Ríkisstjórn hinna klofnu heilahvela

Það er runninn upp örlagadagur í sögu Íslands. Útlit er fyrir að í dag munu 0.01% þjóðarinnar telja sig færa um að hafa vit fyrir okkur hinum og ákveða að sækja um aðild að tollabandalagi Evrópu.

Í dag munu alþingismenn þjóðarinnar greiða atkvæði um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um inngöngu Íslands í ESB. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lýsti því yfir í kvöldfréttum ríkissjónvarps í gær að hún teldi atkvæðagreiðsluna standa tæpt. Líklega er þetta ekkert annað en ómálefnalegur hræðsluáróður beint til þeirra stjórnarliða sem í hjarta sínu hafa engann áhuga á því að greiða þingsályktunartillögunni atkvæði sitt en hafa verið kúgaðir til hlýðni af Samfylkingu og flokksforingja Vinstri grænna, Steingrími Sigfússyni.

Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin þjáist af heilaklofnun á háu stigi með tilheyrandi einkennum þar sem heilahvel tilfinninganna gerir nákvæmlega það sem því sýnist án samráðs við heilahvel rökhugsunar. Tillaga Sjálfstæðismanna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu er eina rökrétta leiðin til að forða krónísku meini frá því að sundra þjóðinni algjörlega. Það er nauðsynlegt að tillaga þeirra fái hljómgrunn meðal meirihluta þingmanna í dag en ég eygi því miður litla von um að svo verði. Steingrímur Sigfússon hefur nefnilega ákveðið að stefna síns eigin flokks í utanríkismálum skipti ekki máli þegar hann fær að vera ráðherra.

Það var líka grátlegt að sjá Ögmund Jónasson, heilbrigðisráðherra, tala úr ræðustól á Alþingi í gærkvöldi og lýsa því yfir að hann ætli að greiða þingsályktunartillögunni atkvæði sitt. Hann sér ekkert athugavert við það að skuldbinda þjóðina í kostnaðarsamar aðildarviðræður, sem hann ætlar sjálfur að beita sér gegn síðar, upp á eitt þúsund milljónir króna á sama tíma og hann stendur frammi fyrir því verkefni að þurfa að skera niður í heilbrigðiskerfinu um alla vega fjórum sinnum hærri upphæð. Ögmundur reynir af veikum mætti að beita rökum þess efnis að lýðræðislegt ferli sé mikilvægast vitandi þó að niðurstaðan mun velta á 1-2 þingmönnum.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, þykist einnig geta prúttað niður verðið á aðildarviðræðunum, fengið ESB á útsölu eða jafnvel látið Ísland ganga í tollabandalagið í boði ESB. Hér hefur óskhyggjan náð yfirhöndinni og skert heilbrigða skynsemi. Hvurslags samningur ætli fengist út úr slíkum viðræðum?

Það er í alvörunni útlit fyrir það að 0.01% þjóðarinnar eða minnsti mögulegi meirihluti þingheims – 32 þingmenn – muni telja sig færa um hafa vit fyrir þjóðinni og ákveða að hefja aðilarviðræður við ESB þrátt fyrir að um það sé ekki samstaða meðal þjóðarinnar og augljósan klofning innan ríkisstjórnarinnar.

Það er ekki nokkur spurning að það væri best í núverandi stöðu að bera málið undir atkvæði þjóðarinnar og gefa henni tækifæri til að segja sitt álit. Það er bæði sanngjarnasta leiðin eins og það er nú statt og í rauninni mjög fýsilegur kostur fyrir bæði fylgendur og andstæðinga ESB. Andstæðingar ESB aðildar fengju tækifæri til að spyrna á móti og samþykki í slíkri kosningu er einmitt það veganesti sem ESB-sinnar þurfa í aðildarviðræðurnar. Án samþykki þjóðarinnar fer ríkisstjórnin til samningaviðræðanna með tilfinningaflóðið rökunum yfirsterkari. Höfnun þjóðarinnar í slíkri atkvæðagreiðslu myndi líka vera skilaboð til ríkisstjórnarinnar að hætta þessum skrípaleik og fara að einbeita sér að því að leysa aðkallandi vandamál innanlands.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.