandi enn og aftur náð í fjölmiðla og nú um sorglega fortíð grænlenskra barna sem beitt voru miklum órétti af dönskum yfirvöldum þegar þau voru fjarlægð frá fjölskyldum sínum á 6. áratugnum til að vera þáttakendur í ógeðfelldri félagslegri tilraun sem gekk út á að uppræta grænlenskan uppruna barnanna. En á sama tíma og þessar fréttir koma fram þá er líka vert að veita því athygli að í dag búa því miður mörg grænlensk börn við mjög slæmar félagslegar aðsæður.

Stór tímamót urðu í sögu Grænlands þann 21. júní s.l. þegar ný lög tóku gildi sem veittu Grænlendingum aukna sjálfsstjórn í ríkjasambandinu við Danmörku. Það er ekki oft sem jákvæðar fréttir rata í heimspressuna frá þessu norðlæga nágrannalandi okkar og merkja mátti mikið stollt hjá Grænlendingum í tilefni tímamótanna, enda góð ástæða til.

Nú hafa komið upp á yfirborðið upplýsingar um sorglega fortíð á þriðja tug grænlenskra barna á 6. áratugnum, barna sem voru tekin frá fjölskyldum sínum og gerð að tilraunadýrum í ógeðfelldri rannsókn danskra yfirvalda. Rannsóknin gekk út á að þurrka út grænlenskan uppruna barnanna og innræta danska tungu og danskan kúltúr í börnin sem áttu að verða fyrirmyndir annarra grænlenskra barna í nýju tveggja tungumála skólakerfi Grænlendinga. Eins og fram hefur komið í fréttum þá misstókst rannsóknin all hrapalega en börnin voru aldrei send aftur til síns heima og ólust upp á barnaheimilum eða fósturfjölskyldum og sum voru ættleidd eftir að samþykki var aflað frá foreldrum þeirra með vafasömum aðferðum.

Grænlensk yfirvöld ætla sér að taka upp málið við dönsku ríkisstjórnina og fara fram á ítarlega rannsókn á því sem gerðist og að gripið verði til viðeigandi aðgerða í kjölfarið með opinberri afsökunarbeiðni og réttlátum bótum til þeirra sem áttu í hlut og eru enn á lífi. Málið hefur hins vegar ekki framkallað nein viðbrögð enn sem komið er frá dönskum yfirvöldum eða þeim ráðherrum sem málið heyrir undir.

Þessar fréttir minna nokkuð á málefni Breiðavíkurdrengjanna sem komust í hámæli hér á landi fyrir nokkrum árum og hefur svo sem enn ekki verið útkljáð af íslenskum yfirvöldum með sómasamlegum hætti. Þó efnislega séu málin ólík þá vekja þau bæði upp mikla sorg og reiði fyrir hönd þeirra barna og fjölskyldna sem yfirvöld visvítandi brutu gegn. Í báðum tilfellum eru barnaverndarsamtök eða aðilar sem gefa sig út fyrir að vernda hagsmuni barna eða tala fyrir þeirra hönd þáttakendur í verknaðinum. Það er sérlega ógeðslegt þegar yfirvöld hvers konar bregðast börnum svo hryllilega og beita sér með óeðlilegum hætti fyrir sundrungu fjölskyldna, heilþvætti eða andlegu eða líkamlegu ofbeldi geng börnum.

Það er ljóst að svo alvarleg brot verða aldrei bætt. Líf þeirra barna sem í hlut áttu og fjölskyldna þeirra eru glötuð og ómögulegt að taka aftur það sem gert hefur verið á þeirra hlut þó vonandi að núverandi stjórnvöld axli viðeigandi ábyrgð í málunum.

Þetta sorglega mál grænlensku barnannna má þó vonandi verða til þess að vekja athygli á aðstæðum grænlenskra barna og unglinga í dag sem mörg búa við mjög slæmar aðstæður. Fátækt er mikil og félagsleg vandamál eru hvergi meiri á Norðurlöndnunum en á Grænlandi. Hátt hlutfall áfengissjúklinga, heimilisofbeldis og sjálfsmorða er það sem Grænland hefur því miður oft komist í fréttirnar fyrir.

Í febrúar síðastliðnum sá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna ástæðu til að vekja sérstaka athygli á því með skýrslu að gengið er á réttindi barna á Grænlandi þar sem eitt af hverjum sex börnum sveltur og fjármálakreppan muni hafa þar mjög slæm áhrif þar sem aðstæður þeirra sem eiga erfitt muni versna til muna.

Þó fullt sjálfstæði Grænlands sé e.t.v. ekki á dagskrá á allra næstu misserum er margt sem við Íslendingar getum miðlað til þessara nágranna okkar. Það er reyndar ótrúlegt hvað við Íslendingar virðumst vera fjartengdir Grænlendingum og vitum í rauninni lítið um þeirra menningu og lifnaðarhætti. En fyrir litla þjóð í norðri sem á sér draum um að geta borið höfuðið hátt og einhvern tímann í framtíðinni staðið uppi sem sjálfstæð þjóð getur verið þýðingarmikið að eiga traustan vin og nágranna sem getur miðlað af reynslu og þekkingu þegar á reynir. Frumkvæði Íslendinga að samstarfi við Grænlendinga á mörgum sviðum gæti fært báðum þjóðum ýmis tækifæri og verið til hagsbóta fyrir báðar þjóðirnar.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.