Í síðustu viku voru ný bankaráð skipuð yfir nýju ríkisbönkunum. Svo virðist sem nýju bankaráðin hafi verið skipuð á pólitískum en ekki faglegum forsendum. Með fullri virðingu fyrir því fólki sem er í þessum nýju bankaráðum þá held ég að enginn telji að þarna fari þegar á heildina er litið þeir aðilar sem eru best til þess fallnir að gæta þeirra gríðarlegu hagsmuna sem skattgreiðendur hafa af rekstri nýju bankanna. Margt af þessu fólki virðist ekki hafa nokkra einustu reynslu af bankastarfsemi.
Það er vitaskuld engin nýlunda á Íslandi að fagleg sjónarmið víki fyrir flokkspólitík þegar ráðið er í stöður hjá ríkinu. Á undanförnum vikum höfum við byrjað að súpa seyðið af þessu svo um munar. Er nema von að allt sé að fara til fjandans á Íslandi þegar trekk í trekk er gengið fram hjá hæfasta fólki landsins og afdankaðir stjórnmálamenn, skyldmenni þeirra og aðrir flokkshestar eru ráðnir í margar helstu stöður innan ríkisins.
Ráðning Davíðs Oddssonar í stöðu Seðlabankastjóra er gott dæmi. Aðgerðir hans og ummæli á síðustu vikum og mánuðum hafa gert það að verkum að fjöldi erlendra stórblaða hefur birt greinar sem hæðast að honum og hæðast í leiðinni að íslensku þjóðinni.
Við þurfum að lifa með afleiðingum pólitískra ráðninga ekki bara í Seðlabankanum heldur einnig í dómskerfinu, lögreglunni, utanríkisþjónustunni, heilbrigðiskerfinu, ráðuneytunum, ríkisstofnunum, ríkisfyrirtækjum og víða annars staðar. Við líðum öll fyrir þessar ráðningar á hverjum degi þótt það sé ekki augljóst nema þegar allt ef komið í óefni.
Annað sem við höfum ekki efni á lengur er að þeir sem standa sig ekki í starfi komist hjá því að segja af sér eða vera settir af. Það er nánast engin hefð fyrir því að embættismenn og stjórnmálamenn segi af sér á Íslandi. Einu dæmin um slíkt hafa með smámál að gera eins og bílakaup, laxveiði og nú síðast að reyna að koma höggi á samherja. En þegar hundruð milljóna tapast og nú í seinni tíð hundruð milljarða gerist ekkert. Meira að segja George Bush þurfti á endanum að láta Donald Rumsfeld, Michael Brown og Alberto Gonzales fara. Á Íslandi hefðu þessir menn setið sem fastast.
Við erum fámenn þjóð og því kemur oft upp sú staða að langhæfasti aðilinn til einhvers verks er í röngum flokki. Við þurfum nauðsynlega hugarfarsbreytingu í þessum efnum. Við höfum ekki efni á því að ganga fram hjá hæfasta fólkinu þegar kemur að stjórn mikilvægustu stofnana landsins.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009