Pólverjinn sem vissi ekki betur

Hamingjusama hóran er komin með kærasta. Það er Pólverjinn sem vissi ekki að ölvunarakstur væri bannaður. Saman geta þau haldist í hendur, horft á sólsetrið og ort ljóð um hvernig sé að vera ungur, fátækur og ekki til.

Hamingjusama hóran er komin með kærasta. Það er Pólverjinn sem vissi ekki að ölvunarakstur væri bannaður. Saman geta þau haldist í hendur, horft á sólsetrið og ort ljóð um hvernig sé að vera ungur, fátækur og ekki til.

Það eru tveir pólar þegar kemur að afstöðu fólks til innflytjenda. Annars vegar eru það þeir sem eru hræddir við þá og svo hinir sem vorkenna þeim. Umræðan um ölvunarakstur útlendinga, og aðra glæpi sem þeir kunna að fremja hefur gegnsýrst af þessu. „Allir Pólverjar keyra fullir,“ segir hinn skíthræddi. „Já, en þeir vita ekki betur. Við verum að fræða þá betur um það sé bannað,“ svarar sá miskunnsami.

Hugsanlega hefur það einhvern tímann gerst að lögreglan hafi tekið einhvern Pólverja fullan við akstur og að hann hafi borið fyrir sér menningarólæsi og sagst ekki vita betur. Slík fullyrðing átti að fara á langan lista yfir lélegar afsakanir ölvaðra ökumanna ásamt „ég var bara að færa bílinn“ og „ég vissi ekki að bollan væri áfeng.“

Kannski er þessi saga sönn, kannski ekki. Kannski var þessi Pólverji til, kannski ekki. Enn eitt sem er víst að Pólverjinn sem veit ekki að ölvunarakstur er hættulegur og bannaður, sá Pólverji er ekki til. Pólsk lög um ölvunarakstur eru þannig mun strangari en þau íslensku. Leyfileg mörk áfengis í blóði ökumanna í Póllandi eru 0,2 prómil, samanborið 0,5 prómil á Íslandi. Íslenskur ökumaður sem mælist með 0,6 prómil í blóð getur átt von á 2 mánaða ökuleyfissviptingu, 12 mánaða sviptingu er beitt ef vínandamagn fer yfir 1,2 prómil. Allir ökumenn í Póllandi sem mælast yfir 0,5 prómilum eru sviptir ökuleyfum í 12 mánuði.

Fréttir af ölvuðum ökumönnum eru tíðar í pólskum fjölmiðlum. Viðbrögð almennings við þeim fréttum eru þau sömu og viðbrögð almennings á Íslandi: mikil hneykslan og algjör samfélagsleg fordæming þeirra einstaklinga sem um ræðir. Og viðbrögðin eru að sjálfsögðu enn harðari ef slys verða á fólki. Ég hef aldrei rekist á þau sjónarmið í pólskum fjölmiðlum að þetta „væri nú bara hluti af okkar menningu.“ Kannski er samt til einhver sem heldur þessu fram. Hann er þá væntanlega bróðir mannsins sem vissi ekki betur.

Afstaða pólsks almennings og löggjafans hefur einnig harðnað mjög á seinustu árum. Nú geta þingmenn til dæmis ekki lengur skýlt sér á bak við þinghelgi til að komast hjá dómi ef þeir keyra drukknir. Þá hefur komið til tals að birta nöfn og myndir þeirra sem verða teknir í blöðum og jafnvel að gera ökutæki þeirra upptæk.

Er með þessu sagt að ölvunarakstur sé ekki vandamál í Póllandi? Nei, lög og afstaða við brotum ókunnugra segja lítið um raunverulegt ástand. Sumarið 2006 framkvæmdu Evrópsku umferðarlögreglusamtökin TISPOL, samræmda rannsókn á ölvunarakstri evrópskra vegfarenda í 19 löndum. Pólverjar voru þeir fjórðu verstu á listanum en 5,77% allra ökumanna reyndust ölvuð þá vikuna sem rannsóknin fór fram! Einungis Bretland, Slóvenía og Portúgal komu verr út en í þeim löndum var yfir 8,7% allra ökumanna undir áhrifum áfengis! Á Norðurlöndum var hlutfallið um og undir 1%. Ísland tók ekki þátt í könnuninni.

Það þýðir því ekki að deila á það að ölvunarakstur sé mikið samfélagslegt vandamál í Póllandi eins og víða í heiminum. En þótt það sé eflaust vel meint að nota einhverja „þjóðarmenningu“ til að afsaka ölvunarakstur nokkurra einstaklinga þá er slíkur móralskur stórkallaháttur einfaldlega móðgun við viðkomandi þjóð og viðkomandi menningu. Nauðganir á útihátíðum eru smánarblettur á íslensku samfélagi. Þær eru ekki hluti af íslenskri menningu. Hvað finndist okkur ef viðbrögð við ólátum einhverra Íslendinga á Hróaskeldu væru „Þetta eru Íslendingar, þeir vita ekki betur.“

Það eru aðeins ein rétt viðbrögð við ölvunarakstri, sama hver á í hlut, þau eru að sekta og svipta. Það á ekki að sakfella heilu þjóðflokkana né heldur að afsaka glæpi einstaklinga með meintri víðsýni í garð meintrar menningar þeirra. Ölvunarakstur er ákvörðun. Sautján ára fullur Íslendingur, tvítugur fullur Pólverji, fertugur fullur Spánverji og fimmtug full bresk kona eiga eitt sameiginlegt (fyrir utan að vera full).

Þau vissu öll betur.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.