Um þjóðhagsleg áhrif Kárahnjúkavirkjunar

Virkjanir og álver myndu skapa hagvöxt í byggingar- og áliðnaði á næstu árum. En sá hagvöxtur myndi að stærstum hluta koma á kostnað hagvaxtar annars staðar í hagkerfinu.

Nokkuð hefur borið á því í umræðunni um þjóðhagsleg áhrif Kárahnjúkavirkjunnar og álvers í Reyðarfirði að því sé haldið fram (beint eða óbeint) að þessi risavöxnu verkefni geti komið sem hrein viðbót við það sem annars myndi verða. Þeir sem telja að þannig sé málum háttað gera vitaskuld mikið úr þjóðhagslegum áhrifum verkefnanna. Sumir tala meira að segja um að lífskjör á Íslandi muni í einu vetfangi kastast upp fyrir lífskjör allra annarra landa.

Þetta er vitaskuld hinn versti misskilningur. Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði munu að verulegum hluta koma til á kostnað hagvaxtar annars staðar í hagkerfinu. Helgast það af því að vinnuafl íslensku þjóðarinnar er takmörkuð auðlind. Ef mörg þúsund störf verða til á Austurlandi við virkjanaframkvæmdir og í áliðnaði verður það til þess að önnur störf sem annars myndu verða til geta ekki orðið til þar sem ekki er til fólk til þess að sinna þeim.

Upp á síðkastið hefur reyndar nokkuð rofað til hjá þjóðinni hvað varðar skilning á þessu. Flestir skilja í dag að virkjun og álver myndi leiða til „þenslu”, sem aftur myndi leiða til þess að Seðlabankinn hækkaði vexti, sem aftur myndi (vonandi) koma í veg fyrir að hagkerfið „ofhitnaði”. Það sem átt er við með þenslu er í raun umframeftirspurn eftir vinnuafli. Seðlabankinn hækkar vexti við slíkar aðstæður til þess að halda aftur af vexti fyrirtækja og þar sem stemma stigu við eftirspurn eftir vinnuafli.

Ef allt gengur að óskum tryggir þetta ferli að atvinnuleysi sé nálægt jafnvægi á næstu árum hvort sem ráðist er í þessi miklu verkefni eða ekki. Ef ráðist er í þau verða vextir háir og störf munu aðallega verða til í byggingariðnaði og áliðnaði á næstu árum. Ef ekki þá verða vextir lægri svo fleiri störf geti orðið til annars staðar í hagkerfinu.

Í viðtali í Morgunblaðinu sunnudaginn 28. júlí hélt Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, því fram að „Með því að renna fleiri stoðum undir efnahaginn með nýtingu náttúruauðlindanna þá erum við í leiðinni að bæta möguleika þeirra sem vilja vinna að verkefnum sem krefjast hugvits og þekkingar. … Skynsamleg nýting náttúruauðlinda í hafi og á landi er forsenda fyrir því að við getum rekið hér svokallaðan þekkingariðnað.” Þetta er vitaskuld fáránleg fullyrðing. Uppbygging virkjanna og álvers bindur vinnuafl og hækkar vexti og er því steinn í götu þeirra sem vilja reka þekkingariðnað á Íslandi.

En það er ekki þar með sagt að ágóði okkar Íslendinga af Kárahnjúkavirkun og álveri í Reyðarfirði verði enginn. Að svo miklu leyti sem vinnuafl og fjármagn þjóðarinnar verður betur nýtt við virkjana- og álversframkvæmdir en það annars yrði er um ágóða fyrir þjóðina að ræða. Það að auki erum við vitaskulda að nýta orku fallvatnanna, framleiðsluþátt sem hingað til hefur aðallega haft tilfinningalegt verðmæti.

Þar sem störf í byggingar- og áliðnaði eru oft betur borguð en flest önnur störf sem ekki krefjast mikillar menntunar er líklegt að ágóði þjóðarinnar verði talsverður. Þar að auki er líklegt að verkefnin muni hafa jákvæð áhrif á framleiðnir í þjónustugeiranum á Austurlandi þar sem sveitarfélögin þar munu stækka í hagkvæmari einingar.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.