Þverpólitískt „úps“

Ber það virkilega vott um árangur í baráttu gegn spillingu að nefnd pólitíkusa skyldi komast að samhljóða niðurstöðu um að REI-málið hafi verið svoddan klúður?

Ber það virkilega vott um árangur í baráttu gegn spillingu að nefnd pólitíkusa skyldi komast að samhljóða niðurstöðu um að REI-málið hafi verið svoddan klúður?

Ef pólitískar ákvarðanir og ráðningar eru vondar þá eru þær þverpólitísku margfalt verri. Sendiherraskipanir eru gott dæmi. Einn daginn var Svavar Gestsson svarinn andstæðingur ríkisstjórnarinnar, þann næsta var hann orðinn í talsmaður hennar erlendis. Guðmundur Árni studdi einn manna umdeilt frumvarp sem einmitt átti að koma veg fyrir sókn útbrunninna stjórnmálamanna í ýmsar opinberar tyllistöður. Að launum var hann gerður að sendiherra.

Eðlilega verða pólitískir andstæðingar stundum vinir í daglegu lífi, enda ekki nema mannlegt þegar menn þurfa að deila þingsal svo árum skipti. En að það skyldi víðtekin venja að nota utanríkisþjónustuna sem fjórðu stoð almannatryggingakerfis eldri stjórnmálamanna er óþolandi. Það er hægt að skilja að menn fylli sendiherrastöðum af mönnum sem eru þeim sammála. En að menn skildu setja þangað menn sem eru þeim ósammála er erfiðara að ná utan um. „Karlinn á þetta skilið,“ virðist viðmótið vera.

Að auki er ófaglegri pólitískri ráðningu ávallt mótmælt harðlega. En gagnrýni á ófaglega þverpólitíska ráðningu kæfir sjálfa sig í fæðingu. Því auðveldlega er hægt að benda á að slík ráðning sé ekki pólitísk og það þykir vera einhver trygging fyrir því að hún sé góð. Á sama hátt virðast menn telja sem mesti styrkur skýrslunnar um REI-málið hafi verið sá að niðurstaðan hafi verið að niðurstaðan hafi verið þverpólitísk. Að málið hafi verið massaklúður en hver og einn verði að eiga það við sjálfan sig hvað hann gerir næst. Sannkallaður stóráfangi í baráttu gegn spillingu!

Eftir allan hamagang seinasta hausts og harðorðar yfirlýsingar þá hefur niðurstaðan með rannsókninni orðið sú að segja ætti „æjæ“, „úps“ og „obbosí“ og taka sig svo á í framtíðinni. Hið þverpólitíska bandalag um ábyrgðarleysi pólitíkusanna hefur staðið af sér áhlaupið. Svandís Svavarsdóttir hefur náð sér í verðmæt stig í baráttu um sendiherrastöðu einhvern tímann í framtíðinni.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.