Heyrði ég þá þinn hjartaslátt, heyrði ég þá þinn andardrátt!

Því hefur verið haldið fram að Ísland sé glæsilegasta sveitarfélag í heimi. Lesendum sem ekki hafa fylgst með sameiningu sveitarfélaga á síðustu árum-enda slík eftirtekt falin til þess að æra óstöðugan- er bent á að ekkert sveitarfélag ber enn þá heitið Ísland og er hér átt við það fyrirbæri sem nefnt hefur verið í lærðum bókum lýðveldið Ísland.

Því hefur verið haldið fram að Ísland sé glæsilegasta sveitarfélag í heimi. Lesendum sem ekki hafa fylgst með sameiningu sveitarfélaga á síðustu árum-enda slík eftirtekt falin til þess að æra óstöðugan- er bent á að ekkert sveitarfélag ber enn þá heitið Ísland og er hér átt við það fyrirbæri sem nefnt hefur verið í lærðum bókum lýðveldið Ísland.

Röksemdafærslan er eitthvað á þá leið að ekkert annað sveitarfélag geti af því státað að vera lýðveldi sem heldur úti fullburða utanríkisþjónustu, miðstýrðu ríkisvaldi, lagskiptri staðstjórn og sérstakri veðurstofu. Vart ber að taka fram-en nauðsynlegt þó- að ofangreind fullyrðing á sér ekki stoð í stjórnskipunarfræðum og verður vart undir hana skotið fræðilegum fæti. Er frekar um að ræða tilraun gárunga til að draga fram grátbroslegt mein á þjóðarsálinni sem felur í sér höfðatölusamanburðarsýki og sífellda þrá til þess að túlka stöðu Íslands á alþjóðavettvangi sem gerenda í stað áhorfanda.

Bæst hefur í fjólubeð þeirra sem hneigjast að slíkum gálgahúmor á liðnum vikum þegar upp hefur komið að hleranir hafa verið stundaðar á Íslandi áratugum saman og áhöld eru um hvort þær séu stundaðar enn. Er slíkt til þess fallið að gera Ísland að enn glæsilegra sveitarfélagi heldur en áður hefur verið talið

Ber hins vegar ekki að hafa slíkt í flimtingum, enda um háalvarlegt mál að ræða.

Á tímum kalda stríðsins voru stundaðar umtalsverðar njósnir af hálfu Bandaríkjamanna og Sovétríkjanna-einnig hér á landi. Á sjötta áratugi síðustu aldar komst upp um tilraunir af hálfu ríkja Varsjárbandalagsins til þess að fá Íslendinga til þess að afla upplýsinga hér á landi.

Róstursamt var og í íslenskum stjórnmálum á sjötta og áttunda áratugi síðustu aldar og sátu þar vinstri stjórnir að völdum sem höfðu að yfirlýstu markmiði að herinn hyrfi héðan af landi brott, en aðrar stjórnir studdust iðulega við fylgi flokka sem unnu bæði til vinstri og hægri. Voru þeir hagsmunir sem bandarísk stjórnvöld höfðu hér á landi ríkir af því að vita raunverulega afstöðu Íslendinga. Vart verður annað talið-þrátt fyrir að því verði ekki slegið föstu-að bandarísk stjórnvöld hafi stundað njósnir hér á landi í einhverju formi og verið með sér handgengna menn í því skyni að afla upplýsinga um afstöðu Íslendinga.

En þær upplýsingar sem rannsóknir fræðimanna hafa nú leitt í ljós um að símhlerarnir hafi farið fram á vegum íslenskra stjórnvalda á tímum kalda stríðsins, ásamt yfirlýsingum fyrrverandi utanríkisráðherra um að þeir hafi vitað til þess að símar þeirra væru hleraðir eru nýjar af nálinni. Er reyndar með ólíkindum að í jafn litlu landi og stjórnkerfi að slíkar hleranir hafi verið stundaðar, án þess að slíkt hafi frést eða verið á vitorði fjölda manna. Þetta ber að rannsaka og kanna sannleiksgildi þess frekar.

Í fyrsta lagi þarf að komast að því að hvaða marki símhleranir og önnur slík leynileg upplýsingastarfsemi var stunduð á vegum íslenskra stjórnvalda. Á hvaða tímabili var slík starfsemi stunduð? Hvernig var meðferð þessara upplýsinga háttað?

Í annan stað er nauðsynlegt að fá að vita hverjir stóðu fyrir slíkum símhlerunum og með hvaða hætti og hvernig slíkar ákvarðanir voru teknar. Var heimilda dómstóla aflað til slíkra rannsókna eða voru þær gerðar án þess að til þeirra stæði sérstök heimild í landslögum?

Stjórnarandstaðan hefur í liðinni viku gert sitt ýtrasta til þess að gera málið flokkpólitískt og til þess að klambra saman úr því pólitíska keilu. Er slíkt óþolandi og í raun dæmigert fyrir stjórnmálaumræðuna; þessi tilhneiging til þess að höggva höggins vegna og persónugera alla mögulega og ómögulega hluti. Stjórnarandstaðan hefur hengt sig með trúuðu offorsi á opinbera rannsóknarnefnd eins og Norðmenn gerðu og tönnlast á því að þörf sé á opinberri rannsókn.

Hvernig þetta verður gert er aukaatriði og hvort sem það verður gert með opinberri rannsóknarnefnd, rannsóknum fræðimanna, rannsókn lögreglu eða öðrum hætti er þörf á því að ræsa fenið fram og setja punkt við söguna. Forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra hafa enda lýst því fram að ekkert sé að fela.

Því má ekki gleyma að sú veröld, sem var á tímum kalda stríðsins, er horfin. Sú áþreifanlega hætta, sem vígbúnaðarkapphlaup og kjarnorkuvá stórveldanna hafði í för með sér, hefur breyst ásamt hatrömmum deilum um vinstri og hægri, komma og kana og kanamellur og rússadindla. Fjarlægð í tíma er oft á tíðum nauðsynleg til þess að fjalla megi um liðna atburði hlutlægt, en jafn framt ber að forðast að beita mælistiku nútímans eða vitund okkar í dag um hvað sé rétt og rangt sjálfkrafa á liðna hluti og atburði.

Sagan kennir okkur að stjórnvöld hafi ekki alltaf skrifað mannréttindi borgaranna hátt og dómstólar hafi ekki verið uppteknir af því að standa vörð um réttindi borgaranna eða því eðlilega og sjálfsagða hlutverki að tempra athafnir löggjafans og framkvæmdavaldsins. Hugmyndir okkar um hlutverk ríksins, mannréttindi borgaranna og heimildir stjórnvalda hafa gjörbreyst sl tvo áratugi, þannig að það sem eitt sinn var þolað er ólíðandi í dag.

Öryggi ríkisins er eitt af þeim verkefnum sem stjórnmálamenn þurfa að kljást við eins ógeðfellt og sumum kann að finnast það. Tíðarandi fortíðar þar sem menn trúðu því að einstaklingar í samfélaginu stefndu að því kollvarpa þjóðskipulaginu og réttlættu þar með átroðning á friðhelgi einkalífsins á grundvelli neyðarréttarsjónarmiða er liðinn og kemur ekki til baka. Af hlerunum íslenskra stjórnvalda í fortíðinni má því draga þá lexíu að um leynilega starfsemi stjórnvalda verði að fara eftir lagaramma og heimildum sem löggjafinn setur þeim, en ekki sé pukrast í bakherbergjum með ólöglegum og ólögmætum hætti.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.