Klækir í Vatnsmýrinni

Umræðan um Reykjavíkurflugvöll er að hefja sig til flugs á ný. Síðast þegar hún var í hámæli var varla hægt að opna dagblað án þess að lesa aðsenda grein um flugvallarmálið og fengu líklega margir sig fullsadda á þeirri orrahríð.

Umræðan um Reykjavíkurflugvöll er að hefja sig til flugs á ný. Síðast þegar hún var í hámæli var varla hægt að opna dagblað án þess að lesa aðsenda grein um flugvallarmálið og fengu líklega margir sig fullsadda á þeirri orrahríð. Því dofnaði umræðan, önnur mál fengu forgang og sverðin voru slíðruð án þess að niðurstaða fengist.

En hvorki andstæðingar né fylgjendur eru af baki dottnir. Pólitískar hryðjuverkaárásir verða sífellt algengari. Nýjasta dæmið er samkomulag Reykjavíkurborgar og samgönguráðuneytisins um samgöngumiðstöð sem á líklega að vera svar við nýjum skipulagshugmyndum í Vatnsmýrinni án flugvallarins. Menn hafa stórar hugmyndir um Vatnsmýrina hvort sem þeir telja að flugvöllurinn verði áfram eða hann fari. Allt í þeim tilgangi að gera flutning flugvallarins úr höfuðborginni auðveldari eða erfiðari.

Fyrir hinn almenna íbúa Reykjavíkur er ástandið ólíðandi. Þetta er hápólitískt mál sem hefði átt að afgreiða fyrir löngu. Ástæða þess að það hefur ekki verið gert er hversu djúpstæður ágreiningurinn er og að andstæð sjónarmið ganga þvert á pólitískar línur. Í hópi þeirra sem eru fylgjandi flugvellinum er fólk úr öllum flokkum og sama má segja um þá sem eru andstæðir. Svo virðist sem að almenn uppgjöf ríki á því að takast á um kjarna umræðunnar og því nota stjórnmálamenn úr báðum fylkingum áhrif sín til að vinna málstað sínum framgang.

Þegar fulltrúalýðræðið bregst, eins og í flugvallarmálinu, eða málið er talið þeim mun mikilvægara er hægt að nýta almenna atkvæðagreiðslu til að niðurstaða fáist. Verður það þó að teljast hálfgert neyðarúræði sem ber að taka alvarlega og mætti vel rökstyðja að niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu sé úrslitavald í lýðræðislegri ákvörðunartöku. Kosnir fulltrúar gefa frá sér umboðið til kjósenda sem ákveða síðan hvaða niðurstaða verður ofan á.

Þessi leið var farin í flugvallarmálinu og þó að niðurstaðan hafi ekki verið lagalega bindandi fyrir borgarstjórn, er ekki hægt að ætla annað en almenningur hafi skorið á hnútinn og útkljáð málið í eitt skipti fyrir öll. Þó að kosningaþátttaka hafi verið lítil verður ekki fram hjá því litið að um málið var kosið og þeir sem höfðu skoðun á því hvernig framtíðarskipulagi Vatnsmýrarinnar yrði háttað höfðu tækifæri til að gefa skoðun sinni vægi.

Niðurstaðan var að flugvöllurinn ætti ekki að vera í Vatnsmýrinni. Ef sú niðurstaða er virt að vettugi er gengið þvert á vilja borgarbúa og allar tilraunir til að festa flugvöllinn í sessi með klækjum er í besta falli móðgun við þá og vilja þeirra.

Andstæðingar flutnings flugvallarins hafa bent á að Reykjavík sé höfuðborg alls landsins og því mikilvægt að hann haldi staðsetningu sinni nálægt stjórnsýslunni. Þó verður ekki fram hjá því litið að meira en 60% landsmanna býr á höfuðborgarsvæðinu og meirihluti þeirra virðist vilja flugvöllinn burt. Varla þarf samþykki allra landsmanna fyrir skipulagsbreytingum höfuðborgarinnar.

Andstaðan við flugvöllinn kemur kannski eðlilega frá íbúum landsbyggðarinnar og þingmönnum þaðan. En það sem er óeðlilegt er að á meðan þeir eru í áhrifastöðum á vegum ríkisins er framtíðarskipulagi Reykjavíkur haldið í gíslingu og klækjum er beitt til að tryggja að svo verði áfram.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.