Á degi þýskrar einingar

Í gær, 3. október, var þjóðhátíðardagur Þýskalands. Af því tilefni skrifar Pawel Bartoszek, ritari Deiglunnar í Þýskalandi, sérstakan hátíðarpistil. Einnig verður skyggnst austur yfir landamærin til Póllands þar sem eiga sér stað engu minni breytingar.

Það fyrsta sem tekið er eftir þegar komið er til Lichtenberg hverfisins í Berlín er fólk að taka til. Slá grasið, þvo glugga og raka saman laufin. Klukkan er eina mínutu í sjö um morguninn. Biðröð hefur myndast fyrir framan Sparmarkt. Sumir líta óþolinmóðir á úrið sitt. „Er hún ekki orðin?“ spyr einhver.

Sumar goðsagnir eru einfaldlega sannar.

Ég dingla bjöllunni að stúdentaskrifstofunni. Miðaldra þýsk kona segir mér að bíða. Síðan hleypir hún mér inn til sín og býður sæti. Þegar hún heyrir að þýskan mín er eitthvað ryðguð og skiptir hún yfir í ensku. Án þess að vera fúl.

Sumar goðsagnir eru bara goðsagnir.

Ég bý í austurþýsku blokkahverfi. Sumar blokkirnar eru stúdentagarðar en aðrar ætlaðar venjulegum íbúum. Margar þeirra hafa verið fegraðrar upp – grái liturinn látinn víkja fyrir litskrúðugu handklæðamynstri, en aðrar, þar á meðal mín, eru í þann mund að ganga gegnum hamskiptin.

Engin hamskipti eru hins vegar sjáanleg innandyra í íbúðinni. „Kannskihvítir“ veggir. Skökk „kannskigræn“ gólf. Rispaðir gluggar. Ryðguð málmstykki standa út úr veggjum.

Væri ég pistlahöfundur á þverstæðuveiðum væri ég kominn með bráð: Hús sem er fagurt að utan en ljótt að innan! Dæmigert fyrir þróun mála í Austur-Evrópu eftir hrun kommúnismans! En ég er bara námsmaður, gestur í öðru landi. Herbergið er stórt og leigan ódýr: 130 evrur á mánuði og allt innifalið.

Almennt má segja að í Þýskalandi sé allt ódýrt en ekkert ókeypis. Það kostar að nota kerru í stórmarkaði. Það kostar að fá poka. Menn geta gleymt því að fá gefins penna á stöðum þar sem þeir eru nauðsynlegir eins og til dæmis á hagstofum. „Gæti ég fengið lánaðan penna?“ spyr ég en fæ hvorki penna né svar.

Þegar farið er austur yfir landamærin til Póllands eru hlutirnir ódýrari en áfram kosta þeir alltaf. „Þverstæðurnar“ eru einnig áfram til staðar. En þverstæðurnar stafa af því að þróunin til hins frjálsa markaðar er lýðræðisleg og óþvinguð. Auðvelt er að mála göturnar, laga gangstéttirnar og setja upp flott umferðarmerki. Erfiðara er hins vegar banna fólki að keyra um þær á gömlu, ljótu bílunum sínum. Auðvelt er að búa til flottar verslanir en erfiðara að skylda fólk til að klæðast flottum fötum þegar það verslar í þeim.

Ekki ber svo að skilja að einstaklingarnir séu alltaf á eftir stofnunum og fyrirtækjum. Til dæmis hefur farsímavæðing hjá venjulegum Austur-Evrópubúum orðið mun hraðari en tölvuvæðing ríkisstjórna þeirra. Margir pólskir dómstólar notast enn við ritvélar. Auðveldara er fyrir mann að kaupa sér síma en fyrir ríkisstjórn að kaupa 20 þús. tölvur með hugbúnaði.

Í hvert sinn sem ég kem til Póllands finnst mér hlutirnir betri. Auðvitað eru sumir ekki sáttir við sinn hlut. Þó að lýðræði sé komið á og ritfrelsi og skoðanakúgun heyra sögunni til má ekki gleyma að flestir litu til kapítalismans í leit að bættum lífsgæðum. Sumir eiga eftir að uppskera sitt.

En almennt held ég að þróunin sé góð.

Þessi pistill er í persónulegri kantinum en vænta mætti af sögulegu uppgjöri á afmælisdegi sameinaðs Þýskalands. Ég hef reynt sleppt háfleygum yfirlýsingum og afgerandi skoðunum. Á milli hátíðsdaga er A-Evrópa nefnilega að taka ósköp venjulegum breytingum. Veruleikinn er oftast hvorki háfleygur né verulega afgerandi.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.