Mikil endurnýjun fyrirsjáanleg í Suðurkjördæmi

Svo gæti farið að helmingur þingmanna Suðurkjördæmis að loknum kosningunum þann 25. apríl yrðu konur. Framsóknarflokkurinn á miklum erfiðleikum en Vinstrigrænir eru í sókn í kjördæminu eins og víðast hvar annars staðar.

Efnahagsmálin eru mál málanna í Suðurkjördæmi, líkt og annars staðar á landinu. Áherslurnar eru þó aðrar og ólíkar eftir svæðum innan kjördæmisins. Í kjördæminu er mikill og víðtækur stuðningur við nýtingu orkulinda og uppbyggingu stóriðju en grunnatvinnuvegirnir, sjávarútvegur og landbúnaður, eru höfuðstoðirnar í þessu víðfema kjördæmi.

Í síðustu kosningum unnu sjálfstæðismenn yfirburðasigur í kjördæminu og fengu álíka mikið fylgi og í Reykjavíkurkjördæmi suður, eða 36%. Aðeins í Suðvesturkjördæmi fengu sjálfstæðismenn betri kosningu. Miklar breytinar hafa orðið á lista flokksins síðan þá. Árni M. Mathiesen, fráfarandi oddviti listans, sækist sem kunnugt er ekki eftir endurkjöri og eftir slæmt gengi í prófkjöri eiga þau Kjartan Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir ekki raunhæfa möguleika á þingsæti.

Suðurkjördæmi er eina kjördæmið þar sem sjálfstæðismenn tefla konu fram í leiðtogasætið en Ragnheiður Elín Árnadóttir vann sannfærandi sigur í prófkjöri sjálfstæðismanna 14. og 15. mars. Önnur ung og upprennandi forystukona í flokknum, Unnur Brá Konráðsdóttir, skipar þriðja sætið á eftir Árna Johnsen, og í fjórða sæti er einnig ung kona, Íris Róbertsdóttir úr Vestmannaeyjum.

Ef marka má skoðanakannanir þá er staða Sjálfstæðisflokksins ekki eins erfið í Suðurkjördæmi eins og víðast hvar annars staðar. Flokkurinn á ágæta möguleika á því að ná þremur þingmönnum og líklega verður Íris Róbertsdóttir í baráttusæti flokksins þegar nær dregur kjördegi. Það eykur möguleika flokksins á góðri útkomu að Vestmanneyingur skipi baráttusætið enda Eyjamenn þekktir fyrir að koma sínu fólki á þing. Árnessýslan gæti verið veikleiki en enginn sjálfstæðismaður af því svæði á raunhæfa möguleika á kjöri. Í heildina litið hefur endurnýjun framboðslistans tekist vel og það ætti að auka möguleika flokksins í kjördæminu.

Samfylkingin náði ekki að fylgja eftir góðum árangri frá 2003 í síðustu kosningum, hlaut 26,8% fylgi og tapaði tveimur þingmönnum. Björgvin G. Sigurðsson sækist eftir endurkjöri sem leiðtogi listans en Lúðvík Bergvinsson sækist ekki eftir áframhaldandi þingmennsku. Oddný Guðbjörg Harðardóttir tekur sæti Lúðvíks og á eftir henni er Robert Marshall, en hann er annar fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 sem er í framboði fyrir Samfylkinguna. Hinn er Sigmundur Ernir Rúnarsson. Fjórða sætið skipar Anna Margrét Guðjónsdóttir, sem titluð er forstöðumaður í Brussel.

Líklegt má telja að Samfylkingin bæti við sig fylgi frá því í síðustu kosningum. Oddviti þeirra er hins vegar ekki eins sterkur og þá eftir að hafa orðið að segja af sér í kjölfar bankahrunsins. Þá er Samfylkingin í kjördæminu í vandræðum með afstöðu sína til virkjanamála, sérstaklega á Suðurnesjum vegna Helguvíkurframkvæmda. Miklu gæti skipt fyrir gengi Samfylkingarinnar hvort álsamningur við Norðurál verði staðfestur á Alþingi fyrir kosningar en Vinstrigrænir standa gegn afgreiðslu málsins.

Vinstrigrænir eygja mikla sóknarmöguleika í Suðurkjördæmi undir forystu Atla Gíslasonar. Í síðustu kosningum fékk VG aðeins 9,9% atkvæða og einn mann kjörinn, Atla. Kannanir nú benda til þess að flokkurinn eigi möguleika á þremur þingmönnum sem myndi þýða að auk Atla færu þau Arndís Soffía Sigurðardóttir og Bergur Sigurðsson inn á þing.

Framsóknarmenn eru í miklum vandræðum í Suðurkjördæmi eftir brotthvarf þeirra Guðna Ágústssonar og Bjarna Harðarsonar, en þeir einir náðu kjöri fyrir flokkinn í síðustu kosningum sem fékk þá 18,7% atkvæða. Sigurður Ingi Jóhannesson skipar nú efsta sætið á listanum og Eygló Harðardóttir annað sætið. Eygló situr nú á þingi eftir afföllin frá síðustu kosningum. Sögulega séð hefur Framsóknarflokkurinn verið sterkur í Suðurkjördæmi en kannanir benda til þess að flokkurinn gæti beðið afhroð í kosningunum 25. apríl.

Suðurkjördæmi er því marki brennt, eins og hin tvö landsbyggðarkjördæmin, að hagsmunir eru ólíkir eftir svæðum. Þá er mikil „hólfaskipting“ á fylginu og eins stök svæði fylgja oft frekar „sínum“ mönnum en flokkslínunum. Mikil endurnýjun á lista Sjálfstæðisflokksins gefur honum sóknarfæri, auk þess sem áherslumál flokksins falla vel að aðstæðum í kjördæminu; orkunýtingu, uppbyggingu stóriðju og stuðningur við kvótakerfið. Víst er að hugmyndir VG og Samfylkingarinnar um upptöku aflaheimilda leggjast illa í marga í kjördæminu sem eiga sitt undir sjávarútvegi, einkum á Höfn, í Vestmanneyjum, í Grindavík og Reykjanesbæ.

Spá Deiglunnar um þingmenn kjördæmisins að loknum kosningum:

B-listi: 1
Sigurður Ingi Jóhannesson

D-listi: 4
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Árni Johnsen
Unnur Brá Konráðsdóttir
Íris Róbertsdóttir

S-listi: 3
Björgvin G. Sigurðsson
Oddný Guðbjörg Harðardóttir
Róbert Marshall

V-listi: 2
Atli Gíslason
Arndís Soffía Sigurðardóttir