Hví varð allt svo glatt við helfregn þína?

Það er lenska þessa dagana að stofna sérframboð fyrir þingkosningar í vor. Framtíðarlandið-þeir sem vilja vernda náttúruna til framtíðar-hugði lengi á framboð og ekki eru öll kurl komin til grafar með hugsanlegt klofningsframboð hluta þeirra.

Þær eru víða vindmyllurnar!

Það er lenska þessa dagana að stofna sérframboð fyrir þingkosningar í vor. Framtíðarlandið-þeir sem vilja vernda náttúruna til framtíðar-hugði lengi á framboð og ekki eru öll kurl komin til grafar með hugsanlegt klofningsframboð hluta þeirra. Ekki má gleyma síðan Fortíðarlandinu-þeir sem vilja huga betur að öldruðum og öryrkjum og Baldri Ágústssyni- sem ætlar sér í framboð. Síðast en ekki síst má síðan telja upp Margrétarlandið-sem vill Margréti Sverrisdóttur og fylgihnetti hennar á þing-en um stefnumál þess framboðs er allt óljóst og þá hvort eða hversu mikið stefnumál framboðsins snúast um Margréti sjálfa.

En stofnun sérframboða er ekki eina vinsæla hátískan á þessu síðasta pólitíska tímabili rétt fyrir kosningar. Einnig virðist vinsælt vera að skipta um flokka, eða að gerast flokkaflótta og fá pólitískt hæli annars staðar, þegar farið er í fýlu. Pólitískt skjól virðist vera að finna í Frjálslynda flokknum þar sem langhraktir pólitískir landpóstar geta komið hreggbarðir inn eftir gjörningahríð stjórnmálanna og þá beina með þeim skilyrðum samt- að því er virðist- að þeir lýsi yfir stuðningi sínum við flokkinn í kvótamálum og að innflytjendur séu smitsjúkdómavaldur sem gjalda beri varhug við að hleypa inn í landið í of stórum hjörðum. Og allir una glaðir við sitt.

Skemmst er frá að minnast þess þegar Valdimar Leó Friðriksson þingmaður Samfylkingar gekk í Frjálslynda flokkinn, eftir að hafa tapað í prófkjöri Samfylkingar.

Og enn bætist við í Frjálslynda flokkinn eftir að Kristinn H Gunnarsson, fyrrum allaballi og nú fyrrum framsóknarmaður hefur tilkynnt að hann ætli sér að ganga til liðs við frjálslynda.

Það er akkur fyrir sérhvern stjórnmálaflokk að fá reynsluboltann Kristinn til liðs við sig, enda þarfnast ekki sá stjórnmálaflokkur sem hefur Kristinn innanborðs stjórnarandstöðu í sjálfu sér, þar sem Kristinn virðist geta haldið uppi málþófi og andstöðu einn og óstuddur. En það getur líka verið áhyggjuefni fyrir flokk að fá Kristinn til liðs við sig, þar sem hann hefur tilhneigingu til þess að breyta til og skipta um lið í sífellu.

Eitt er víst: Í gær hefur þingflokkur framsóknarmanna skálað í kampavíni, eftir tilkynningu Kristins um að hann væri farinn frá þeim. Sjaldan hefur pólitískri helfregn verið tekið af eins mikilli gleði og ánægju í framsóknarflokknum, og er þar nú á ferðinni væntanlega taumlausasti fagnaður síðan Jónas frá Hriflu hætti á þingi um árið.

Annað getur líka verið víst: Í fréttum í gær lýsti Kristinn því yfir að hann vildi vinna lýð og landi áfram gagn í stjórnmálum. Einhvern veginn skildi Helgarnestið þessi orð þannig að Kristinn vildi halda áfram að vinna sjálfum sér gagns og gamans á þingi.

Einhvern veginn að loknu þessu Helgarnesti föstudaginn 9. febrúar 2007, hljómar í síbylju hinn gamalkunni slagari Windmills of your mind í eyrum nestisins!

Skyldi það vera tilviljun?

Held samt ekki!

Góða helgi!

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.