Fjármálakreppan í Bandaríkjunum

Atburðir síðustu daga á fjármálamörkuðum eiga sér enga hliðstæðu síðan í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Bandaríska ríkið hefur neyðst til þess að hlaupa undir bagga með mörgum af stærstu og rótgrónustu fjármálafyrirtækjum heims. Og mörg önnur slík fyrirtæki riða til falls og leita nú logandi ljósi að einhverjum sem er tilbúinn að kaupa þau.

Atburðir síðustu daga á fjármálamörkuðum eiga sér enga hliðstæðu síðan í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Bandaríska ríkið hefur neyðst til þess að hlaupa undir bagga með mörgum af stærstu og rótgrónustu fjármálafyrirtækjum heims. Og mörg önnur slík fyrirtæki riða til falls og leita nú logandi ljósi að einhverjum sem er tilbúinn að kaupa þau.

Það var fyrst í mars sem Seðlabanki Bandaríkjanna veitti 30 milljarða dala fyrirgreiðslu til þess að liðka fyrir því að JPMorgan Chase keypti Bear Sterns. Fyrr í þessum mánuði þjóðnýtti síðan ríkisstjórn Bandaríkjanna Fannie Mae og Freddy Mac og tóku með því yfir 5300 ma. dollara skuldbindingar þeirra. Um helgina ákvað ríkið að hlaupa ekki undir bagga með Lehman Brothers en leyfa þeim banka þess í stað að fara í þrot sem hann gerði á mánudaginn. Á þriðjudaginn snéri ríkið hins vegar við blaðinu og þjóðnýtti svo gott sem stærsta tryggingafyrirtæki Bandaríkjanna AIG.

Á síðustu dögum hafa hlutabréfavísitölur um allan heim hrunið. Og gengi fjármálafyrirtækja hefur hrunið mest. Þannig hefur gengi í Goldman Sachs, virtasta fjárfestingarbanka Bandaríkjanna, hrunið um ríflega þriðjung síðan á föstudaginn. Merrill Lynch sá þann kost vænstan að selja sig inn í Bank of America. Og Morgan Stanley virðist nú vera að hugsa á svipuðum nótum. Ljóst er að landslagið á bandarískum fjármálamarkaði verður aldrei hið sama aftur.

Mjög skiptar skoðanir eru um skynsemi þess að ríkið hafi hlaupið undir bagga með öllum þessum fyrirtækjum. Hallmælendur þess telja að þessar aðgerðir ríkisins muni skapa slæmt fordæmi sem muni í framtíðinni leiða til þess að fyrirtæki á fjármálamarkaði taki of mikla áhættu. Það virðist nokkuð ljóst að slík freisni hafi átt stóran þátt í því hvernig fór fyrir Fannie Mae og Freddie Mac. Þau fyrirtæki höfðu á undanförnum árum unnið hörðum höndum að því að koma í veg fyrir að ríkið setti reglur sem takmörkuðu þá áhættu sem þau máttu taka. Á meðan juku þau verulega þá áhættu sem þau tóku og högnuðust verulega um tíma. Hagnaðurinn fór til hluthafanna. En nú liggur tapið sem eftir stendur hjá skattborgurum.

En enginn veit hins vegar hversu alvarleg núverandi kreppa gæti orðið ef bandaríska ríkið ákveddi að halda að sér höndum og láta mörg af stærstu fjármálafyrirtækjum landsins fara í gjaldþrot. Margir óttast að slík stefna myndi leiða til þess að núverandi krísa sem hefur hingað til aðallega haft áhrif á Wall Street breyttist í djúpa kreppu fyrir hagkerfið í heild. Það virðist ljóst að stjórnvöld í Bandaríkjunum eru ekki tilbúin að hætta á að slíkt gerist.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.