Veikt gengi krónunnar?

Veiking krónunnar undanfarna mánuði hefur haft mikil áhrif á íslenskan almenning sem hefur fundið hressilega fyrir því hversu berskjaldað íslenska hagkerfið er fyrir erfiðleikum sem hófust annarsstaðar í heiminum.

Veiking krónunnar undanfarna mánuði hefur haft mikil áhrif á íslenskan almenning sem hefur fundið hressilega fyrir því hversu berskjaldað íslenska hagkerfið er fyrir erfiðleikum sem hófust annarsstaðar í heiminum. Þróuninni hafa fylgt almennar verðhækkanir, ekki síst á nauðsynjavörum og eldsneyti, og erlendar skuldir bæði hins opinbera og heimilanna hafa hækkað.

Með veikingu krónunnar og verri hag heimilanna virðist skapast þörf á að finna blóraböggla og helsta skotmarkið þessa dagana eru íslensku bankarnir. Þeim er kennt um að taka stórar stöður á móti krónunni, vinna þannig gegn hagsmunum almennings og græða á óförum þeirra sem eiga mikið undir því komið að krónan haldist sterk.

Varlega verður að fara í slíka gagnrýni þar sem krónan er þrátt fyrir allt á almennum markaði þar sem verðmyndun ætti alla jafna að fara eftir framboði og eftirspurn. Bankarnir nota að sjálfsögðu þann markað til að verja hagsmuni sína og í einhverjum tilfellum reyna þeir að hagnast með stöðutöku. Í þeim tilfellum veðja þeir á að ákveðnar hreyfingar eigi sér stað og hafa einungis rétt fyrir sér ef ríkjandi markaðaðstæður þrýsta á gengi krónunnar þeim í hag eða aðstæðurnar sjálfar breytast eins og spáð var fyrir um.

Þetta er einmitt það sem við höfum séð undanfarna mánuði á markaði með íslenskar krónur. Aukin áhættufælni hefur leitt til þess að háir íslenskir vextir virka ekki eins vel og áður til að laða að erlenda fjárfesta. Sú viðhorfsbreyting ásamt miklum viðskiptahalla hefur átt sinn þátt í dýfu gengisins.

Vissulega geta spákaupmenn þrýst nógu mikið á gengið svo að það verði óeðlilega hátt eða of lágt til skamms tíma. En svo lengi sem markaðurinn er opinn og allir hafa jafnan aðgang að upplýsingum sem gætu haft áhrif, ætti slík verðmyndun að skapa hagnaðartækifæri fyrir spákaupmenn. Sú staðreynd að fjárfestar hafa ekki séð sér leik á borði og keypt krónur gefur til kynna að núverandi gengi gefur þrátt fyrir allt rétta mynd af ríkjandi aðstæðum.

Bankarnir hafa á undanförnum árum reynt eftir fremsta megni að dreifa áhættu sinni og minnka áhrif íslensks hagkerfis á afkomu þeirra. Sú viðleitni hefur gert þá betur í stakk búna til að takast á við þann ólgusjó sem ríkir á fjármagnsmörkuðum og ætti að stuðla að því að áfram verði hálaunuð sérfræðistörf í fjármálaþjónustu fyrir Íslendinga svo ekki sé talað um fjölbreyttara atvinnulíf.

Veikt gengi krónunnar er því ekki tengt illvilja eða græðgi spákaupmanna heldur eru langoftast undirliggjandi ástæður fyrir hreyfingum þess. Það eru þessar undirliggjandi ástæður sem hið opinbera, atvinnulífið og almenningur ætti að beina spjótum sínum að og eru að einhverju leyti sjálfskapað víti. Ef veik króna skapar ekki tækifæri fyrir útflutningsgreinar eða þá sem hafa tekjur erlendis hefur gengið verið of sterkt og leiðrétting því nauðsynleg.

Því blasir við að verkefni næstu missera er að efla útflutningsgreinarnar enn frekar og auka breidd atvinnulífsins sem ásamt heilbrigðum gjaldeyrismarkaði ætti að geta bætt stoðir íslenska hagkerfisins og styrkt gengi krónunnar.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.