Hrun dollarans

Árið 2000 kostaði um tíma 0.85 bandaríkjadali að kaupa eina evru. Í dag þurfa Bandaríkjamenn hins vegar að greiða 1.46 dali fyrir hverja evru sem þeir kaupa. Á þessum tíma hefur gengi dollarans gagnvart evru því hrunið um rúmlega 40%. En það eru mörg ríki sem festa gengi gjaldmiðla sinna við dollarann. Gengi þessara gjaldmiðla hefur því hrunið að sama skapi og gengi bandaríkjadollara.

Árið 2000 kostaði um tíma 0.85 bandaríkjadali að kaupa eina evru. Í dag þurfa Bandaríkjamenn hins vegar að greiða 1.46 dali fyrir hverja evru sem þeir kaupa. Á þessum tíma hefur gengi dollarans gagnvart evru því hrunið um rúmlega 40%. Dollarinn hefur einnig fallið mikið gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Nú er til dæmis svo komið að Kanadadollar er verðmeiri en Bandaríkjadollar í fyrsta skipti í áratugi.

Þetta gríðarlega hrun á gengi dollarans hefur leitt til þess að verðlag í Bandaríkjunum er miklu lægra í samanburði við önnur lönd en það var fyrir nokkrum árum. Fyrir nokkrum árum var til dæmis talsvert ódýrara að fara á skíði í Kanada en í Bandaríkjunum. Þetta hefur algerlega snúist við. Lágt verðlag í Bandaríkjunum hefur ýtt mjög undir verslunarferðir Evrópubúa til Bandaríkjanna. Sagt er að slíkar ferðir hafi margfaldast og að þær séu ein af ástæðum þess að jólaverslun í Bandaríkjunum virðist fara ágætlega af stað þrátt fyrir að teikn séu á lofti um kreppu í Bandaríkjunum.

En það eru mörg ríki sem festa gengi gjaldmiðla sinna við dollarann. Gengi þessara gjaldmiðla hefur því hrunið að sama skapi og gengi bandaríkjadollara. Til dæmis festa mörg af olíuríkjunum við Persaflóa gengi gjaldmiðla sinna við gengi dollarans. Á sama tíma og gengi dollarans hefur hrunið hefur verð á olíu margfaldast. Þessi þróun hefur leitt til þenslu og hækkandi verðbólgu í þessum ríkjum.

Kína hélt gengi yuansins föstu við dollarann lengi framanaf þessum áratug. Þensla í Kína hefur farið vaxandi og hafa Kínverjar því leyft gengi yuansins að hækka hægt og bítandi gagnvart dollar síðustu tvö árin. Svo virðist sem hröðun hafi orðið á hækkun yuansins síðustu mánuði.

Ríkin við Persaflóa virðast nú loksins vera farin að hugleiða það að leyfa gengi sinna gjaldmiðla að hækka gagnvart dollar. Það myndi rétta af verðlag í þessum löndum og draga úr þenslu. Það myndi einnig minnka þrýstingin á gengi dollarans gagnvart evru, pundi og Kanadadollar.

Framanaf þessum áratug jókst viðskiptahalli Bandaríkjanna án afláts þrátt fyrir veikari og veikari gjaldmiðil. Nú virðist hins vegar sem lágt gengi dollarans sé loksins farið að hafa veruleg áhrif á útflutningsverslun Bandaríkjanna. Gengi dollarans er líklegt til þess að halda áfram að lækka á næstu misserum, sérstaklega gagnvart Kína og ríkjunum við Persaflóa. En gagnvart evru er erfitt að sjá að gengi dollarans geti hrunið mikið meira.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.